Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. janúar 2012 Forsætisráðuneytið

Áfangaskil auðlindastefnunefndar

Nefnd um stefnumörkun ríkisins í auðlindamálum sem forsætisráðherra skipaði í júlí 2011 hefur skilað af sér minnisblaði um stöðu verkefnisins. Þar er farið yfir forsendur í erindisbréfi, skilgreiningu helstu hugtaka, afmörkun þeirra auðlinda sem falla undir verksvið nefndarinnar, mikilvægi sjálfbærrar þróunar, markmið heildstæðrar auðlindastefnu, auðlindasjóð, umsýslu með auðlindum og sett fram áætlun um vinnu nefndarinnar á næstu mánuðum.

Varðandi það markmið með starfi nefndarinnar að tryggja að þjóðin njóti arðs af sjálfbærri nýtingu auðlinda sinna segir að mikilvægt sé að svokölluð auðlindarenta og ráðstöfun hennar í þágu samfélagsins verði sýnileg. Stofnun auðlindasjóðs sé mikilvæg í þessu sambandi.

Til skemmri tíma sé ekki áformað að auðlindasjóður lúti sjálfstæðri stjórn hvað ráðstöfun tekna varðar. Fremur verði um það að ræða að draga skýrt fram í ríkisbókhaldinu hvaða tekjur ríkisins stafi af auðlindum og hvert þær renni. Um eiginlega sjóðssöfnun geti hins vegar verið að ræða þegar tekjur stafa af auðlindum sem augljóslega eru ekki endurnýjanlegar. Þannig yrði búið í haginn fyrir komandi kynslóðir sem ekki nytu góðs af sömu auðlindum.

Í nefndinni eiga nú sæti Arnar Guðmundsson formaður, skipaður af forsætisráðherra án tilnefningar, Svanfríður Jónasdóttir, tilnefnd af fjármálaráðherra, Gunnar Tryggvason, tilefndur af iðnaðarráðherra, Ragnar Arnalds, tilnefndur af innanríkisráðherra, Indriði H. Þorláksson, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Álfheiður Ingadóttir, tilnefnd af umhverfisráðherra. Gert er ráð fyrir að nefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. júní 2012.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum