Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. september 2011 Utanríkisráðuneytið

Loftferðasamningur milli Íslands og Víetnam undirritaður

IMGP0070
IMGP0070

Starfandi utanríkisráðherra, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, og varaforsætisráðherra Víetnam, Hoang Tsung Hai, undirrituðu í dag loftferðasamning milli Íslands og Víetnam. Þetta er fyrsti samningur ríkjanna á þessu sviði.

Samningurinn heimilar flugrekendum ríkjanna að fljúga áætlunarflug með farþega til ákvörðunarstaða í hvoru ríki og áfanga- og viðkomustaða á flugleiðinni auk víðtækra heimilda fyrir fraktflug. Samningurinn opnar einnig möguleika fyrir íslenska flugrekendur til að bjóða upp á leiguflug milli Íslands og Víetnam. Samningurinn við Víetnam styrkir möguleika íslenskra flugrekenda sem hafa sinnt og vilja sinna verkefnum í þessum heimshluta.

Á síðasta ári voru loftferðasamningar áritaðir við eftirtalin ríki: Armeníu, Barbados, Brasilíu, Chile, Jamaíku og Kólumbíu og er stefnt að undirritun þeirra við fyrsta tækifæri. Samningarnir munu auka svigrúm íslenskra flugrekenda sem vilja sinna verkefnum í þessum heimshlutum. Þá var í júní sl. undirritaður samningur um aðild Íslands að öðrum áfanga loftferðasamnings Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, en Ísland gerðist aðili að fyrsta áfanga þessa samnings í desember 2009. Samningurinn veitir íslenskum flugrekendum aukinn rétt til flugs milli Evrópuríkja og Bandaríkjanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum