Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. desember 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Rúmar 223 milljónir króna í styrki til tækjakaupa

Velferðarráðuneytið hefur ákveðið að veita rúmar 223 milljónir króna til endurnýjunar og viðhalds tækja og búnaðar á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum.

Hæsta fjárhæðin, 70 milljónir króna, rennur til endurbóta á fæðingar- og kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fær 60 milljóna króna fjárveitingu til endurnýjunar á tækjabúnaði og Landspítalinn fær 50 milljónir króna til kaupa á geislunartæki fyrir Blóðbankann og til kaupa á tölvubúnaði fyrir starfsfólk.

FSA---starfsfolkAnna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu, tilkynnti um fjárveitinguna til Sjúkrahússins á Akureyri þegar hún var viðstödd samsæti sem þar var haldið í liðinni viku til heiðurs átján starfsmönnum sem unnið hafa hjá sjúkrahúsinu í aldarfjórðung.

Tilkynningu um fjárveitinguna var vel fagnað enda hefur lengi verið þörf fyrir endurbætur á fæðingar- og kvennadeild sjúkrahússins.

Anna Lilja bar starfsfólki kveðju velferðarráðherra sem ekki gat verið viðstaddur og færði því þakkir hans fyrir dygga þjónustu og vel unnin störf: „Styrkur hverrar stofnunar liggur fyrst og fremst í starfsfólkinu, starfsemin væri ekkert án ötulla starfsmanna.“

Framlög til tækjakaupa og endurnýjunar búnaðar hjá öðrum stofnunum

Auk áðurnefndra fjárveitinga fær Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 13,5 milljónir króna til kaupa á hjartaritakerfi, röngenmyndabúnaði og ristilspeglunartæki og Heilbrigðisstofnun Vesturlands fær 11,5 milljónir króna til ýmissa tækjakaupa. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða fær 9 milljónir króna til kaupa á hjartarita, Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar 5,5 milljónir króna til kaupa á myndgreiningarbúnaði og Heilbrigðisstofnun Blönduóss fær 2,8 milljónir króna til endurnýjunar tækja. Loks rennur 1,1 milljón króna til Sjúkrahússins á Akureyri vegna kaupa á búnaði vegna sjúkraflugs.

Fjármunirnir sem veittir eru til framantalinna verkefna koma af safnliðum sem ekki hafði verið ráðstafað hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu og voru ætlaðir til að standa straum af ýmsum stofnkostnaði hjá velferðarstofnunum. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum