Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. ágúst 2011 Utanríkisráðuneytið

Íslandstorg vígt í Riga

6068735607_a302044197_b
6068735607_a302044197_b

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra var í dag viðstaddur vígslu Íslandstorgsins í Riga, höfuðborg Lettlands, ásamt Girts Valdis Kristovskis utanríkisráðherra. Á torginu var jafnframt afhjúpað minnismerki helgað því að Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Lettlands fyrir 20 árum. Í ávarpi sínu sagði utanríkisráðherra Lettlands að engin torg eða götur væru nefndar eftir öðrum ríkjum í borginni og að þetta væri í fyrsta skipti sem það hefði verið gert. Sagði Kristovskis það til marks um þakklæti lettnesku þjóðarinnar til hinnar íslensku fyrir að hafa brotið ísinn og þannig rutt brautina til sjálfstæðis, eins og Kristovskis komst að orði.

Í ávarpi sínu sagði Össur Skarphéðinsson Íslendinga vera djúpt þakkláta fyrir þennan heiður. Ísland hefði á sínum tíma einungis gert það sem var rétt, það er að styðja heilshugar sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Utanríkisráðherra sagði mikilvægt að smáríki stæðu saman, ekki síst í heimi þar sem hagsmunir og afl ráða miklu. Össur þakkaði lettnesku þjóðinni fyrir auðsýnda vináttu og stuðning við Íslands á liðnum árum. Hann sagði minnismerkið á Íslandstorgi endurspegla hin góðu samskipti ríkjanna og vonandi myndi það verða samkomustaður Letta og Íslendinga um alla framtíð. Fjölmenni var við vígslu Íslandstorgsins og meðal gesta voru Nils Ushakovs, borgarstjóri Riga, og Georgs Andrejevs, sem átti sæti á þjóðþingi Lettlands í aðdraganda þess að landið endurheimti sjálfstæði.

Fyrr í dag átti utanríkisráðherra fund með hinum lettneska starfsbróður sínum þar sem þeir ræddu m.a. tvíhliða samskipti ríkjanna, samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og alþjóðleg öryggismál. Þá ræddu ráðherrarnir stöðu aðildarviðræðnanna við Evrópusambandið og lýsti lettneski utanríkisráðherrann yfir fullum stuðningi við umsókn Íslands. Utanríkisráðherra átti einnig fund með nýkjörnum forseta Lettlands, Andris Berzins, sem tók við embætti 8. júlí síðastliðinn. Á fundinum ræddu þeir m.a. tvíhliða samskipti ríkjanna, stöðuna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og Evrópumál í víðu samhengi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum