Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. október 2011 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á formannafundi ASÍ

Forsætisráðherra flutti ávarp á formannafundi ASÍ
Forsætisráðherra flutti ávarp á formannafundi ASÍ

Góðir fundarmenn!
Ég vil í upphafi máls míns þakka Alþýðusambandi Íslands fyrir gott samstarf að endurreisn samfélagsins.

Hið nýja tímatal er að verða: fyrir og eftir hrun. Þegar við horfum til baka til áranna í aðdraganda hrunsins og þess Nýja Íslands sem frjálshyggjuöflin seldu alltof mörgum, blasir við samfélag sem stjórnaðist af græðgi og nærðist af vaxandi ójöfnuði. Hér urðu meiri breytingar til ójafnaðar en nokkur dæmi eru um. Á níu ára tímabili jókst hluti eins prósents þjóðarinnar úr 5% af heildartekjum í 20%. Einn hundraðasti  þjóðarinnar tók til sín fimmtung af heildartekjunum. Ég fullyrði að á síðustu þremur árum hefur þessi ójöfnuður minnkað svo um munar.

Rösklega þrjú ár eru frá hruni. Það gætir óþreyju víða í samfélaginu og margir halda því fram að ekkert hafi verið gert síðan. Nóg er af framboði  á töfralausnum og töframenn með kanínur í hatti á hverju strái. En hefur þá ekkert verið gert?  

Staðreyndin er sú að fjölmargt hefur áunnist og annað er í góðum farvegi. Ég nefni ríkisfjármálin fyrst. Óumdeilt er að mikill árangur hefur náðst á því sviði. Við skulum hafa í huga að haustið 2008 og fram á vor 2009 var kyrjað í erlendum fjölmiðlum að Ísland væri gjaldþrota eða því sem næst gjaldþrota.  

Hallinn í heild á frumjöfnuði ríkissjóð á árinu 2008 var 222  milljarðar króna. Fjárlagafrumvarp fyrir 2012 gerir ráð fyrir afgangi á frumjöfnuði sem nemur 40 milljörðum króna. Hér er viðsnúningur upp á 260 milljarða króna, eða sem nemur  ríflega helmingi allra rekstrarútgjalda ríkissjóðs á árinu 2008. Þessum árangri hefur verið náð með blöndu af niðurskurði útgjalda og aukinni tekjuöflun. Meiri hluti aðlögunarinnar eða um 57% má rekja til aðgerða á útgjaldahlið.

Það er hollt í þessu sambandi að rifja hér upp að hið opinbera tekur minna í sinn hlut nú en þegar meint góðæri blómstraði. Árið 2006 námu tekjur hins opinbera 48% af landsframleiðslu en 41,5% árið 2010. Ef ekki hefði komið til gríðarlegur vaxtakostnaður vegna hrunsins, væri 40 milljarða króna afgangur af fjárlögum næsta árs að öðru óbreyttu.

Vissulega hefur niðurskurður ríkisútgjalda verið sársaukafullur og erfiður. En stefnan hefur verið skýr í þessu efni: Velferðarþjónustunni, menntamálum og löggæslu hefur verið hlíft við niðurskurði eftir fremsta megni. Stærsti hluti niðurskurðarins hefur verið í rekstri stjórnsýslu ríkisins. Við höfum stefnt að fækkun stofnana ríkisins um 30% - 40% og erum komin vel áleiðis í þeim efnum.

Við höfum snúið taflinu við og jöfnuður hefur aukist í okkar samfélagi. Við höfum lagt á það áherslu að beita sköttum og bótum til þess að ná markmiðum um aukinn jöfnuð. Róttækar breytingar hafa verið gerðar á tekjusköttum einstaklinga sem miða að því að dreifa byrðunum á réttlátan hátt án þess að meðalskatthlutföll hafi hækkað. Skatthlutföll um 37 þúsund hjóna, eða 60%,  sem er í neðri hluta tekjuskalans hafa lækkað frá árinu 2008. Við erum hér að tala um hjón með sameinlegar tekjur á mánuði allt að 780 þúsund krónur. 85.000 einstaklingar greiða nú lægra hlutfall af tekjum sínum í skatt en þeir gerðu fyrir hrun, m.a. vegna hækkunar persónuafsláttar og lækkun skatthlutfalls á lægstu tekjur.

Þeir sem meira bera úr bítum greiða hinsvegar hærra hlutfall tekna sinna til samfélagsins. Mestu skiptir þar áhrif nýs fjölþrepaskattkerfis, hækkun fjármagnstekjuskatts og auðlegðarskattur. Ég nefni hér líka að við höfum staðið styrkan vörð um almannatryggingakerfið og vil geta þess að frá 2007 til 1. febrúar næstkomandi hefur framfærsluviðmið bóta hækkað um 61%. Nefni ég einnig  þrátt fyrir niðurskurð hefur ekki hefur verið hróflað við því fyrirkomulagi sem komið var á árið 2007 að tekjur maka skerði ekki bætur. Ég vil líka minna á bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga hækkuðu þann 1. júní sl.   um 8,1%, með hliðsjón af krónutöluhækkun lægstu launa í kjarasamningum. Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að hækkun bóta á næsta ári verði 3,5% í samræmi við almenna prósentuhækkun í kjarasamningum á vinnumarkaði. Uppsöfnuð hækkun bóta verður þar með orðin nálægt 12% á hálfs árs tímabili. En til samanburðar er almenn hækkun launa á samningstímabilinu 11,4%.

Stórum áföngum í endurreisn fjármálakerfisins er lokið. Þrátt fyrir að viðskiptabankarnir hafi sýnt 2007 hagnað í sínum reikningum blasir við að vanskil við lánastofnanir eru út úr öllu korti. Um 15% útlána eru í verulegum vanskilum og endurskipulagning skulda hlýtur því að vera forgangsverkefni. Þeirri vinnu þarf að hraða sem mest. Á grundvelli viljayfirlýsingar stjórnvalda og lánastofnana hafa skuldir heimila verið afskrifaðar og má ætla að sú afskrift  muni nema um 200 milljörðum kr. í árslok.

Þá skiptir einnig miklu máli að greiðslubyrði húsnæðislána hefur verið lækkuð umtalsvert, meðal annars með tvöföldun á vaxtabótum, en ríkissjóður niðurgreiðir nú um þriðjungi alls vaxtakostnaðar heimila af fasteignalánum. Með sama hætti hefur áhersla verið lögð á afskriftir lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stefnir á að aðrir 200 milljarðar kr. verði afskrifaðir þar.

Það hefur margt áunnist, en það blasa við stór verkefni, risavaxin verkefni sem ríkisstjórn mun takast á við í samráði við launþegahreyfinguna og aðra sem samleið eiga. Ríkisstjórnin hefur ráðist í stór umbótaverkefni, og mér er til efs að nokkur ríkisstjórn í okkar sögu hafi tekist á við svo mörg umbótaverkefni á jafn skömmum tíma og það ofaná þær stóru björgunaraðgerðir sem að baki eru.

Stærsta umbótaverkefnið er auðvitað umsóknin um aðild að Evrópusambandinu. Ótrauð höldum við áfram á þeirri vegferð. Þar liggja stór tækifæri á sviði efnahags- og atvinnumála. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka mikilsmetinn stuðning ASÍ við aðildarumsóknina.  

Ríkisstjórnin stefnir að því að leggja sem fyrst fram frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða þar sem áréttað er að fiskistofnarnir eru sameiginleg auðlind þjóðarinnar og nýtingarleyfi á aflaheimildum verði tímabundin og myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila. Markmiðið sem fyrr að afgjald vegna nýtingar renni til þjóðarinnar, fénýting aflaheimilda verði stöðvuð og eðlileg nýliðun verði í greininni. Nú er verið að vinna úr þeim athugasemdum sem fram kom á síðasta þingi og á grunni þeirra markmiða sem ég hef hér lýst verður samið nýtt  frumvarp sem við stefnum að verði lögfest á þessu þingi.

Góðir fundarmenn
Á fjölmörgum málaflokkum er tengjast efnahags – og atvinnumálum liggur ýmist fyrir stefnumörkun eða hún í mótun. Og samhliða þessu eru gerðar aðgerðaráætlanir til lengri og skemmri tíma.

Ég nefni hér fyrst ríkisfjármálaáætlun til ársins 2015 sem nýlega var lögð fram á Alþingi. Áætlunin miðar að því að fjárlög verði hallalaus árið 2014. Markmiðið er að ná niður ríkisskuldum þannig að þær verði komnar niður fyrir 45-50% af landsframleiðslu. Sveitarfélögin þurfa einnig að lækka skuldir sínar og ekki óraunsætt að þær geti lækkað úr 20% af landsframleiðslu í 12-15%. Þetta eru raunsæ markmið, en forsendur eru að hagvöxtur verði hér hóflegur og aðhalds verði gætt í opinberum fjármálum. Með lækkun skulda sparast ekki bara fúlgur fjár í vaxtagreiðslum heldur skapast svigrúm til fjárfestinga einkaaðila og bætt lánshæfismat.

Heildstæð efnahagsáætlun verður kynnt innan skamms, en með henni er brotið blað er varðar vinnubrögð. Áætlunin er afrakstur samráðs við fjölmarga aðila þar á meðal ASÍ. Áætluninni er ætlað að vera tæki til stefnumörkunar og til eftirfylgni fyrir samstillta hagstjórn. 

Framsækin atvinnustefna sem reist er á þeim áherslum sem fram koma í Ísland 2020 er nú í mótun í atvinnuvegaráðuneytunum. Atvinnustefnan verður mótuð í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og fjölmarga aðra hagsmunaaðila. Þetta verður í fyrsta sinn sem íslensk ríkisstjórn markar sér heildstæða atvinnustefnu með þessum hætti, svo undarlegt sem það nú er. Þá mun ríkisstjórnin innan skamms kynna áherslur varðandi erlendar fjárfestingar og marka stefnu í þeim málaflokki. Enn er þar á ferð nýjung.

Nýja og trúverðuga peninga- og gengisstefnu þarf að móta og að því verki verða aðilar vinnumarkaðarins meðal annarra kallaðir. Nýrri peningastefnu þarf að fylgja aukin stjórntæki til að tryggja fjármálastöðugleika og verða þjóðhagsvarúðartæki kynnt snemma á næsta ári. Fyrir liggur áætlun um losun gjaldeyrishafta. Ég tel að fara verði með gát við losun haftanna, því sú hætta er augljós að óðagot í þeim efnum leiði til gengishraps með tilheyrandi verðbólguskoti.

Drög að heildstæðri orkustefnu fyrir Ísland var kynnt í vetur og almenningi og hagsmunaaðilum boðið að gera athugasemdir.  Áformað er að endanleg orkustefna muni liggja fyrir á þessu ári. Drög að þingsályktunartillögu um nýtingu og vernd náttúrsvæða hefur verið kynnt , en þar eru 69 virkjanahugmyndir metnar.

Ályktunin er nú í umsagnarferli sem lýkur 11. nóvember , en í kjölfarið verður endanleg tillaga til þingsályktunar lögð fyrir Alþingi. Þá er í undirbúningi að stofna auðlindasjóð og móta heildarstefnu í auðlindamálum til að tryggja hámarksarð þjóðarinnar af sameiginlegum auðlindum.

Á miklu ríður að við náum sáttum í okkar samfélagi. Það er verkefni þjóðarinnar allrar að rjúfa vítahring óvissu og stöðnunar og skapa sameiginlega framtíðarsýn. Kjarasamningur ASÍ og SA, með verulegri aðkomu stjórnvalda, frá því í maí leggur þung lóð á þá vogarskál. Raunsæir og réttlátir kjarasamningar til þriggja ára eru mikilsverðir hornsteinar fyrir stöðugleika í samfélaginu.

Yfirgripsmikil yfirlýsing stjórnvalda í tengslum við kjarasamninganna fól í sér metnaðarfulla framtíðarsýn, framtíðarsýn sem mörkuð var af stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins í sameiningu. Í yfirlýsingunni eru gefin fyrirheit um margvísleg umbótarverkefni og ég fullyrði að mörg eru nú þegar í höfn og flest í góðum farvegi. Undantekning er þó á því sem er vegagerð. Ástæða þess að þau áform hafa ekki gengið eftir eru að ekki hefur náðst sátt um vegagjöld. Það hefur ætíð legið fyrir að vegna þröngrar stöðu í ríkisfjármálum verða samgönguframkvæmdir takmarkaðar á næstu árum, nema samstaða verði um fjármögnunarleiðir.

Ég nefni að verðtrygging persónuafsláttar hefur verið lögfest, bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hafa verið hækkaðar. Ég nefni mjög vel heppnað átaksverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi.

Þá er ég stolt af því merka verkefni á sviði vinnumarkaðsaðgerða sem stjórnvöld hafa mótað í þéttu og góðu samstarfi við ASÍ. Þúsund atvinnuleitendum hefur verið boðin skólavist í haust og næstu tvö árin. Framhaldsskólum hefur verið gert kleift að taka við öllum umsækjendum yngri en 25 ára sem uppfylla skilyrði fyrir skólavist. Þá er lögð áhersla á að fjölga starfstengdum úrræðum fyrir atvinnuleitendur og stefnt að tvöföldun þeirra. Þegar horft er til náinnar framtíðar skiptir mestu að sporna með öllum ráðum gegn því að atvinnuleysi festist hér í sessi.  Mikilvægur liður í því er að auka fjárfestingu í mannauð. Staðreyndin er sú að í dag eru 60.000 manns á vinnumarkaði með grunnskólapróf sem hæstu prófgráðu og með menntunarátaki er stefnt að því að fækka í þeim hópi um 40.000 fyrir árið 2020.    

Hrunið færði okkur atvinnuleysi langt umfram það sem við erum vön og langt umfram það sem við viljum þola.  Góðu heilli hefur nú dregið úr atvinnuleysinu. Samkvæmt síðustu mælingu Vinnumálastofnunar hefur atvinnuleysi ekki verið lægra síðan í árslok 2008.  Það vekur athygli að atvinnuleysi hefur allt frá hruni verið miklu hærra hér á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu er atvinnuleysi nú 7,6% en 4,9% á landsbyggðinni. Eins vekur athygli að hlutfallslega eru nú fleiri konur án atvinnu en karlar. Þessar staðreyndir sýna okkur að við þurfum á fjölbreyttum nýjum atvinnutækifærum að halda og sannarlega er stóriðjan því ekki eina svarið.

Störfum er tekið að fjölga. Markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er að atvinnuleysi verði ekki yfir 4-5% í lok samningstímans árið 2013. Tiltækar spár Hagstofu, Seðlabanka og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins benda til þess að atvinnuleysi verði á bilinu 4,3%-5,8%. Við hljótum enn að stefna að því að markmið kjarasamninganna um atvinnuleysi náist. Ég hef nefnt ýmis opinber og hálfopinber verkefni á vegum ríkisins sem skilað geta um 7.000 störfum og vil bæta við fjárfestingaráætlunum Reykjavíkurborgar sem gera ráð fyrir verulegri aukningu fjárfestingar á næstu þremur árum. Ég hlýt að heita á atvinnulífið að gera betur, miklu betur er varðar fjárfestingu og nýta af framsýni þau miklu sóknarfæri sem okkar góða land býr yfir.

Hagvöxtur er nú jákvæður og horfur um að hann verði tæplega 3% á þessu ári, en meiri óvissa er um þróun á næsta ári. Ef við horfum til fyrri helmings þessa árs er hagvöxtur hér á landi um 2,6% og aðeins 13 af 34 OECD ríkjum með meiri hagvöxt.

Í yfirlýsingu stjórnvalda er blásið til sóknar í orku- og iðnaðarmálum og sameiginlegt markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sett um að fjárfestingar aukist jafnt og þétt á samningstímanum og verði 20% í lok  hans. Á miklu veltur að þetta takist, en það er líka ljóst að stjórnvöld hafa þetta ekki ein í hendi.

Framkvæmdir eru víða í gangi. Í byggingu eru fjórar virkjanir, mislangt á veg komnar; Búðarhálsvirkjun, Hellisheiði, Bjarnarflag og Þeistareykir. Ég nefni líka að fjórir fjárfestingasamningar hafa verið gerðir vegna erlendra fjárfestinga og aðrir fjórir bíða endanlegrar samningagerðar.  Í næsta skerfi áætlunar um losun hafta verður fjárfestum gert kleift að nýta aflandskrónur til langtíma fjárfestingarverkefna á Íslandi og reiknað er með að þessi möguleiki verði opnaður alveg á næstunni.

Margir horfa til álvers í Helguvík, en örlög þess stóra verkefnis verða ekki ráðin við ríkisstjórnarborðið, því enn er beðið niðurstöðu gerðardóms í Stokkhólmi. Þá er nú ljóst að Alcoa hefur hætt við áform um álver á Bakka og eru það mörgum vonbrigði.

En við eigum marga aðra jafngóða eða betri kosti til nýtingar á orkulindum norðanmanna. Landsvirkjun hefur verið í viðræðum við fjölmörg fyrirtæki um uppbyggingu nyrðra og ég vænti þess að brátt sjái fyrir endann á þeim viðræðum.  Við eigum fjölmarga aðra kosti en ál og nú er unnið að margvíslegum verkefnum á vegum Íslandsstofu og áhugi erlendra fjárfesta á margvíslegum fjárfestingarverkefnum hér á landi hefur aldrei verið meiri en nú.  Viðurkennast verður þó að staðan í alþjóðaefnahagsmálum er vissulega mikið áhyggjuefni og kann að hafa áhrif á vilja og getu til fjárfestinga.

Tækifærin blasa við ferðaþjónustunni. Átak til að efla vetrarferðamennsku hér á landi sem nefnt er í viljayfirlýsingunni er komið í gang og við það bundnar miklar vonir. Ríkisstjórnin mun leggja árlega næstu þrjú árin fjármagn til þessa verkefnis alls um 900 milljónir króna auk þeirra 300 sem þegar hafa verið lagðar til verksins. Þá er mikil gróska í nýsköpun hér á landi og hugverkaiðnaður á mikilli siglingu. Á sviði grænnar atvinnusköpunar, eða græna hagkerfisins eigum við Íslendingar mikil sóknarfæri og fyrir liggja metnaðarfull áform í þeim efnum í nýlegri skýrslu. Græn atvinnustarfsemi er lykilhugtak í atvinnumálum víða um heim og má þar nefna skýrar áherslur hinnar nýju ríkisstjórnar Helle Thorning-Schmidt í Danmörku .

Um leið og kjarasamningarnir voru undirritaðir spruttu fram dómsdagsspámenn, sem fundu samningum flest til foráttu og spáðu mikilli verðbólgu. Því miður fór svo að verðbólguvæntingar jukust og í skjóli þess hækkuðu mörg fyrirtæki verð.

Það er vitaskuld mikið áhyggjuefni að hér ríkir fákeppni á mörgum mörkuðum sem leiðir til vélrænnar verðlagningar. Þar á ég ekki síst við verðlagningu landbúnaðarafurða en þær hafa hækkað á síðastliðnum tólf mánuðum um tvöfalt meira en vísitalan í heild. Ég veit sem er að tollar á landbúnaðarafurðir koma hér við sögu og við því verður að bregðast og að því er nú unnið.

Þrátt fyrir allt stefnir nú í að verðbólgan verði umtalsvert lægri en meðal annars Seðlabankinn hefur spáð. Þetta skýrist af því að gengi krónunnar hefur styrkst að undanförnu eða um tæp 4% frá því um mitt sumar. Nýlegar spár benda til þess að verðbólgan muni hjaðna og í lok árs verði hún um 5,4% og 3,6% í lok næsta árs, en í þessum spám er ekki gert ráð fyrir marktækri styrkingu krónunnar.

Kjarasamningarnir hafa skilað þeim mikla árangri að kaupmáttur lægstu launa hefur vaxið verulega og er næstum jafnmikill og var á fyrstu mánuðum 2008. Frá ársbyrjun 2009 nemur  kaupmáttaraukningin um 9½% og um 12½% að teknu tilliti til eingreiðslna. Meðalkaupmáttur launa, eins og Hagstofan mælir,  hefur vaxið um 1,4% frá ársbyrjun 2009 og um 2,6% á síðastliðnum 12 mánuðum.   

Ágætu formenn
Kjarasamningarnir frá því í vor mörkuðu tímamót og umbætur á mörgum sviðum. Í upphafi næsta árs verða forsendur samninganna metnar. Ég treysti því að við það mat verði fullrar sanngirni gætt og heildarmyndin höfð í huga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum