Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. október 2011 Utanríkisráðuneytið

Grein ráðherra um frjálsa og fullvalda Palestínu

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skrifaði grein í Morgunblaðið í gær um tillögu sem liggur fyrir Alþingi um að Ísland viðurkenni fullveldi og sjálfstæði Palestínu.

Söguleg tillaga liggur nú fyrir Alþingi um að Ísland viðurkenni fullveldi og sjálfstæði Palestínu miðað við landamærin eins og þau voru áður en Ísraelar hertóku Vesturbakkann árið 1967. Ísland yrði fyrsta vesturevrópska ríkið sem viðurkennir Ísrael. Evrópsk tregða til að stíga það skref núna þegar Palestínumenn óska þess stafar fyrst og fremst af harðri andstöðu Bandaríkjanna og Ísrael. Það er athyglisvert að einu rökin sem í fyrri umræðu málsins á Alþingi voru nefnd gegn tillögunni var einmitt andstaða Bandaríkjanna og evrópskt hik. Fráleitt væri að láta það ráða afstöðu Íslands. Við erum sjálfstætt ríki og tökum eigin ákvarðanir út frá eigin siðferðilegum gildum, stefnu í utanríkismálum og viðhorfum okkar til mannréttinda.

Við metum að sjálfsögðu líka ákvörðun sem þessa út frá því hvað friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs er fyrir bestu. Því er rétt að undirstrika að tillagan á Alþingi er í takt við þá einu lausn sem alþjóðasamfélagið sér sem lokalausn á átökum milli Palestínumanna og Ísraela.

Friður fyrir fullveldi

Tillagan mín byggist á 64 ára gamalli stefnu Íslendinga um tveggja ríkja lausnina svokölluðu sem gerir ráð fyrir tilvist bæði Ísraels og Palestínu hlið við hlið í friðsamlegri sambúð. Hún var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1947. Ísland á töluvert í stefnunni því fyrir ályktun um hana mælti sendiherra Íslands, Thor Thors. Sú samþykkt leiddi svo að segja strax til stofnunar Ísraels og allar götur síðan hefur Ísland stutt tilvist þess. Á sama tíma voru Palestínumenn eðlilega ósáttir við sinn hlut, og vildu ekki á þeirri stundu stofna eigið ríki á miklu minna landsvæði en þeir höfðu sögulega ráðið. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins varð kvikt og ótryggt, og reglulega sauð upp úr með átökum og styrjöldum. Átökin milli Palestínumanna og Ísraela eru ein helsta undirrót spennunnar milli heims kristinna manna og múslima. Al-Qaeda er til dæmis skilgetið afkvæmi hennar. Það skiptir því miklu máli að hægt sé að leiða deiluna í jörð.

Síðan hefur það gerst að PLO, frelsishreyfing Palestínu og palestínska heimastjórnin hafa viðurkennt Ísrael, lýst andstöðu við vopnuð átök, og eru reiðubúin að fallast á að Palestína hafi til umráða helmingi minna landsvæði en Ísland studdi 1947. Í reynd bjóða þeir frið gegn sjálfstæði Palestínu. Á þeim grunni hafa þeir óskað eftir stuðningi Íslands í formi viðurkenningar á fullveldi Palestínu, og við fulla aðild þeirra að Sameinuðu þjóðunum. Íslenska ríkisstjórnin styður hvort tveggja.

Staðfesta eða ístöðuleysi

Arabíska vorið sem hefur þegar kollvarpað tveimur einræðisherrum og er í þann mund að fella þann þriðja, er birtingarmynd á kröfu langkúgaðrar norðurafrískrar alþýðu og grannsvæða um lýðræði, frelsi og mannréttindi. Íslendingar hafa stutt lýðræðishreyfingar þessara landa af alefli. Í því ljósi er óhugsandi annað en Íslendingar styðji sömu kröfur gagnvart Palestínu. Dag hvern eru brotin á þeim grundvallarmannréttindi. Um þverbak hefur keyrt í tíð núverandi stjórnvalda í Ísrael, sem hafa slökkt þann loga af friðarvilja sem þó brann hjá fyrri ríkisstjórnum.

Land Palestínumanna á herteknu svæðunum á Vesturbakkanum er skipulega tekið af þeim af yfirvöldum í Ísrael, dýrmætar vatnslindir fylgja með, og Palestína er rist sundur þvers og kruss af ólögmætum risamúrum. Ég kom á síðastliðnu sumri í byggðarlagið Qalqilya sem á þrjá vegu var afgirt með háreistum múrum, og heimamenn komast hvorki út né inn á svæðið nema fara gegnum ísraelska herstöð þar sem hermenn væddir hríðskotabyssum standa vaktina. Desmond Tutu, erkibiskup og ein af frelsishetjum Suður-Afríkumanna á tímum aðskilnaðarstefnunnar, hefur sagt þessa stefnu Ísraela í ætt við apartheid.

Alþingi, sem hefur á þessu ári stutt lýðræðiskröfur og aukin mannréttindi um allan arabaheiminn af mikilli eindrægni getur ekki annað en stutt sömu kröfur fyrir Palestínu. Eða hvernig er hægt að styðja mannréttindi í Egyptalandi, Líbíu, Túnis, Jemen eða Bahrain en hafna því gagnvart Palestínu? Slíkt væri þverstæða, rökleysa, og ekki hægt að skýra með neinu öðru en ístöðuleysi gagnvart Bandaríkjunum.

Sjálfsákvörðunarréttur smáþjóða

Íslendingar studdu Eystrasaltsþjóðirnar þegar þær þurftu á því að halda, Svartfjallaland, og við komum Króatíu til hjálpar þegar engin þjóð vildi verða fyrst til að viðurkenna fullveldi hennar í lok kalda stríðsins. Tillaga mín um viðurkenningu Íslands á fullveldi Palestínu er því í fullu samræmi við þá harðíslensku afstöðu að styðja sjálfsákvörðunarrétt smárra þjóða. Við getum ekki daufheyrst við óskum Palestínu um stuðning við fullveldi þeirra – allra síst í ljósi þess að Ísland hefur stutt stofnun fullvalda ríkis í Palestínu í 64 ár. Nú er komið að því.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum