Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. janúar 2012 Forsætisráðuneytið

Rangfærslur Samtaka atvinnulífsins leiðréttar

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sent Samtökum atvinnulífsins svarbréf þar sem rangfærslur samtakana í bréfi frá 10. janúar sl. eru leiðréttar. Bréfinu fylgir ítarlegt yfirlit yfir raunverulega stöðu þeirra 44 verkefna sem finna má í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gerð var í tengslum við kjarasamninga sl. vor, ásamt samanburði við yfirlit SA og ASÍ um sama efni.

Bréf forsætisráðherra er svohljóðandi:

„Bréf Samtaka atvinnulífsins dags. 10. janúar  um framgang verkefna í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 2011 kallar á viðbrögð.  

Yfirlýsing ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga frá 5. maí sl. er gríðarlega metnaðarfullt plagg. Þar er m.a. tekið á fjölmörgum álita- og ágreiningsefnum sem íslenskt samfélag hefur glímt við um langt skeið. Hér er ekki síst vísað til lífeyrismála.

Í meðfylgjandi töflu er gerður samanburður á mati SA, ASÍ og stjórnvalda á efndum einstakra  verkefna. Þar fylgja og með skýringar á stöðu mála. Það vekur auðvitað athygli hversu mikið ber á milli þessara aðila. Furðu vekur að Samtök atvinnulífsins skuli halda því fram að engar breytingar hafi orðið á lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti en þeim lögum var breytt þann 4. september sl.  SA telur bráðaaðgerðir vegna atvinnuleysis vera eitt verkefni,  en bæði ASÍ og stjórnvöld telja sem satt er að um sé að ræða 7 sjálfstæð verkefni.

Á lista stjórnvalda sem kynntur hefur verið aðilum alloft eru talin upp 44 verkefni. Af þeim eru  23 eða réttum helmingi lokið og 19 verkefni eru í vinnslu. Vegaframkvæmdir Suðvesturlandi hafa ekki gengið eftir, en eins og alkunna er mætti fjármögnun með vegatollum mikilli andstöðu í héraði. Þá ber að harma að vinna við breytingar á lögum um opinber innkaup hefur tafist. Mál eins og lífeyrismálin eru af þeirri stærðargráðu að vanda verður til við lausn þeirra. Fjölmörg þeirra verkefna sem eru í vinnslu eru langt komin og verður vinnu við þau hraðað á næstu vikum og mánuðum svo sem kostur er.  

Samtök atvinnulífsins spara ekki brigslyrðin og upphrópanir í bréfi sínu frekar en oft áður. Við þeim verður ekki brugðist að sinni.  Eftir sem áður er ríkisstjórnin reiðubúin til samráðs við aðila vinnumarkaðarins m.a. til að samræma mat á framgangi verkefna sem fólust í yfirlýsingu stjórnvalda.“

Meðfylgjandi yfirlit yfir stöðu verkefnanna 44, með samanburði við mat SA og ASÍ á verkefnum yfirlýsingarinnar, fylgdi bréfi forsætisráðherra en þar kemur m.a. fram að eftirfarandi verkefni hafa öll gengið eftir: Verðtrygging persónuafsláttar, hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbætur, tryggingagjald hefur lækkað, tilteknar breytingar gerðir á skattlagningu fyrirtækja og aðar í farvegi, átak vegna svartrar atvinnustarfsemi í sumar, réttarstaða starfsfólks við gjaldþrotaskipti bætt, er varðar launakjör ofl., bótatímabil atvinnuleitenda í starfstengdum úrræðum ekki skert, allir  launagreiðendur skyldaðir  til að greiða 0,13% iðgjald í Starfsendurhæfingarsjóð, framhaldsskólum falið að taka inn  umsækjendur yngri en 25 ára sem uppfylla skilyrði og námstækifæri í boði fyrir allt að 1.000 atvinnuleitendur haustið 2011.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum