Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Viðurkenning sænskra dómstóla á rétti íslenskra námsmanna til almannatrygginga

Réttarhamar
Réttarhamar

Sænskur dómstóll hefur úrskurðað að sænsku tryggingastofnuninni (Försäkringskassan) hafi verið óheimilt að hafna umsókn íslensks námsmanns og maka hans um fæðingarorlofsgreiðslur á þeim forsendum að þau væru ekki tryggð í sænska almannatryggingakerfinu. 

Um mitt ár 2010 fóru að berast erindi til íslenska sendiráðsins í Stokkhólmi frá íslenskum námsmönnum sem höfðu fengið synjun frá sænsku tryggingastofnuninni (Försäkringskassan) um aðgang að almannatryggingakerfinu. Var meðal annars hafnað umsóknum um fæðingarorlof, húsaleigubætur, barnabætur og fleira.

Eitt þessara mála var fyrir nokkru kært til stjórnsýsludómstóls í Svíþjóð (Förvaltningsrätten). Þar átti í hlut sambýlisfólk sem hafði búið í Svíþjóð í tæpt ár þegar bæði sóttu um fæðingarorlofsgreiðslur í sænska almannatryggingakerfinu en fengu synjun.

Försäkringskassan synjaði námsmanninum um greiðslurnar á þeim forsendum að hann dveldi í Svíþjóð til að stunda nám og gæti því ekki talist með fasta búsetu þar samkvæmt tilteknu ákvæði í sænskum lögum um almannatryggingar. Synjun á umsókn makans var byggð á sömu forsendum.

Ákvörðunin byggðist á því að Försäkringskassan túlkaði sænsk lög, Evrópureglur og Norðurlandasamning um almannatryggingar á þann hátt að einstaklingur sem flytur búsetu sína til Svíþjóðar vegna náms teljist ekki búsettur í Svíþjóð.

Förvaltningsrätten hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að sambýlisfólkið teljist varanlega búsett í Svíþjóð í skilningi reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 og sé því tryggt innan sænska almannatryggingakerfisins. Einnig tekur Förvaltningsrätten fram að búsetuhugtak reglugerðarinnar sé sérstakt Evrópuréttarlegt hugtak og því ekki hægt að byggja mat á sérstökum viðmiðum í sænskum lögum.

Niðurstaða dómsins er sú að forsendur fyrir synjun hafi verið ólögmætar. Ákvörðun sænsku tryggingastofnunarinnar skal því felld úr gildi og mál sambýlisfólksins tekið fyrir aftur.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir dóminn mikilvægan því hann hljóti að hafa fordæmisgildi fyrir Íslendinga í sömu stöðu og þessir námsmenn.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum