Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. febrúar 2012 Dómsmálaráðuneytið

Frumvarp um breytingu á lögum um skráð trúfélög á dagskrá Alþingis á morgun

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mun á þingfundi á morgun mæla fyrir lagafrumvarpi um breytingu á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999 með síðari breytingum. Drög að frumvarpinu voru birt á vef ráðuneytisins í nóvember og gefinn tveggja vikna frestur til umsagna. Bárust nokkrar umsagnir á þeim tíma.

Markmið frumvarpsins er annars vegar að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og jafna þannig stöðu umræddra félaga á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu vera jafnir að lögum óháð trúar- eða lífsskoðunum. Með frumvarpinu verður meðal annars heimilt að skrá lífsskoðunarfélög líkt og trúfélög að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Við skráningu öðlast lífsskoðunarfélög þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög njóta samkvæmt lögum. Markmið frumvarpsins er hins vegar að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um til hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli heyra, en samkvæmt núgildandi lögum skal barn við fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.

Meginbreytingarnar eru eftirfarandi:

  • Staða skráðra lífsskoðunarfélaga verður jöfn stöðu skráðra trúfélaga.
  • Gerð eru sérstök sérstök skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags.
  • Ráðherra leitar álits sömu nefndar og þegar um er að ræða trúfélög og lífsskoðunarfélög en lagt er til að nefndin verði styrkt með því að bæta við fjórða fulltrúanum í nefndina. Skal sá nefndarmaður vera tilnefndur af sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.
  • Forstöðumönnum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga verður heimilt að tilnefna einstaklinga innan þess félags sem þeir veita forstöðu til að annast þau embættisverk sem forstöðumanni skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eru falin samkvæmt lögum. Tilnefndir einstaklingar skulu starfa á ábyrgð og í umboði forstöðumanns.
  • Lagt er til að barn geti frá fæðingu heyrt til trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða verið utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga með eftirfarandi hætti:
    • Séu foreldrar í hjúskap eða skráðri sambúð barns við fæðingu þess skal það heyra til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess. Sama gildir ef foreldrarnir eru utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga.
    • Ef foreldrar, sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess, heyra ekki til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá til hvaða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli heyra. Fram til þessa tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind.
    • Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal barn heyra til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess. Sama gildir ef foreldrið er utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga.

Meðal skilyrða sem lagt er til að sett verði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags er að félagið byggist á siðferði og lífsskoðunum óháð trúarsetningum og tengja má við þekkt hugmyndakerfi í heimspeki og siðfræði. Þá sé það jafnframt skilyrði fyrir skráningu að lífsskoðunarfélagið miði starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt, eigi sér sögulegar eða menningarlegar rætur og fjalli um siðfræði og þekkingarfræði með ákveðnum og skilgreindum hætti. Enn fremur er lagt til að skilyrði skráningar fyrir bæði trúfélög og lífsskoðunarfélög verði þau að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu. Þá sjái félagið um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir. Þá er lagt til að ráðherra verði heimilt að ákveða með reglugerð tiltekinn lágmarksfjölda félagsmanna til þess að heimilt sé að skrá trúfélag eða lífsskoðunarfélag samkvæmt lögunum.

Breyta þarf fleiri lögum til samræmis
Nái breytingar frumvarpsins fram að ganga hafa þær í för með sér að breyta þarf ýmsum öðrum  lögum til samræmis, svo sem lögum um tekjuskatt, hjúskaparlög og lögum um mannanöfn. Helstu breytingarnar eru þessar:

Með breytingum á lögum um sóknargjöld o.fl. öðlast skráð lífsskoðunarfélög rétt á ákveðinni hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Með breytingum á hjúskaparlögum fá forstöðumenn skráðra lífsskoðunarfélaga heimild til þess að framkvæma hjónavígslur og leita um sættir hjóna samkvæmt hjúskaparlögum. Jafnframt er lagt til að einstaklingum sem starfa í umboði forstöðumanna skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins og uppfylla skilyrði 7. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög verði einnig heimilt að annast hjónavígslur og leita um sættir hjóna. Þá eru einnig lagðar til breytingar á lögum um mannanöfn, lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, lögum um fullnustu refsinga, lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um meðferð einkamála.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum