Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. desember 2011 Utanríkisráðuneytið

Samstarf við Rauða kross Íslands

AlthjodaradstefnaICRU
AlthjodaradstefnaICRU

Dagana 28. nóvember til 1. desember síðastliðinn fór fram 31. alþjóðaráðstefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Genf. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Veröldin okkar. Þú átt leik.“ Á ráðstefnunni flutti Haukur Ólafsson, formaður sendinefndar Íslands og deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, ávarp þar sem lögð var áhersla á eflingu alþjóðlegrar mannúðaraðstoðar á grundvelli Genfarsamninganna frá 1949 og viðbótarbókana þeirra.

Á alþjóðaráðstefnunni undirrituðu formaður íslensku sendinefndarinnar og Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands, sameiginlegar heitstrengingar stjórnvalda og Rauða kross Íslands um samstarf á árunum 2011-2015. Þær varða m.a. gerð samstarfsyfirlýsingar milli utanríkisráðuneytisins og Rauða kross Íslands fyrir árin 2011-2015, um afmörkuð verkefni Rauða krossins, kynningu á alþjóðlegum mannúðarrétti og gagnkvæma upplýsingagjöf um alþjóðleg mannúðarmál.

Þá verður á vegum innanríkisráðuneytisins endurskoðuð löggjöf um útlendinga með mannúðarsjónarmið að leiðarljósi. Í þessu felst m.a. að leitast verður við að stytta málsmeðferðartíma hælisleitenda og skoða sérstaklega stöðu viðkvæmra hópa innflytjenda og hælisleitenda. Þar að auki mun á tímabilinu verða unnið að undirbúningi fullgildingar alþjóðasamninga um ríkisfangsleysi frá 1954 og 1961. Ennfremur er stefnt að því að greina mögulegar hindranir og eftir atvikum endurskoða löggjöf og verklag í tengslum við veitingu neyðaraðstoðar við Ísland ef til alvarlegra hamfara kæmi.

Að auki tók Ísland þátt í sameiginlegu áheiti Norðurlandanna (landsfélög og stjórnvöld) um hlutlausa og sjálfstæða mannúðaraðstoð á alþjóðavettvangi.

Hjálagt fylgir ávarp íslenskra stjórnvalda á alþjóðaráðstefnunni (pdf).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum