Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. október 2011 Forsætisráðuneytið

Framkvæmdanefnd um launamun kynja skilar tillögum um tímasettar aðgerðir nú fyrir áramót

Ráðherranefnd um jafnrétti kynjanna fjallaði á fundi sínum í dag um launamun kynjanna og mögulegar aðgerðir gegn honum. Lýsti nefndin yfir áhyggjum sínum af því hversu treglega gengur að vinna bug á honum. Samþykkt var að skipa framkvæmdanefnd um launamun kynja sem skili ráðherranefnd tillögu að framkvæmdaáætlun með tímasettum aðgerðum fyrir árslok. Verkefni hennar verða í samræmi við ályktun Alþingis um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum sem samþykkt var í vor en einnig verða mótaðar frekari aðgerðir sem m.a. er ætlað að bregðast við vísbendingum sem fram hafa komið í nýlegum könnunum á launamun kynjanna.

Velferðarráðherra mun skipa framkvæmdanefndina, en auk hans munu forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti og Jafnréttisstofa tilnefna fulltrúa sína í hana. Er nefndinni gert að eiga samráð við aðila vinnumarkaðarins og aðra hlutaðeigandi til að vinna að því að draga úr launamisrétti kynjanna auk þess sem hún mun geta kallað til sín sérfræðinga til aðstoðar við framgang áætlunarinnar.

Ráðherranefndin var jafnframt upplýst um stöðu vinnu að jafnlaunastaðli sem stefnt er að því að liggi fyrir á næstunni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum