Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. nóvember 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 14. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn  fimmtudaginn 17. nóvember 2011, kl. 9.00, í Hóli, Arnarhvoli.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) og Páll Þórhallsson (PÞ) skipuð af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) fulltrúi BHM og KÍ og Magnús Pétursson (MP), fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana. Sonja Ýr Þorbergsdóttir boðaði forföll.

Eftir síðasta fund voru drög að siðareglum send öllum starfsmönnum ráðuneytanna í tölvupósti jafnframt því sem þau voru birt á innra vef Stjórnarráðsins. Tíu aðilar sendu inn athugasemdir sem eðlilega voru misítarlegar auk þess sem nokkrir sendu línu og þökkuðu fyrir reglurnar. HF þakkaði fyrir ábendingar við móttöku tölvupósts og verður það látið duga sem svar til þeirra sem sendu þær inn.

Í umræðum kom fram að reglunum þurfi að fylgja inngangur eða greinagerð þar sem skýrt komi fram að siðareglunum sé ætlað að vera leiðbeinandi en ekki upptalning á boðum og bönnum. Í ítarlegum athugasemdum frá starfsmanni í utanríkisráðuneytinu kom fram að skipting plaggsins í þrjá hluta væri ruglingsleg, sumt væri endurtekið og annað ómarkvisst og mótsagnakennt, ekki væri ljóst hver væri aðkoma starfsmanna að reglunum og ekkert væri fjallað um viðurlög, birtingu og gildistöku. Jafnframt var lagt til að siðareglur Utanríkisráðuneytisins væru að verulegu leyti teknar upp í siðareglur Stjórnarráðsins. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að ítreka að ráðuneytum er frjálst að setja sér siðareglur til viðbótar við þær sem gilda fyrir Stjórnarráðið í heild. Siðareglur Stjórnarráðsins eru því eðli málsins samkvæmt almennari en mögulegar reglur einstakra ráðuneyta. Eins er ljóst að halda þarf áfram umræðum og fræðslu um reglurnar og ítreka að þær séu leiðbeinandi en geti ekki leyst dómgreind fólks af hólmi eða verið einskonar verklagsreglur um siðferði. Einnig var staðfest sú skoðun að ekki ætti að setja inn viðurlög en aftur á móti mætti nefna í greinagerð að starfsfólk geti leitað til samhæfingarnefndarinnar komi upp álitamál. Rétt þótti að skoða betur kaflaskiptinguna og segja frá aðkomu starfsfólks Stjórnarráðsins að gerð siðareglnanna í greinagerð. Annar starfsmaður utanríkisráðuneytisins benti á að í skjalinu væri ýmist vísað í „starfsreglur“, „grunngildi“, „siðvenjur“ eða „siðareglur“ en æskilegt væri að betur væri greint á milli þessara hugtaka. Hann taldi líka nauðsynlegt að gera ráð fyrir ákvæði um meðferð mála og eftirfylgni því markmiðið væri jú að brugðist væri við brotum á siðareglum. Frá skrifstofu menningarmála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu komu athugasemdir sem varða pólitískt eðli stjórnsýslunnar enda beri ráðherra ábyrgð á ákvörðunum sem teknar eru í ráðuneyti hans. Það þurfi að koma skýrar fram í lið 2.b. í III hluta að yfirmenn beri ábyrgð á gjörðum undirmanna. Nokkur umræða varð um þetta og kemur til álita að taka þessa setningu út. Starfsmaður fjármálaráðuneytisins taldi fremur óljóst hvenær bæri að upplýsa um tengsl við stofnanir, félög eða félagasamtök og tiltók sérstaklega þátttöku í flokkspólitísku starfi. Ekki þótti ástæða til að breyta þessum lið. Þátttaka í pólitísku starfi eða öðru félagsstarfi stangast ekki sem slík á við opinber störf og því verður hver einstaklingur að meta hættu á hagsmunaárekstrum hverju sinni. Mikilvægt er að starfsmenn geri það og get leitað til samstarfsmanna, yfirmanna eða samhæfingarnefnarinnar sjálfrar við úrlausn álitamála í þeim efnum. Ábending um að setja aftur inn bann við vændiskaupum kom frá þremur einstaklingum og því ljóst að vel þarf að gera grein fyrir ástæðu þess að þetta atriði var tekið út úr siðareglunum. Starfsmaður í forsætisráðuneytinu telur að grunngildin þurfi frekari umræðu innan Stjórnarráðsins og nefnir að hann sakni þess að ekki sé sérstaklega hvatt til samvinnu og samstarfs. Vinna þurfi gegn hólfamyndun og auka samstarf og samvinnu innan stjórnsýslunnar og skv. OECD séu siðareglur tæki sem geti stuðlað að því. Þetta sjónarmið var rætt og eins og fram kom hjá MP er auðvitað markmiðið hjá starfsmönnum stjórnsýslunnar að þjóna borgurunum og til að ná því þurfi samvinnu. PÞ sagði þjónustu við borgarana mikilvægt atriði en í mörgum tilvikum hefðu starfsmenn Stjórnaráðsins engin samskipti við almenna borgara. Einmitt þess vegna taldi MP heppilegra að textinn um þjónustu í grunngildunum væri tvískiptur, þ.e. vísaði annars vegar til borgaranna og hins vegar starfsfólks ráðuneyta. JÓ fannst áhyggjur starfsmanns forsætisráðuneytisins byggja á vissum misskilningi því nefndin væri ekki að útbúa stefnumótandi plagg heldur leiðbeinandi siðareglur.

Fulltrúar frá heildarsamtökum opinberra starfsmanna höfðu verið boðaðir á fundinn kl. 11. Fyrir hönd Kennarasambands Íslands (KÍ) mætti Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, en þær Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM og Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB, komu uppúr hálf tólf. Siðareglum KÍ sem voru samþykktar á þingi sambandsins sl. vor var dreift á fundinum. Þær reglur eru knappar, í tólf liðum, og er ætlað að styrkja fag- og siðferðisvitund stéttarinnar.

Eins og fram kom hjá JÓ er samhæfingarnefndin bæði að velta fyrir sér hvers konar siðareglur gætu gagnast ríkisstarfsmönnum og hvernig þeim sé best komið á framfæri. Aðalheiður sagði að ekki væri farið að ræða þetta innan KÍ en að hennar mati þyrftu almennar siðareglur að koma inn á trúverðugleika, gagnsæi, góð samskipti og það hlutverk að veita góða þjónustu. Þá væri ljóst að mikil umræða færi nú fram um mörk starfs og einkalífs. MP sagði hlutverk samhæfingarnefndarinnar að vekja vitund um að siðareglur skipti máli frekar en að setja reglurnar. Á fundum nefndarinnar hefur það sjónarmið verið ráðandi að siðareglur sem eigi að taka til allra ríkisstarfsmanna þurfi að vera almennar enda beinlínis gert ráð fyrir því að einstakir vinnustaðir eða stéttir/hópar geti sett sér reglur sem miðist frekar við þeirra þarfir. Að mati GHÞ verður kúnstin að búa til texta sem hefur merkingu og skírskotun til allra. Í lok fundar var rætt um aðkomu heildarsamtaka opinberra starfsmanna að kynningu á siðareglum. Í máli Helgu kom fram að það yrði ekki mikill vandi og væri bæði hægt að nýta trúnaðarmannakerfi og vefi stéttarfélaganna til þess. Hún sagðist trúa því að hægt sé að búa til reglur sem nái til allra og tók undir orð MP um að mestu skipti að auka meðvitund um gildi siðareglna.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 12.10.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum