Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. febrúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp ráðherra á opnu húsi hjá Gigtarmiðstöð Gigtarfélags Íslands

 

Ávarpsorð Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Opið hús hjá Gigtarmiðstöð Gigtarfélags Íslands, 18. febrúar 2012


Gott fólk.

Það er ánægjulegt að vera boðið hingað á opið hús hjá Gigtarmiðstöð Gigtarfélags Íslands. Starfsemi Gigtarfélagsins er afar mikilvæg, ekki aðeins vegna þjónustunnar sem hér er veitt, heldur einnig þáttur félagsins í því að fræða fólk um gigtarsjúkdóma, veita upplýsingar og stuðning þeim sem á þurfa að halda og síðast en ekki síst að stuðla að sýnileika sjúkdómsins og aðstæðum þeirra sem bera byrðar vegna hans.

Gigt er ekki einn sjúkdómur heldur samheiti yfir hátt á annað hundrað sjúkdóma í bandvef og stoðkerfiskvilla sem geta valdið miklum sársauka og fötlun. Gigtsjúkdómar eru algengari en flesta grunar og geta haft mikil og neikvæð áhrif á lífsgæði fólks. Mér skilst til dæmis að félagsmenn í Gigtarfélagi Íslands séu um 5.300 og um 40% þeirra séu öryrkjar með 75% örorkumat. Þetta er þó aðeins lítill hluti þeirra sem eru með gigt, því áætlað er að um 60.000 manns hér á landi séu með gigtsjúkdóm af einhverju tagi og um 20% fólks með örorku eru það vegna gigtar.

Það er ekki laust við að gigtarsjúklingar hafi mætt og mæti jafnvel enn fordómum í samfélaginu. Birtingarmyndir gigtsjúkdóma eru mismunandi en verkir, þreyta, stirðleiki og lélegt úthald eru vel þekkt einkenni sem ekki njóta alltaf skilnings hjá þeim sem um þau heyra, einfaldlega vegna vanþekkingar á gigtsjúkdómum.

Ég held að Emil Thóroddssen, framkvæmdastjóri Gigtarfélagsins, hafi einhvern tíma komist svo að orði að gigtarsjúkdómar væru ekki rauðuljósa-sjúkdómar og nytu því ekki þeirrar athygli sem nauðsynleg er miðað við umfang og alvarleika. Það er eflaust mikið til í þessu en ég held þó að þetta standi til bóta.

Á liðnum áratugum hafa orðið miklar framfarir í meðferð gigtsjúkdóma, einkum með tilkomu nýrra lyfja og þá helst svokallaðra líftæknilyfja sem hafa skipt sköpum fyrir veikustu sjúklingana. Þetta hefur gert það að verkum að margir geta nú sinnt vinnu og notið lífsins sem áður hefðu alls ekki átt þess kost.

Hjá Gigtarfélagi Íslands hefur með tímanum orðið til sérhæfing sem er mikilvæg til að mæta þörfum fólks með gigt, þar sem áhersla er lögð á þverfaglegt samstarf fagstétta og náið samráð og samvinnu við sjúklinginn sjálfan varðandi meðferðina og skipulag hennar.

Góðir gestir.

Almannaheillasamtök, samtök notenda þjónustu, samtök þeirra sem vilja hafa áhrif á, leiðbeina, hvetja, gagnrýna og gæta hagsmuna félagsmanna sinna eru mikilvæg stoð í samfélaginu. Gigtarfélagið er hluti af þessari stoð.

Fræðslustarf Gigtarfélagsins og þjónusta þess við félaga sína er ómetanlegt og fyrir það vil ég þakka.

Það er sannarlega gott og nauðsynlegt framtak sem Gigtarfélagið sýnir með því að opna dyr Gigtarmiðstöðvarinnar fyrir gestum og gangandi og gefa okkur tækifæri til að hlusta á fróðlega fyrirlestra og fá kynningu á ýmsum þjónustufyrirtækjum, starfsséttum og aðilum sem liðsinna fólki með gigtarsjúkdóma.

Megið þið njóta dagsins og hafa af honum gagn og ánægju.

Ég hlakka til þess að vera með ykkur í dag og fá tækifæri til að kynna mér betur starf ykkar ágæta félags.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum