Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. janúar 2012 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 16. fundar samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna

Fundur haldinn föstudaginn 6. janúar 2012, kl.8:30, í forsætisráðuneytinu, Hverfisgötu 4-6.

Mætt: Jón Ólafsson (JÓ), formaður nefndarinnar, Páll Þórhallsson skipaður af forsætisráðherra, Halldóra Friðjónsdóttir (HF) frá fjármálaráðuneytinu, Magnús Pétursson (MP), fulltrúi Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ) frá BSRB. Guðfinna Halla Þorvaldsdóttir (GHÞ) og Kristín Ástgeirsdóttir (KÁ) boðuðu forföll.

Fyrir fundin hafði JÓ sent nefndarmönnum nýjustu útgáfu siðareglna fyrir starfsmenn stjórnarráðsins og drög að greinagerð/skýrslu. Í umræðum um reglurnar sagði MP að það væri eitthvað við orðið heilindi sem truflaði hann en þrátt fyrir miklar vangaveltur hefði hann ekki tillögu um orð sem gæti komið í staðinn og náð yfir það sama. Hann sé ekki viss um að þeir sem reglurnar eiga að ná yfir skilji heilindi á sama hátt og nefndin og spyr hvort ekki sé sé betra að hafa yfirskriftina megingildi stjórnsýslunnar. Þá spurði hann hvort ekki þyrfti að vera grein í siðareglum starfsfólks stjórnarráðsins sambærileg við 8. gr. siðareglna ráðherra en þar er fjallað um samhæfingarnefndina og hlutverk hennar. JÓ sagði vel mögulegt að skipta heilindum út og hafa yfirskriftina góðar siðvenjur eða megingildi. Allir sammála um að það þyrfti að setja inn málsgrein þar sem það kæmi fram að starfsfólk gæti leitað til samhæfingarnefndarinnar.

Þá var rætt um framsetningu bæði gilda og siðareglnanna sjálfra því eins og PÞ hefur bent á þyrfti að auðkenna reglurnar með tölustaf eða bókstaf svo auðveldlega megi vísa til þeirra. Ef brot á siðareglum kæmi til kasta Umboðsmanns Alþingis þyrfti hann t.d. að tiltaka um hvaða grein væri að ræða. Miðað við núverandi framsetningu er búið að flokka góðar siðvenjur eftir innihaldi, þ.e. setja þær undir grunngildin óhlutdrægni, þjónusta og ábyrgð. Yfir þessum gildum er klausa sem þjónar því hlutverki að vera eins konar innleiðing og taldi PÞ lokasetninguna þar óþarfa. Svo væri líka betra að textinn í kössunum þar fyrir neðan hefði beina tengingu við inngangsklausuna, þ.e. að sanngirni kæmi fyrir í fyrsta kassanum líkt og að ofan, virðing í næsta o.s.fr.v. Nefndarmenn sammála um að taka út lokasetninguna í inngangsorðunum og JÓ taldi líka heppilegra að sleppa því að hafa orðin óhlutdrægni, þjónusta og ábyrgð sem yfirskrift. GHÞ sendi athugasemdir í tölvupósti fyrir fundinn  þar sem hún sagðist efins um þá framsetningu að byrja hverja setningu á við. Þetta var rætt en ákveðið að hafa þetta óbreytt. JÓ mun gera lagfæringar á skjalinu í samræmi við umræður á fundinum og verður það endanleg útgáfa gilda og siðareglna fyrir starfsfólk Stjórnarráðsins.

Greinagerðin var þessu næst til umfjöllunar. MP lét í ljós þá skoðun að gera mætti leiðarstefjunum sem hópurinn fór eftir, þ.e. að siðareglur ættu að hafa leiðsagnargildi, vera stýrandi og hafa eftirlitsgildi, hærra undir höfði. Hann sagðist hafa staðnæmst við fullyrðingu um að reglurnar innihéldu ekki ný eða óvænt íþyngjandi ákvæði og var talið betra að sleppa þessari setningu. Einnig voru vangaveltur um hvort ætti að vitna beint í ummæli umboðsmanns Alþingis og ríkisendurskoðanda og var talið heppilegra að gera það ekki.

Samkvæmt lögunum um siðareglur (86/2011) á fjármálaráðherra að staðfesta siðareglur fyrir almenna ríkisstarfsmenn. MP telur mjög mikilvægt að þær reglur verði fljótt tilbúnar og kynntar meðal forstöðumanna, t.d. á sameiginlegum fræðslufundi. Hann ætlar að kanna hvenær væri hægt að halda slíkan fund. HF tekur að sér að gera drög að reglum fyrir almenna starfsmenn sem yrðu rædd á næsta fundi. Þá kom upp sú hugmynd að boða til blaðamannafundar til að vekja athygli á siðareglunum þegar búið væri að staðfesta reglur fyrir almenna starfsmenn.

Ekki fleira rætt og fundi slitið kl. 9:45.

Fundarritari Halldóra Friðjónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum