Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. nóvember 2011 Forsætisráðuneytið

Sóknaráætlanir landshluta – nýsköpun í vinnulagi – tilraunaári að ljúka

Ráðherranefnd um ríkisfjármál samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að leggja til að 11 verkefni sem þróuð voru í samráðsferli ríkis og sveitarfélaga vegna sóknaráætlana landshluta færu inn á fjárlög 2012. Í heild er um að ræða verkefni fyrir um 220 milljónir á næsta ári.

Sóknaráætlanir landshluta eru eitt af þeim verkefnum sem unnið er að í tengslum við stefnuna Ísland 2020. Verkefnið felur í sér að landshlutasamtök sveitarfélaga fá í fyrsta skipti að hafa bein áhrif á forgangsröðun verkefna í héraði með skipulögðum hætti. Við val á verkefnunum voru markmið Ísland 2020 lögð til grundvallar, auk hugmynda og áherslna sem samþykktar voru á þjóðfundum landshluta árið 2010 og stefnumörkun landshlutasamtaka í kjölfar þeirra. Forgangsröðun verkefna  á hverju svæði var því á hendi heimafólks unnin á sameiginlegum vettvangi sveitarstjórna, fulltrúa atvinnulífs og stofnana á svæðinu.

Verkefnið hófst í byrjun árs 2011 og hefur það verið tilraunverkefni sem byggir á nýjum vinnubrögðum um samvinnu milli Stjórnarráðs og sveitarstjórnarstigsins.  Samráðið hefur verið umfangsmikið og hafa átta ráðuneyti, átta landshlutasamtök og hátt í 300 manns tekið þátt í því. Hefur samráðið einnig reynst Stjórnarráðinu mikilvægt lærdómsferli í samvinnu þvert á ráðuneyti. Samskipti ráðuneyta og landshlutasamtaka hafa í ferlinu verið mikil og ýtt undir einföldun og eflingu samskipta ríkis og sveitarfélaga. Ábyrgðarráðuneyti verkefnisins voru innanríkis- og iðnaðarráðuneyti en í upphafi komu auk þeirra forsætis- og fjármálaráðuneytið að verkefninu. Síðar komu velferðar-, mennta- og menningarmála-, umhverfis-, utanríkis- og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið að ferlinu.  Lögð var áhersla á samvinnu og jafna aðkomu allra ráðuneyta að verkefninu.  

Alls bárust 57 verkefni frá landshlutasamtökunum átta. Þegar þau höfðu verið vegin og metin út frá þeim forsendum sem lagt var upp með uppfylltu 11 þeirra skilyrðin. Flest verkefnin eru til fjögurra ára og er áætlað að þau muni kosta um 500 milljónir kr. á tímabilinu.  Verkefnin sem um er að ræða  skiptast þannig eftir landshlutum:

  • Höfuðborgarsvæðið:
    Uppbygging hjóla- og göngustíga
  • Suðurnes: 
    Reykjanes Geopark – Stofnun jarðvangs á Reykjanesi
  • Suðurland:
    Art verkefnið – forvarnarverkefni innan grunnskólanna
  • Austurland:
    Uppbygging jarðfræðiseturs á Breiðdalsvík
  • Norðurland eystra:   
    Fjarskipti og gagnaflutningar – verkefni er miðar að  eflingu  fjarskipta og gagnaflutninga í landshlutanum.
    Norðurslóðamiðstöð Íslands – Uppbygging miðstöðvar norðurslóðamála og samstarfsvettvangs norðurslóðastofnana og samtaka
  • Norðurland vestra:
    Lagning hitaveitu frá Reykjum við Húnavelli að Skagaströnd
    Dreifnám í Húnaþingi vestra
  • Vestfirðir:
    Hafi og strönd – undirbúningsverkefni um eflingu kjarnahæfni, auknar rannsóknir á einkennum og styrkleikum Vestfjarða.
  • Vesturland:
    Efling fjarskipta og gagnaflutninga – verkefni er miðar eflingu  fjarskipta og gagnaflutninga í landshlutanum.
    Efling sveitarstjórnarstigsins – verkefni er hefur það að markmiði að liðka fyrir samstarfi og samvinnu sveitarfélaga innan landshlutans.   

Ráðherranefnd um ríkisfjármál setti þrjá fyrirvara við þau 11 verkefni sem valin voru á þessu fyrsta ári sóknaráætlana landshluta.

  • Í fyrsta lagi að verkefnin séu unnin í samvinnu ábyrgðarráðuneyta verkefnanna og viðkomandi landshlutasamtaka.  
  • Í öðru lagi að þær verkefnalýsingar sem bárust frá landshlutasamtökum séu lagðar til grundvallar en opið sé fyrir breytingar á þeim varðandi útfærslu verkefnanna.  
  • Í þriðja lagi að fjárveitingar fari ekki í önnur verkefni heldur einungis þau sem nefnd eru hér að framan.

Það er með ánægju sem forsætisráðuneytið, f.h. allra sem tóku þátt, tilkynnir um lok þessa fyrsta árs í þessu sámráðs- og samvinnuverkefni. Með þessu tilraunaverkefni sem haldið verður áfram að þróa á næsta ári hafa sveitarfélög í gegnum landshlutasamtök fengið beina aðkomu að forgangsröðun verkefna í fjárlagaferlinu. Þá hefur vinna allra þeirra 300 sem að verkinu komu síðustu mánuði sýnt fram á það að samhent stjórnsýsla með valddreifingu að leiðarljósi virkar í framkvæmd milli tveggja stjórnsýslustiga.

Nánari upplýsingar:   Héðinn Unnsteinsson, [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum