Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. nóvember 2011 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þeir sem þess óska geta sent umsagnir sínar á netfangið [email protected] fram til 28. nóvember 2011.

Reglugerðardrögin innleiða Evrópureglugerð nr. 1008/2008 um sameiginlegar reglur um rekstur flugþjónustu í ESB. Markmið reglugerðarinnar er að kveða á um sameiginlegar reglur um veitingu flugrekstrarleyfa, opinn aðgang flugrekenda innan Evrópska efnahagssvæðisins að sameiginlegum markaði og samræmdar reglur um far- og farmgjöld í flugþjónustu. Með reglugerðinni eru reglugerðir 2407/92, 2408/92 og 2409/92 felldar úr gildi en þær voru innleiddar með reglugerð nr. 969/2008 um veitingu flugrekstrarleyfa, markaðsaðgang flugrekenda, fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins og því fellur sú reglugerð úr gildi við gildistöku þeirrar nýju.

Hin nýja reglugerð felur meðal annars í sér:

1. Strangara fjárhagslegt eftirlit með flugrekendum.

2. Breytingar hvað varðar eftirlit með loftförum sem starfrækt eru frá fleiri en einu aðildarríki þ.e. sama ríki skal fara með eftirlit með flugrekstrarleyfi og flugrekandaskírteini.

3. Breytingar varðandi tryggingar flugrekanda og loftfara þ.e. tryggingar skulu ná yfir slys á farþegum, tjón á farmi og gagnvart þriðja aðila.

4. Strangari kvaðir hvað varðar leigu á loftförum frá þriðja ríki

5. Takmörkunum á ,,code sharing" milli aðildarríka skal aflétt.

6. Reglur varðandi útboð á flugi með þjónustuskyldu.

7. Reglur varðandi dreifingu flugumferðar, t.d. frá umhverfisjónarmiðum.

8. Aðgangur farþega að upplýsingum varðandi flugfargjöld og kostnað skal vera skýr. 

Í reglugerðinni er að finna ákvæði er snýr að neytendavernd og var nauðsynlegt að breyta loftferðalögum vegna þess ákvæðis þar sem í því felast skyldur á flugrekendur og flytjendur um hvernig og hvaða upplýsingar skal veita farþegum sem og að óheimilt sé að mismuna farþegum á grundvelli þjóðernis, hvaða viðskiptavinur á í hlut, staðfestustað fulltrúa flugrekandans eða annars flugmiðasala innan Bandalagsins. Vorið 2010 voru breytingar gerðar á 125. gr. loftferðalaganna vegna ákvæðisins. Sjá einnig 6. gr. reglugerðardraganna en þar er ákvæðið sérstaklega áréttað í íslensku reglugerðinni.

Samið var um aðlaganir við reglugerðina áður en hún fór inn í EES-samninginn þar sem meðal annars Ísland var talið uppfylla skilyrði um ystu svæði og því heimilt að kveða á um skyldu um opinbera þjónustu í áætlunarflugi í allt að fimm árum í stað fjögurra sem annars hefði gilt.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum