Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. september 2011 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra og Kuupik Kleist heita auknu samstarfi Íslendinga og Grænlendinga

Kupik Kleist og Össur Skarphéðinsson 2
Kupik Kleist og Össur Skarphéðinsson 2

Á fundi sínum í morgun hétu þeir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Kuupik Kleist, formaður grænlensku landstjórnarinnar auknu samstarfi milli þjóðanna bæði í tvíhliða verkefnum og í öðrum málefnum norðurslóða. Hagsmunir Íslendinga og Grænlendinga fara saman á fjölmörgum sviðum og samvinna hefur aukist á undanförnum árum m.a. í heilbrigðismálum, ferðamálum og flugsamgöngum. Ráðherrarnir ræddu sérstaklega orkumál, umhverfismál og málefni norðurslóða.

Ráðherrann og formaður heimstjórnarinnar voru sammála um að fundur Norðurskautsráðsins í Nuuk á Grænlandi í maí hafi markað tímamót í starfi ráðsins. Sérstaklega hafi verið mikilvægt að ná samningi um leit og björgun á norðurslóðum. Kleist tók vel í hugmyndir utanríkisráðherra um að stefna að samvinnu um að koma upp viðbúnaði á Íslandi um leit og björgun. Þá voru Össur og Kleist sammála um mikilvægi þess að gera samning um aðgerðir gegn olíumengun á norðurslóðum og að Íslendingar og Grænlendingar taki sameiginlega á til að koma á þeim samningi.

Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum, meðal annars að ræða áfram um að tengja saman orkuvinnslu á Grænlandi við Ísland, Færeyjar og Evrópu. Málið geti verið mikilvægt framfaramál þegar fram líða stundir.

Kuupik Kleist mun einnig funda með forsætis- og fjármálaráðherra um sameiginleg hagsmunamál Íslands og Grænlands.

Á meðan dvöl formanns grænlensku landsstjórnarinnar stendur mun hann heimsækja Alþingi, kynna sér orkumál og öryggis- og björgunarstörf ofl. Í tengslum við heimsóknina efnir Íslandsstofa einnig til sérstakrar kynningar á tækifærum til viðskipta og fjárfestinga fyrir íslensk fyrirtæki á Grænlandi, þriðjudaginn 6. september.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum