Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. desember 2011 Forsætisráðuneytið

A-396/2011. Úrskurður frá 29. desember 2011.

ÚRSKURÐUR

Hinn 29. desember 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-396/2011.

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 22. júní 2010, kærði [A], [...]stöðum við [...], synjun Neyðarlínunnar ohf. annars vegar og lögreglunnar á Selfossi hins vegar á því að láta honum í té tilteknar upplýsingar.

Í kæru er atvikum lýst á þann veg að 8. júní 2010 hafi slökkviliðsbílar auk lögregluþjóna mætt heim til kæranda. Hafi honum verið tjáð að um væri að ræða útkall vegna bruna. Af atvikalýsingu í kæru má skilja að um hafi verið að ræða litla brennu á rusli sem fram hafi farið á lóð kæranda sem ekki hafi verið tilefni til útkalls slökkviliðs. Kærandi hafi óskað upplýsinga um það hver hefði tilkynnt um bruna á lóð hans en fengið þau svör að þær upplýsingar lægju ekki fyrir hjá lögreglu. Tilkynning hefði borist frá Neyðarlínunni. Kærandi hafi því næst leitað til Neyðarlínunnar og óskað upplýsinga um það hver hafi tilkynnt um bruna á lóð hans en fengið þau svör að fyrirtækið væri bundið trúnaði um þær upplýsingar.

Í kæru kemur einnig fram að síðar sama dag hafi kærandi fengið símhringingu frá lögreglunni á Selfossi. Lögreglumaður hafi tjáð honum að tilkynnt hafi verið um að hestur væri fastur í girðingu í landi hans. Kærandi hafi þá óskað upplýsinga um hver hafi staðið að baki tilkynningunni en fengið þau svör að þær upplýsingar lægju ekki fyrir. Síðar hafi lögreglan á Selfossi haft samband við hann á ný og tjáð honum að haft hefði verið samband við tilkynnanda sem hafi tjáð lögreglunni að um væri að ræða folaldshryssu á [...]stöðum. Athugun kæranda hafi leitt í ljós að ekkert af hrossum hans hefði verið fast í girðingu.

Af kæru verður ráðið að kærandi óskar upplýsinga um það hverjir hafi beint til lögreglu eða eftir atvikum í samræmda neyðarsvörum tilkynningum um framangreind atvik. Kæra málsins beinist að synjun Neyðarlínunnar ohf. annars vegar og lögreglunnar á Selfossi hins vegar á því að láta þær upplýsingar í té.

 

Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tilkynnti lögreglunni á Selfossi um fram komna kæru með bréfi, dags. 28. júní 2010. Var þess óskað að nefndinni yrðu látnar té viðeigandi skýringar vegna hennar auk þess sem óskað var eftir að henni yrðu látin í té gögn málsins.

Svar lögreglunnar á Selfossi barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 6. júlí 2010. Í svari lögreglunnar er lýst tilkynningum sem henni bárust frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra vegna þeirra atvika sem lýst er í kæru málsins. Þar kemur einnig fram að bæði málin hafi verið skráð í lögreglukerfi, sem nefnt er Löke. Lögreglan á Selfossi hafi ekki verið í samskiptum við tilkynnendur í þessum málum. Bæði málin hafi stöðu verkefnis í lögreglukerfinu en ekki stöðu brots þar sem aðeins hafi verið um tilkynningar að ræða en ekki kærur. Verkefnunum hafi verið lokið samdægurs og ekkert frekar aðhafst í málunum. Í bréfi lögreglunnar er einnig vísað til þess að um miðlun persónuupplýsinga úr lögreglukerfinu Löke sé stuðst við reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Núgildandi reglugerð um miðlun persónuupplýsinga hjá lögreglu er nr. 322/2001, með síðari breytingum. Þá kemur þar fram það sjónarmið í svarbréfi lögreglunnar að einstaklingar sem tilkynni til lögreglu um hvað eina sem varði almannaheill verði að vera óhultir fyrir því að persónuupplýsingum um þá sé miðlað til einkaaðila sem hugsanlega geti misfarið með þær. Bréfi lögreglunnar fylgdu útprentanir úr lögreglukerfinu Löke varðandi umrædd tvö mál.

Meðferð máls þessa hefur dregist óhæfilega af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Ástæður tafa er að rekja til anna í störfum nefndarinnar annars vegar og mistaka við skipulag á meðferð málsins hins vegar.

 

Niðurstaða

1.
Kæra máls þessa beinist í fyrsta lagi að synjun Neyðarlínunnar ohf. á því að láta kæranda í  té tilteknar upplýsingar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 taka ákvæði þeirra til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins taka lögin enn fremur til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í skýringum við 1. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum er rakið að lögin taki til þeirrar starfsemi sem heyri undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrígreiningu ríkisvaldsins. Þá er tekið fram að lögin taki einnig til þeirrar starfsemi einkaaðila sem lýtur að því að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í skýringunum segir svo: „Að öðru leyti gilda lögin ekki um einkaaðila, en undir hugtakið „einkaaðilar“ falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu. Ef rekstrarformi opinberrar stofnunar hefur t.d. verið breytt í hlutafélagsform fellur hlutafélagið sem slíkt utan gildissviðs laganna, jafnvel þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélags, nema einvörðungu í því tilviki að félagi einkaréttarlegs eðlis hafi verið falið sérstakt stjórnsýsluhlutverk, þ.e. að taka ákvarðanir, í skjóli stjórnsýsluvalds, um rétt eða skyldu manna.“

Eins og fram hefur komið í fyrri úrskurðum nefndarinnar í málnum nr. A-264/2007, A-269/2007, A-273/2007, A-285/2008, A-290/2008, A-307/2009 og A-309/2009, hefur verið litið svo á, í ljósi framangreindra skýringa með upplýsingalögunum, að félög sem rekin eru í einkaréttarlegu félagsformi, s.s. hlutafélög og sameignarfélög, falli utan við gildissvið upplýsingalaga, enda hafi félaginu ekki verið falið að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. upplýsingalaga, eða í sérlögum sé beinlínis kveðið á um það að upplýsingalögin taki til viðkomandi félags. Á það einnig við um slík félög sem eru í eigu hins opinbera. Neyðarlínan ohf. er opinbert hlutafélag.

Með vísan til orðalags 1. gr. upplýsingalaga fellur starfsemi Neyðarlínunnar ohf. ekki undir ákvæði upplýsingalaga. Ber því að vísa kæru málsins hvað það fyrirtæki varðar frá úrskurðarnefndinni.

2.
Kæra málsins beinist í öðru lagi að synjun lögreglunnar á Selfossi á því að láta kæranda í té upplýsingar um það hverjir hafi þann 8. júní 2010 tilkynnt til lögreglu um bruna á lóð hans annars vegar og um hross sem væri fast í girðingu á landi hans hins vegar. Ekki er um að ræða mál sem sæta rannsókn sem sakamál samkvæmt lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. breytingu sem á því ákvæði var gerð með 234. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Um rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum upplýsingum fer því eftir ákvæðum upplýsingalaga nr. 50/1996.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Takmarkanir á þessum rétti aðila koma fram í 2. og 3. mgr. sama ákvæðis.

Þau gögn sem lögreglan á Selfossi hefur afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál vegna þeirra tveggja mála sem kærandi hefur óskað upplýsinga um geyma upplýsingar sem varða kæranda sjálfan með beinum hætti. Um rétt hans til aðgangs að þeim fer því eftir tilvitnuðu ákvæði 9. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér umrædd gögn. Ekkert í þeim er þess eðlis, með hliðsjón af atvikum þeirra mála sem um ræðir, að rétt sé að takmarka aðgang kæranda að þeim vegna einkahagsmuna annarra, sbr. 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga, eða vegna mikilvægra almannahagsmuna, sbr. 2. tölul. 2. mgr. sama ákvæðis. Jafnramt skal bent á að samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 322/2001, um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, á hinn skráði rétt á að fá frá lögreglu upplýsingar um hvaða upplýsingar um hann er eða hefur verið unnið með, tilgang vinnslunnar og hver  fær, hefur fengið eða muni fá upplýsingar um hann.

Með vísan til framangreinds á kærandi samkvæmt 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga rétt á að fá afhent þau tvö skjöl sem lögreglan á Selfossi hefur afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál en um er að ræða útprentanir úr lögreglukerfinu Löke sem auðkenndar eru með málsnúmerunum „033-2010-003989 – 205 [...]dalur reykur í húsi“ annars vegar og „033-2010-003994 – Hestur fastur í girðingu [...]stöðum“ hins vegar.


Úrskurðarorð

Kæru [A] á hendur Neyðarlínunni ohf. er vísað frá.

Lögreglunni á Selfossi ber að afhenda kæranda eftirtalin tvö skjöl sem varða mál hans: 1) Útprentun úr lögreglukerfinu Löke, auðkennd með málsnúmerinu „033-2010-003989 – 205 [...]dalur reykur í húsi“ og 2) útprentun úr sama kerfi, auðkennd með málsnúmerinu „033-2010-003994 – Hestur fastur í girðingu [...]stöðum“.

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

       Friðgeir Björnsson                                                                                 Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum