Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. nóvember 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Mikilvægar staðreyndir vegna fyrirhugaðra breytinga á greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði

Lyfjamál
Lyfjamál

Sjúklingar sem fá lyfjaskírteini samkvæmt frumvarpi um fyrirhugaða breytingu á greiðsluþátttöku fólks í lyfjakostnaði eru varðir fyrir því að lyfjakostnaður þeirra á 12 mánaða tímabili verði hærri en tæpar 65.000 krónur. Hámarkið verður lægra, eða um 45.000 krónur hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, börnum og fólki án atvinnu.

Alvarlegar rangfærslur voru í sjónvarpsfréttum RÚV í gær þar sem fjallað var um fyrirhugaðar breytingar á þátttöku sjúklinga í greiðslu lyfjakostnaðar.

Meginmarkmið frumvarpsins er að jafna lyfjakostnað til þess að verja einstaklinga sem þurfa mikið á lyfjum að halda fyrir háum kostnaði. Sett verður þak á kostnað einstaklinga á 12 mánaða tímabili.

Í frétt RÚV kom fram að hámarksþak á lyfjakostnað væri lægra fyrir elli- og örorkulífeyrisþega en almenning. Það er rétt en í fréttina vantaði að lægra þak gildir einnig um börn og fólk sem er án atvinnu og hefur fyrir því staðfestingu Vinnumálastofnunar.

Frumvarpinu fylgja drög að reglugerð þar sem sett eru greiðsluþök og eru tölurnar miðaðar við magn- og kostnaðartölur ársins 2010 og settar fram með þeim fyrirvara. Samkvæmt reglugerðardrögunum greiðir fólk almennt að fullu fyrir lyf sem keypt eru á 12 mánaða tímabili fari samanlagður kostnaður vegna þeirra ekki yfir 22.500 krónur. Hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, börnum og fólki án atvinnu er hámarkið 15.000 krónur.

Kaupi fólk lyf í apóteki eftir að hámarksþakinu hefur verið náð greiðir það einungis 15% af verði þeirra lyfja, allt þar til samanlagður lyfjakostnaður þess og sjúkratrygginga á tímabilinu hefur náð 90.000 krónum (60.000 krónum hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, börnum og atvinnulausum). Nái samanlagður lyfjakostnaður þessum fjárhæðum á tímabilinu greiða viðkomandi aðeins 7,5% af verði lyfja sem keypt eru eftir það. Rangt var farið með þetta í umræddri frétt.

Fólk varið fyrir háum kostnaði með lyfjaskírteinum

Í frétt RÚV var alveg horft fram hjá 9. gr. frumvarpsins1) sem hefur mest vægi í því að verja sjúklinga fyrir háum lyfjakostnaði. Þar er kveðið er á um heimild lækna til að sækja um lyfjaskírteini fyrir sjúklinga sína við aðstæður sem þar eru sérstaklega tilgreindar. Almennt gildir þá að eftir að sjúklingur hefur greitt að hámarki 64.875 krónur vegna lyfja greiðir hann ekkert fyrir lyf umfram þann kostnað innan 12 mánaða tímabilsins, samkvæmt viðmiðunarfjárhæð í reglugerðardrögum. Hámarkið hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, börnum og atvinnulausum með lyfjaskírteini er 45.000 krónur.

Lyfjaskírteini gegn fjöllyfjanotkun

Fjöllyfjanotkun er þekkt vandamál hér á landi, þ.e. þegar sjúklingar nota mörg lyf samtímis með tilheyrandi hættu á óheppilegum milliverkunum. Vegna þessa er í frumvarpinu miðað við að læknar sæki um lyfjaskírteini fyrir sjúklinga sína í stað þess að gefa þau út sjálfkrafa þegar kostnaðarhámarki er náð. Með þessu gefst kostur á að fara yfir mögulega fjöllyfjanotkun og skoða hvort ástæða sé til breytinga. Ætla má að þorri sjúklinga sem nær hámarkskostnaði vegna lyfja samkvæmt 9. grein frumvarpsins1) muni fá lyfjaskírteini og þar með niðurfellingu á kostnaði umfram hámörkin. Í undantekningartilfellum getur hins vegar komið til þess að breytingar verði gerðar á lyfjaávísunum hjá einstökum sjúklingum að höfðu samráði við lækni viðkomandi með hagsmuni sjúklingsins að leiðarljósi. Útgáfa lyfjaskírteina verður rafræn og mun því ganga skjótt fyrir sig. 

1) Ath. Í frumvarpinu er kveðið á um útgáfu lyfjaskírteina en nánar er fjallað um lyfjaskírteini í drögum að reglugerð sem fylgir frumvarpinu sem er svohljóðandi:

9. gr.
Lyfjaskírteini.

    Sjúkratryggingum Íslands er heimilt í eftirfarandi tilvikum, samkvæmt umsókn, að ákvarða greiðsluþátttöku eða aukna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna kaupa á lyfjum og gefa út lyfjaskírteini því til staðfestingar í samræmi við vinnureglur sem stofnunin setur sér:
    1.     Þegar sjúkratryggðum er brýn nauðsyn að nota um lengri tíma lyf sem sjúkratryggingar greiða ekki. Er þá heimilt að taka þátt í greiðslu skv. 3. gr.
    2.     Fyrir sjúkratryggða í líknandi meðferð í heimahúsi og sjúkratryggða með lokastigsnýrnabilun eða geðklofa. Sjúkratryggingum Íslands er þá heimilt að undanþiggja sjúkratryggðan greiðslu gjalds vegna tiltekinna lyfja eða lyfjaflokka.
    3.     Sé um að ræða sjúkratryggða með mikla, varanlega og læknisfræðilega vel rökstudda þörf fyrir lyf sem greitt hafa 64.875 kr. og á sama hátt aldraða, öryrkja, einstaklinga 60–66 ára sem njóta ellilífeyris og börn yngri en 18 ára sem greitt hafa 45.000 kr. er heimilt að undanþiggja þá greiðslu það sem eftir er af 12 mánaða tímabilinu, sbr. 3. og 5. gr. Til að sporna við of- og/eða misnotkun lyfja er Sjúkratryggingum Íslands heimilt að binda lyfjaskírteinið við ákveðinn fjölda lyfja, tiltekin lyf og/eða lyfjaskammta í samráði við lækni sjúkratryggðs. Sjúkratryggingar Íslands geta jafnframt bundið lyfjaskírteinið skilyrðum um að notuð séu ódýrustu lyfin hverju sinni ef um er að velja fleiri en eitt lyf með sambærilega verkan. Veiting lyfjaskírteinis skal ávallt háð því að notaðar séu hagkvæmustu pakkningastærðir hverju sinni.
    4.     Þegar sjúkratryggður af brýnum læknisfræðilegum ástæðum, svo sem vegna alvarlegra aukaverkana, getur ekki notað það lyf sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga miðast við, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 5. gr., er heimilt að miða greiðsluþátttöku við hámarkssmásöluverð viðkomandi lyfs.
    5.     Þegar sjúkratryggður af brýnum læknisfræðilegum ástæðum þarf að nota t.d. húðkrem, augndropa, vítamín eða sambærilegar vörur er heimilt að taka þátt í greiðslum hans skv. 3. gr.
    Upphæðir skulu endurskoðaðar árlega þannig að hlutfall kostnaðar sjúklinga og greiðsluþátttöku sjúkratrygginga haldist að mestu óbreytt á milli ára, sbr. 3.gr.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum