Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. desember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra við húsvígslu Veðurstofu Íslands

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við formlega vígslu nýs húsnæðis Veðurstofu Íslands að Bústaðarvegi 7 þann 16. desember 2011.

Forstjóri og starfsmenn Veðurstofu Íslands, aðrir gestir,

Fáar stofnanir eiga jafn ríkan sess í hjörtum landsmanna og Veðurstofa Íslands. Í landi þar sem veður eru válynd hefur fólk eðlilega mikla þörf fyrir tíðar og traustar fréttir af veðri, þeirri þörf hefur verið sinnt af Veðurstofunni í rúm 90 ár. Heilu kynslóðirnar ólust upp við nýjustu fréttir af veðurskipinu Metró, lægðum djúpt suður af landinu eða skyggni dagsins á Dalatanga. Og nú á aðventunni brýst eftirvæntingin út í tíðum fréttum, þar sem hart er gengið að veðurfræðingum að svara heitustu spurningu samtímans: hvort búast megi við rauðum eða hvítum jólum. Þær fabúleringar fá fólk jafnvel til að kvarta undan því að langtímaspá Veðurstofunnar nái “bara” viku fram í tímann, en ég leyfi mér að fullyrða að óvíða finnist þjóð með jafn sterkar skoðanir á spálíkönum veðurfræðinga og hér á landi.

Það er mér því sérstök ánægja að vera með ykkur hér í dag, þegar nýtt húsnæði Veðurstofu Íslands er formlega tekið í notkun. Það skiptir höfuðmáli að vel sé búið að starfseminni. Með þeim breytingum sem nú hafa orðið í húsnæðismálum stofnunarinnar er stigið mikilvægt skref í sameiningu Vatnamælinga Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands sem varð formlega 1. janúar 2009 og því fögnum við hér í dag.

Fljótlega eftir að ákvörðun var tekin um sameiningu Vatnamælinga Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands var sett af stað vinna við að tryggja framtíðarhúsnæði nýrrar stofnunar. Starfsemi nýrrar stofnunar gerði miklar kröfur til húsnæðis, ekki síst í ljósi áherslu á vöktun vegna náttúruvár, því gríðarlega mikilvæga öryggishlutverki sem stofnuninni er falið. Þá gera tölvu- og upplýsingakerfi stofnunarinnar miklar kröfur til húsnæðis, enda er þetta sennilega sú stofnun sem safnar einna mestum gögnum hér á landi, hvort sem það eru upplýsingar um veður, vatnafar, jarðskjálfta eða annað.

Eftir mikla vinnu við þarfagreiningar og hagkvæmniathuganir – sem þurfti í ofanálag að endurskoða vegna hruns sem varð í millitíðinni – varð sú leið ofan á að kaupa Landsnetshúsið og byggja við það þannig að öll starfsemi Veðurstofunnar rúmaðist þar.

Mikil vinna hefur farið í að þróa áfram og undirbúa breytingar á húsnæðismálum Veðurstofunnar og er það von mín að þessi áfangi sem við fögnum nú styrki verulega starfsemi stofnunarinnar. Næstu skref til að koma starfsemi Veðurstofunnar undir eitt þak er að fara í deiliskipulagsvinnu með Reykjavíkurborg. Í framhaldi af því þarf síðan að byrja undirbúning að byggingu viðbyggingar, þannig að þegar rofar til í ríkisfjármálunum verði mögulegt að fara af krafti í að ljúka því mikilvæga verkefni að koma Veðurstofunni undir eitt þak í framtíðarhúsnæði. Þegar Veðurstofan flutti í sitt fyrsta sérhannaða húsnæði á Bústaðaveginum árið 1973 hafði hún lengi verið á hrakhólum. Engu að síður hafði verið ákveðið í lögum um Veðurstofu Íslands frá 15. júní 1926, að reist skyldi hús fyrir starfsemina “eins fljótt og verða mætti”. Ég held að okkur sé óhætt að slá því föstu, að vinnan við frekari úrbætur í húsnæðismálum sé komin í annan og hraðskreiðari farveg.

Góðir gestir,

Öryggishlutverk Veðurstofunnar hefur heldur betur verið í kastljósinu undanfarin ár, í gegnum eldgos og jökulflóð. Við megum vera stolt af starfi stofnunarinnar, ekki aðeins í mikilvægu starfi fyrir land og þjóð, heldur einnig í þágu alþjóðasamfélagsins. Ekki er vafamál að fumlaus viðbrögð Veðurstofunnar við Grímsvatnagosinu eiga stærstan þátt í því að áhrif á alþjóðlegt flug á Norður-Atlantshafi urðu mun minni en ætla hefði mátt með hliðsjón af stærð gossins. Vil ég nota þetta tækifæri og ítreka þakkir til ykkar frá ráðuneytinu fyrir ykkar góðu störf að undanförnu. Það skiptir miklu að við búum yfir sem bestri þekkingu, svo viðbrögð við náttúruvá séu fumlaus. Til að hægt sé að vinna heildarmat á mögulegri hættu vegna eldgosa á innviði íslensks samfélags lagði ég í síðustu viku til breytingar á lögum, þar sem Ofanflóðasjóði er heimilað að taka þátt í kostnaði við hættumat vegna eldgosa.

Góðir gestir,

Að lokum langar mig að vitna í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 4. desember 1973, þegar Veðurstofan flutti í eldra húsnæðið hér við Bústaðaveg:

“Aðspurður sagði Hlynur, [þáverandi veðurstofustjóri,] að nafn á húsið hefði ekki verið ákveðið, en ýmsar uppástungur hefðu komið fram svo sem Vindheimar, Lægðarbakki, Hæðarbrún og Golan-hæðir, en óbyggt var húsið jafnan nefnt Skýjaborgir.”

Ég legg til að gott nafn verði fundið á þetta glæsilega nýja hús Veðurstofunnar, því ekki gengur að kalla það Landsnetshúsið til lengdar.

Það er alltaf spennandi að hefja störf á nýjum stað og í nýju umhverfi – jafnvel þó ekki sé lengra farið en í næsta hús. Ég óska ykkur til hamingju með nýja húsnæðið, sem ég vænti að muni auðvelda ykkur störfin og auka enn á hróður Veðurstofunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum