Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. nóvember 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Greining hagsmunaaðila á lyfjamarkaði

Lyfjamál
Lyfjamál

Félag atvinnurekenda, Frumtök og Samtök verslunar og þjónustu afhentu Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra í dag skýrslu með greiningu hagsmuna á íslenskum lyfjamarkaði sem þessir hagsmunaaðilar hafa gert og snýr einkum að þáttum tengdum innflutningi, dreifingu, framleiðslu og smásölu lyfja.

Með greiningunni vilja hagsmunaaðilarnir draga fram ýmsa þætti sem þeir telja nauðsynlegt að breyta til að auka samkeppni og skilvirkni og bæta starfsumhverfi þeirra sem starfa á lyfjamarkaðinum.

Í skýrslunni er fjallað um dreifingu lyfja og markaðsmál, innflutning og heildsöludreifingu, smásölu, eftirlit og samskipti við hið opinbera, skilvirkni og rekstur, fagleg vinnubrögð, stefnumótun, lagabreytingar og kerfisbreytingar. Lagðar eru fram ýmsar tillögur að breytingum á öllum þessum sviðum og reynt að draga fram helstu kosti og galla hverrar tillögu.

Í formála skýrslunnar segir að ef vel takist til eigi greiningin með þeirri þekkingu sem þar kemur saman að geta leitt til frekari skilvirkni og jafnframt aukins öryggis á íslenskum lyfjamarkaði.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagðist í dag ánægður með frumkvæðið sem hagsmunaaðilar hafi sýnt með því að ráðast í þessa greiningu á íslenskum lyfjamarkaði. „Það verður farið yfir þessar hugmyndir og tillögur í velferðarráðuneytinu. Það skiptir miklu máli hvernig lyfjamarkaðurinn er skipulagður. Rétt, skynsamleg og örugg notkun lyfja er mikið hagsmunamál fyrir alla. Það skiptir miklu að haga þessum málum vel og tryggja að markaðurinn virki eins og best verður á kosið í þágu almenning og íslenska heilbrigðiskerfisins. Öryggi þarf að vera tryggt og nýting fjármuna sem best. Þetta mun eflaust nýtast okkur við gerð nýrrar lyfjastefnu til ársins 2020 sem nú stendur fyrir dyrum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira