Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. ágúst 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Mikilvægt að bæta umsjón og eftirlit með hellum

Frá undirritun friðlýsingar Kalmanshellis.
Frá undirritun friðlýsingar Kalmanshellis.

 

Mikilvægt er að umsjón og eftirlit með hellum sé með besta móti enda er þar um sérstæðar jarðmyndanir að ræða. Þannig mætti tryggja vernd þeirra og þau náttúruverðmæti sem í þeim felast. Þetta er meðal þess sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði í ávarpi sínu við undirritun friðlýsingar Kalmanshellis í Hallmundarhrauni á föstudag.

Umhverfisráðherra undirritaði friðlýsinguna við hátíðlega athöfn í félagsheimilinu Brúarási í Hvítársíðu þar sem viðstaddir voru landeigendur, heimamenn, sveitarstjórnarmenn, fulltrúar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands auk ráðherra og starfsfólks umhverfisráðuneytisins. Þá var þar viðstaddur Árni B. Stefánsson hellaáhugamaður sem sagði frá kynnum sínum af Kalmanshelli og sýndi myndir úr honum. Bar hann m.a. kveðju bandaríska hellafræðingsins, Jay R. Reich sem ásamt öðrum kortlaði hellinn árið 1993.

Leiddi rannsókn Reich í ljós að Kalmanshellir er í raun hellakerfi, í heildina 4.014 kílómetra langt, sem gerir hann að lengsta helli landsins. Hann hefur að geyma einstakar hraunmyndanir, dropasteina, rennslismynstur og storkuborð, m.a. næstlengsta hraunstrá í heimi, sem er 165 sentímetra langt.

Með friðlýsingu Kalmanshellis er leitast við að vernda hellinn, hinar einstæðu jarðmyndanir hans og hellakerfið allt. Markmiðið með friðlýsingunni er að koma í veg fyrir röskun og skemmdir á jarðmyndunum og eru því sérstakar takmarkanir á aðgangi að viðkvæmasta hluta hellisins.

Frá undirritun friðlýsingar Kalmanshellis.

Benti umhverfisráðherra m.a. á að Árni B. Stefánsson hefði unnið tillögu að flokkun hella hér á landi í samræmi við þær aðferðir sem hellafræðingar víða um heim hafa stuðst við. Allir gætu verið sammála um að æskilegt væri að stjórna umferð um hella, beita ítölu þar sem það á við og útbúa þá hella sem heimila á umferð um þannig úr garði að valdi minnstum skemmdum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum