Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. febrúar 2012 Forsætisráðuneytið

Fundur forsætisráðherra með fulltrúum landshlutasamtaka um sóknaráætlanir

Stýrinet ráðuneyta - Landshlutasamtök - Sveitarfélög
Stýrinet ráðuneyta - Landshlutasamtök - Sveitarfélög

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, átti í dag fund með forsvarsmönnum landshlutasamtaka sveitarfélaga ásamt embættismönnum frá öllum ráðuneytum.  Alls sóttu um 40 manns fundinn sem haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu. Efni fundarins var sóknaráætlanir landshluta, en þær eru eitt verkefnanna innan Ísland 2020.

Vinna við verkefnið hófst í byrjun árs 2011 og var samskiptum Stjórnarráðsins og átta landshlutasamtaka sveitarfélaga komið í þann farveg sem sýndur er á meðfylgjandi skýringarmynd. Ný útfærsla á samskiptunum var samþykkt í ráðherranefnd um ríkisfjármál 21. febrúar sl.  Hún felur í sér að verkefnið verður grundvallað á þremur stoðum. Fyrsta stoðin felst í því að sameina undir einu þaki samninga og styrki (svo sem menningar- og vaxtarsamninga) sem renna frá ríki til sveitarfélaga í gegnum landshlutasamtök.  Ætlunin er að gefa landshlutasamtökunum aukið vald  yfir þeim fjármunum og flytja umsýsluna til þeirra.

Önnur stoðin felst í sóknaráætlunum sem fulltrúar mismunandi landshluta vinna. Þær endurspegla forgangsröðun á hverjum stað og áherslur í byggðamálum sem fjárlagagerðin getur tekið mið af.

Þriðja stoðin snýr að umbótum í opinberri stjórnsýslu og samskiptum þessara tveggja stjórnsýslustiga.

Markmiðið með sóknaráætlunum landshluta er að stuðla að umbótum í úthlutun almannafjár, framförum í samskiptum stjórnsýslustiga og nýsköpun í opinberri stjórnsýslu. Leiðin að þessum markmiðum er að endurskipuleggja fjárframlög ríkissjóðs til landshluta og um leið að einfalda úthlutun þeirra. Jóhanna Sigurðardóttir sagði meðal annars í upphafi fundarins að hún teldi afar mikilvægt að öll ráðuneytin kæmu fram sem einn aðili í þessari vinnu.

Þegar hefur 11 verkefnum verið hleypt af stokkunum. Flest eru þau til fjögurra ára og er framlag ríkissjóðs áætlað alls um 460 milljónir króna.

Jóhanna sagðist sjá fyrir tvo kosti. Annars vegar að koma  á fót sjóði sem úthluta mætti úr 1. janúar 2013, en þar yrðu sameinaðir fjármunir sem nú renna til sveitarfélaga í formi samninga um ýmis verkefni.  Hins vegar að úthlutun úr sjóðnum hæfist ekki fyrr en 1. janúar 2014, en unnið yrði frekar úr fyrirliggjandi verkefnum og tekið við nýjum frá landshlutunum fram að þeim tíma.

Margir fulltrúar landshlutasamtakanna lýstu ánægju sinni með nýbreytni í samskiptum ríkisins og landshlutanna og aukinni áherslu á lýðræðisleg og markviss vinnubrögð.  „Ég fagna veru forsætisráðherra á fundinum. Það undirstrikar að ætlun stjórnvalda er að fylgja verkefninu eftir, taka upp ný vinnubrögð og auka lýðræði og valddreifingu,“ segir Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, en hann sat fundinn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum