Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. ágúst 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 10. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn mánudaginn 29. ágúst 2011, kl. 8:30, í fundarsal forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 4-6, 2. hæð.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar og Páll Þórhallsson (PÞ) skipaðir af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ), fulltrúar BHM, BSRB og KÍ. Kristín Ástgeirsdóttir og Magnús Pétursson voru fjarverandi.

Á síðasta fundi var byrjað að fara yfir athugasemdir og tillögur sem fram komu á vinnustofum um siðareglur sem haldnar voru í mars og apríl. Þá komst nefndin yfir fyrstu þrjá kaflana en þar sem langt er um liðið síðan var ákveðið að fara aftur yfir þær athugasemdir til upprifjunar. Varðandi fyrsta kaflann kom fram ábending um að ráðuneytisstjórar þyrftu að gera ráðherra grein fyrir fjárhagsstöðu. Einn hópur lagði til að vísað yrði í vanhæfisreglur stjórnsýslulaga í þessum kafla en nefndin var sammála um vísa hvorki í lög né starfmannahandbók eins og líka var lagt til.

Í öðrum kafla var ábending um að í fyrstu gein þyrfti að koma fram að þar væri átt við starfið sem slíkt en ekki einkalíf starfsmanna. Þá voru nokkrar athugasemdir varðandi fjórða lið og spurt hvort hann væri nauðsynlegur. GHÞ lagði til að setningin væri umskrifuð og lögð meiri áhersla á skyldur ráðuneytis en útgjöldin.

Í þriðja kafla voru athugasemdir við fyrsta lið sem þarf að skoða betur. Í þriðju grein er rétt að taka út setningu um að hlunnindi skuli talin fram til skatts. Varðandi gjafir ætti hvert ráðuneyti að setja sér reglur. Þá var ákveðið að færa fimmta lið í 4. kafla sem er um vinnubrögð. Einnig að 6. grein yrði færð í 1. kaflann og orðalag verði sem hér segir: Starfsfólk stjórarráðsins sýni óhlutdrægni og gæti þess að beita sér ekki í þágu einstakra aðila umfram aðra. Einnig var rætt um 7. liðinn en mjög mörgum þótti einkennilegt að kaup á kynlífsþjónustu væru tiltekin sérstaklega. Trúlega væri heppilegra að taka setninguna út en fjalla sérstaklega um þetta atriði í greinagerð.

Þá var ákveðið að sameina kafla 4. og 5. í einn og sleppa 1. lið í þeim síðarnefnda. Í 6. og síðasta kafla verður fyrsti liður nú númer þrjú og  seinni setningin þar verður: Einstaklingar gjalda þess ekki að veita slíkar upplýsingar.

JÓ mun útbúa endanlegt skjal í samræmi við ofannefndar breytingar sem síðan yrði sent til þeirra sem tóku þátt í vinnustofunum í vor. Þeir fái u.þ.b. viku til að koma með athugasemdir. Einnig þyrftum við að kynna siðareglurnar á fundi ráðuneytisstjóra og þeir síðan að ákveða hvernig væri best að kynna þær fyrir starfsmönnum. Á fundinum þyrfti að koma fram að samhæfingarnefndin vildi gjarnan senda fulltrúa á kynningarfundi í ráðuneytunum.

Ekki var tekin ákvörðun um næsta fund.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 10:00.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum