Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. desember 2011 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 15. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn föstudaginn 9. desember 2011, kl. 14.00, í húsnæði Háslólans á Bifröst, Hverfisgötu 4-6.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) og skipuð af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu og Magnús Pétursson (MP), fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir og Páll Þórhallsson boðuðu forföll.

Samkvæmt lögum um Stjórnarráðið, nr. 115/2011, ber að leita eftir tillögum frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands við undirbúning siðareglna. Drög að siðareglum fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins voru send Siðfræðistofnun í byrjun nóvember og barst formlegt svar þann 17. nóvember 2011. JÓ fór yfir athugasemdirnar lið fyrir lið og er margt í þeim gagnlegt. M.a. er vakin athygli á að ekki sé minnst á að starfsfólk ráðuneyta hafi skyldur við ráðherra, t.d. hvað varðar upplýsingagjöf. Ekki var talin ástæða til að nefna það sérstaklega þar sem tekið er á þessu atriði í Stjórnarráðslögunum. Þar segir í gr. 20: Starfsmenn ráðuneyta skulu í samræmi við stöðu sína og hlutverk veita ráðherra réttar upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á staðreyndum og faglegu mati á valkostum þannig að hann geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og stefnumótun.

Þá var bent á að liður b í 1. kafla siðareglna sem varðar hagsmunatengsl mætti vera afdráttarlausari og urðu heilmiklar umræður um þetta atriði en ákveðið að hafa það óbreytt en fjalla ítarlega um hagsmunatengsl í greinagerð. Gerð var tillaga um orðalagsbreytingu í 3. c; í stað þess að segja „líklegt er til að vekja grunsemdir“ verði notað orðalagið „gefur til kynna“ og var breytingartillagan samþykkt af nefndarmönnum. Einnig var ákveðið að gera breytingu á 5. c. því sú grein hefst með orðunum „bregðast skal við“, og er þar af leiðandi í boðhætti, en ekki nafnhætti.

Í umsögn Siðfræðistofnunar segir að kaflinn um grunngildi mætti vera skýrari og markvissari. Svipaðar ábendingar bárust frá starfsmönnum ráðuneyta og því er JÓ með tillögu þess efnis að setja grunngildin og góðar siðvenjur upp á sjónrænni hátt. Þá yrðu siðvenjurnar flokkaðar eftir innihaldi og settar undir viðeigandi grunngildi, þ.e. ábyrgð, þjónustu og óhlutdrægni. Hann mun senda nefndarmönnum tillögu að uppsetningu í tölvupósti. Í umræðum um næstu skref sagðist JÓ ætla að byrja sem fyrst á greinagerð og HF ætlar að byrja að undirbúa skýrslu til forsætisráðherra. Ekki var tekin ákvörðun um næsta fund.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 15:30.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum