Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. febrúar 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu um norræna umhverfismerkið Svaninn

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ráðstefnu Umhverfisstofnunar um Svaninn, norræna umhverfismerkið, sem haldin var á Grand Hóteli 23. febrúar 2012. 

 

Ágætu ráðstefnugestir,

Það er mér sérstök ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á þessari ráðstefnu um Svaninn - hið vel þekkta norræna umhverfismerki.

Svanurinn er oft nefndur sem gott dæmi um afrakstur norrænnar samvinnu. Nú eru rúm 20 ár síðan Norræna ráðherranefndin ákvað að byggja upp norrænt umhverfismerki og hefur það verið innleitt í öllum norrænu ríkjunum fimm.

Markmið Svansins eru skýr – að efla sjálfbæra neyslu og framleiðslu. Þessu markmiði er náð með því að útbúa handhægar leiðbeiningar fyrir framleiðendur vöru og þjónustu, sem þá geta merkt sig Svaninum sem neytendur geta treyst. Á þann hátt er hægt að setja viðmið og þróa í átt að sjálfbærari neyslu og framleiðslu.

Ekki er hægt að segja annað en að vel hafi tekist til. Norræni Svanurinn er nú talinn eitt öflugasta og best þekkta umhverfismerki heims og eru bæði neytendur og framleiðendur vöru og þjónustu á Norðurlöndum vel upplýstir um merkið og hvað það stendur fyrir.

Það er sérstaklega ánægjulegt hvernig Svansstarfið hefur verið að eflast hér á landi, en um það vitnar best mikil fjölgun útgefinna leyfa að undanförnu. Eins er ánægjulegt að fylgjast með hvernig íslenskt atvinnulíf heldur Svansvottuninni á lofti í sinni kynningu og markaðssetningu. Hafa umhverfisyfirvöld lagt ríka áherslu á að efla uppbyggingu Svansins hér á landi og hefur það virkilega skilað árangri. Greinilegt er að meðvitund neytenda og atvinnulífs um sjálfbæra neyslu og framleiðslu er að styrkjast, og því mikilvægt að stjórnvöld styðji og efli þann áhuga með traustum stoðum undir Svansstarfinu, í takt við það sem hin norrænu ríkin gera.

Umhverfisstofnun fer með rekstur Svansins fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Góðan árangur Svansins undanfarin ár má örugglega þakka auknu samstarfi stofnunarinnar og atvinnulífsins og verður áhugavert að heyra af umræðum ykkar hér í dag um hvernig það samstarf er - og ekki síður hvernig það getur þróast til að efla merkið enn frekar. Mikilvægt er að halda því til haga að Svanurinn er opinbert umhverfismerki og því algerlega nauðsynlegt fyrir umhverfisyfirvöld að fá viðbrögð frá ykkur, bæði leyfishöfum og öðrum, um hvernig samstarfi okkar skuli háttað með það sameiginlega markmið að efla Svaninn.

Ég vil hér ítreka ríkan vilja umhverfisyfirvalda til að vinna að því að efla Svaninn eins og kostur er. Við viljum sjá áframhaldandi fjölgun íslenskra fyrirtækja sem innleiða Svaninn; að þau fyrirtæki sem hafa innleitt hann haldi áfram að vísa til hans með stolti, samhliða því að auka þekkingu og vilja íslenskra neytenda á því að velja Svansmerkta vöru og þjónustu.

Ísland hefur jafnframt beitt sér að undanförnu við að efla Svaninn á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Umhverfisráðuneytið hefur leitt vinnu við norræna stefnumótun fyrir Svaninn til ársins 2015, en þá stefnumótun samþykktu norrænu umhverfisráðherrarnir formlega í Reykjavík í nóvember 2010. Þar eru metnaðarfull áform um áframhaldandi styrkingu Svansins, bæði innra starf og viðfangsefni, svo og um að auka norrænar fjárveitingar. Við höfum jafnframt leitt vinnu við að framkvæma þessarar nýju stefnumótun, og er unnið að fjölmörgum verkefnum til að styrkja Svansmerkið. Má til dæmis nefna verkefni um samspil Svansins og Vistvænna innkaupa hins opinbera sem eru mikilvægur þáttur.

Góðir gestir,

Svanurinn er á góðu flugi um þessar mundir, bæði hér heima og eins á öðrum Norðurlöndum og mikil samstaða er um að efla sameiginlegan rekstur hans á Norðurlöndunum.

Það er hins vegar þannig, að svo flýgur hver fugl sem hann er fiðraður – Svanir sem og aðrir fuglar!

Til að tryggja áframhaldandi flug Svansins er mikilvægt að gott samstarf sé milli allra þeirra aðila sem koma að rekstri og innleiðingu Svansmerkisins.

Þessi ráðstefna hér í dag er mikilvægt stefnumót umhverfisyfirvalda, Svansleyfishafa, umsækjenda og annarra sem áhuga hafa til að treysta slíkt samstarf með eflingu Svansins að leiðarljósi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum