Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. febrúar 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Kokteiláhrif efna – raunverulegt áhyggjuefni

Efni og efnablöndur.
Efni og efnablöndur.

Umræðan um neikvæð áhrif tilbúinna efna sem finnast í ýmis konar framleiðsluvörum er í algleymingi víðar en hér á Íslandi. Á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar  hefur nýlega verið gefið út fræðsluhefti sem ber yfirskriftina: „Kokteiláhrif efna – raunverulegt áhyggjuefni,“ eða „Chemical cocktails – a serious matter of concern.“

Á hverjum deginn verður maðurinn og umhverfið fyrir áhrifum frá alls kyns efnasamböndum sem verða samtímis á vegi hans og koma úr ólíkum áttum. Vísbendingar eru um að hættan sem stafar af slíkum efnum sé vanmetin þegar ekki er tekið tillit til samverkandi áhrifa þeirra eða svokallaðra kokteiláhrifa.

Venjulega er hætta slíkra efna metin út frá hverju efni fyrir sig og reglur um notkun þeirra taka mið af þeirri áhættugreiningu, en svokölluð kokteiláhrif eru ekki rannsökuð þannig að ekki er ljóst hver hættan er þegar menn og umhverfi verða fyrir áhrifum frá mörgum efnum á sama tíma.

Í norræna fræðsluheftinu er sjónum beint að þessu vandamáli og lagðar eru fram tillögur um hvernig Evrópusambandið gæti mótað reglur er lúta að þessu. Niðurstöðurnar eru byggðar á vinnu sem Norræna ráðherranefndin stóð fyrir haustið 2010.

Fjöldi ólíkra tilbúinna efna er svo mikill að nánast er ómögulegt að prófa og meta allar samsetningar þeirra efna sem raunveruleg hætta er á að einstaklingar geti komist í snertingu við. Er því lagt til að reglugerðir er varða t.d. snyrtivörur, leikföng og iðnaðarefni, kveði á um að leyfilegur hámarksskammtur tilbúinna efna í vöru verði eingöngu brot, t.d. 10%, af því sem talið er vera öruggt.  

Í stuttu máli er lagt til í norræna heftinu að aðildarríki Evrópusambandsins reyni að stýra blöndun ólíkra efna með því að beita núgildandi löggjöf eftir því sem við verður komið. Til lengri tíma litið er talið nauðsynlegt að taka á kokteiláhrifum efna þvert á laga- og reglugerðarramma Evrópusambandsins.

Chemical cocktails – a serious matter of concern.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum