Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. nóvember 2011 Forsætisráðuneytið

Fundir norrænna forsætisráðherra og leiðtogahluti Norðurlandaráðsþings

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra talar á 63. þingi Norðurlandaráðs
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra talar á 63. þingi Norðurlandaráðs

Norrænu forsætisráðherrarnir funduðu í dag í Kaupmannahöfn og áttu einnig fund með fulltrúum sjálfstjórnarsvæðanna. Forsætisráðherrarnir ákváðu að fela fagráðherrum á ákveðnum sviðum að útfæra og meta nánar tillögur um aukið norrænt samstarf á átta sviðum, sem undirbúið hefur verið af sérfræðingahópi. Tillögurnar höfðu verið til umræðu á hnattvæðingarþinginu daginn áður og er vonast til að mörg samstarfsverkefnin geti komist í framkvæmd á næsta ári.  Þau snúa m.a. að aukinni áherslu á rannsóknir og þróun sjálfbærra orkugjafa, hvernig ríkin geti lagt umhverfisvænar áherslur í innkaupum ofl.  Margar samstarfstillögurnar ríma mjög vel við niðurstöður nefndar Alþingis sem lagði fram skýrslu um grænan hagvöxt og framtíðarsýn fyrr í október. Norrænu forsætisráðherrarnir ræddu sérstaklega um hin opnu norrænu samfélög m.a. með hliðsjón af öryggi borgaranna, norrænt samstarf í alþjóðlegum verkefnum og samstarfið í loftslagsmálefnum á næstu mánuðum.

Síðdegis voru forsætisráðherrarnir viðstaddir upphaf 63. þings Norðurlandaráðs og tóku þar þátt í leiðtogahluta þingsins, þar sem forsætisráðherrar fluttu erindi og sátu fyrir svörum. Forsætisráðherra lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að draga úr misskiptingu í þjóðfélögum. Það hefði jákvæð áhrif á marga þætti.

„Misskipting og mismunun á ekki að þrífast, ekki frekar en óréttlæti og ójafnrétti. Við viljum öll að mannvirðing sé í fyrirrúmi í okkar þjóðfélögum og ekki myndist slík gjá milli hópa innan samfélagsins að þeir eigi enga samleið og finni ekki tengsl sín á milli.“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir í ræðu sinni á Norðurlandaráðsþinginu.

Í lokin kynnti Noregur formennskuáætlun sína fyrir næsta ár, en Noregur tekur við formennsku í norrænu ráðherranefndinni um áramót og mun leggja mikla áherslu á velferð, grænan hagvöxt og nýsköpun, svo og norræna menningu og samstöðu á sínum formennskutíma.


Forsætisráðherrar Danmerkur, Finnlands og Íslands
Forsætisráðherrar Danmerkur, Finnlands og Íslands

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum