Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. desember 2011 Forsætisráðuneytið

Frá ríkisráðsritara

Á fundi ríkisráðs á Bessastöðum í dag var að tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra fallist á að veita Jóni Bjarnasyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Árna Páli Árnasyni efnahags- og viðskiptaráðherra, lausn frá embætti ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Jafnframt var að tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra fallist á að veita Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra, lausn frá því embætti og skipa hann efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ennfremur var að tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra fallist á að skipa Oddnýju G. Harðardóttur fjármálaráðherra.

Þá staðfesti forseti Íslands svohljóðandi úrskurð um skiptingu starfa ráðherra:

„Samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með skírskotun til 15. gr. stjórnarskrárinnar, laga um Stjórnarráð Íslands og forsetaúrskurðar um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, er störfum þannig skipt með ráðherrum:

Jóhanna Sigurðardóttir fer með forsætisráðuneytið.

Steingrímur J. Sigfússon fer með efnahags- og viðskiptaráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Össur Skarphéðinsson fer með utanríkisráðuneytið.

Katrín Jakobsdóttir fer með mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Katrín Júlíusdóttir fer með iðnaðarráðuneytið.

Svandís Svavarsdóttir fer með umhverfisráðuneytið.

Ögmundur Jónasson fer með innanríkisráðuneytið.

Guðbjartur Hannesson fer með velferðarráðuneytið.

Oddný G. Harðardóttir fer með fjármálaráðuneytið.

Með úrskurði þessum falla úr gildi eldri ákvæði um skiptingu starfa ráðherra.“

Við þetta tilefni sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra:

„Með skipan nýrrar ríkisstjórnar hafa orðið þau ánægjulegu tímamót að í fyrsta sinn eru konur í meirihluta við ríkisstjórnarborðið og í fyrsta sinn gegnir konar embætti fjármálaráðherra á Íslandi. Það er sérstaklega ánægjulegt að enda árið 2011 með því að ná þessum merka áfanga í jafnréttisbaráttu á Íslandi.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum