Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. febrúar 2012 Innviðaráðuneytið

Aðalfundur ICEPRO 22. febrúar. Reykjavíkurborg vann EDI-bikarinn!

ICEPRO
ICEPRO

Aðalfundur ICEPRO fór fram á öskudag, miðvikudaginn 22. febrúar 2012. Sólarglæta eftir hádegið setti svip á fundinn, eftir hellirigningu og haglél um morguninn. Sannkallað góuveður.

49 manns mættu á fundinn og er það talsvert meiri fjöldi en undanfarin ár. Eftir ljúffengan fiskrétt setti Hjörtur Þorgilsson, formaður ICEPRO fundinn og bauð hópinn velkominn.

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, ávarpaði fundinn. Hann minnti á að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefði forgöngu um vissa þætti rafrænna viðskipta, svo sem lög og reglur og evrópskt samstarf á þessu sviði. Ráðherra sagði rafræn viðskipti vera stórt alþjóðlegt viðfangsefni og að allir væru þátttakendur í hnattvæddum heimi. Rafrænar lausnir bjóða upp á möguleika til hagræðingar, auðvelda samskipti yfir landamæri og ávinningurin er ótvíræður, sagði ráðherra.

Þá var komið að afhendingu EDI-bikarsins. Reykjavíkurborg varð fyrir valinu í þetta sinn. Steingrímur sagði að borgin hafi verið í fremstu röð á liðnum árum og náð miklum árangri í þjónustu við íbúa. Borgin hafi tekið “græn skref” í rafrænum viðskiptum, sem hefðu leitt til lækkunar kostnaðar og minni notkunar á pappír.

Jón Gnarr, borgarstjóri, tók við EDI bikarnum og viðurkenningarskjali úr hendi ráðherra. Eftir þétt handtak og fjölda ljósmyndablossa steig borgarstjóri í pontu og þakkaði fyrir sig og sitt fólk.

Sjá frétt: http://reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-757/521_read-30410/

Jóni fannst yndislegt að sjá sólina koma upp og sagði að nú væru tveir dimmustu mánuðirnir að baki. Hann ítrekaði þakklæti fyrir þessa viðurkenningu, sem hann sagði vera mikinn heiður fyrir borgina. Borgarstjóri sagði þrjár skrifsofur hafa unnið að því að innleiða rafræn viðskipti borgarinnar og að sparnaðurinn hlypi á tugum milljóna. Jón klykkti út með því að segja að hann flytti allar sínar ræður rafrænt, engin þeirra væri útprentuð, og veifaði í lokin spjaldtölvu sinni.

Stefán Kjærnested, varafjársýslustjóri, flutti ræðuna “ríkið og rafrænir reikningar”. Ræðunnar hafði verið beðið með eftirvæntingu, vegna dagsetninga um innleiðingu rafrænna reikninga, sem Fjársýslan ætlaði að varpa fram. Stefán rifjaði upp langan aðdraganda að innleiðingu fjárhags- og mannauðskerfi fyrir ríkið, en útboð fór fram árið 2001. Hann minnti á að Danir hefðu tekið upp rafræna reikninga árið 2005 og að hin Norðurlöndin væru komin með alla reikninga á rafrænt form. Auk þess vinna flest lönd í ESB kappsamlega að innleiðingu rafrænna innkaupa.

Fyrstu tilraunir Fjársýslunnar fólust í að varpa rafrænum reikningum á milli mismunandi staðla. Það hefði ekki gefið góða raun og því var mörkuð óformleg stefna um að byggja rafræn viðskipti á s.k. NES stöðlum. Í því fælist vinna með ICEPRO og FUT sem stuðlaði um leið að útbreiðslu rafrænna staðla á Íslandi. Stefán minnti á að nú væru fjórar skeytamiðstöðvar á Íslandi og að ríkið tengdist þeim öllum.

Fjársýslan fór fyrst “mjúku leiðina” sem fólst í því að birgjar sæju sér hag í að taka upp rafræna reikninga. Af því varð mjög takmarkaður árangur. Því væri varpað fram markmiðstillögum, í bandalagi við  Reykjavíkurborg og í samvinnu við sem flesta hagsmunaaðila. Tillögurnar eru þessar:

1. janúar 2013 geti allar ríkisstofnanir tekið á móti rafrænum reikningum

1. janúar 2013 geti allar stofnanir sem nota ORRA sent rafræna reikinga

1. janúar 2014 taki stofnanir ríkisins ekki á móti öðru en rafrænum reikningum

Stefán fjallaði um tæknina að baki þessu átaki. Ríkið móttekur og sendir rafræna reikninga samkvæmt tækniforskriftum gefnum út af Staðlaráði Íslands. TS-135 var gefin út 2009 og byggir á NES 2.0. TS-136 kemur út í mars 2012 og byggir á CEN/BII (evrópsku staðlasamtökunum). PEPPOL byggir á CEN/BII og við útgáfu á TS-135 var gætt samræmis við CEN/BII. Að lokum benti Stefán á mikilvægi UNSPSC flokkunarstaðalsins og þess að þróa bókunarvélar, sem auðvelda sjálfvirka bókun.

Glærur Stefáns.

Ræðu Stefáns eru gerð góð skil í Morgunblaðinu, föstudaginn 24. febrúar á bls. 14.

Hrannar Erlingsson, framkvæmdastjóri Maritech,  benti á aukna hagkvæmni fyrir bæði sendendur og móttakendur rafrænna reikninga. Til þess þarf viðskiptakerfi sem geta sent, móttekið og meðhöndlað rafræna reikninga, samstilltar skeytamiðlanir og loks staðla, sem verða að vera tilbúnir tímanlega. Hrannar minnti á að enn væri tiltölulega lítill hluti reikninga rafrænn og að menn gerðu sér of oft óraunhæfar væntingar.

Hrannar nefndi fimm virkar skeytamiðlanir hérlendis, sem miðla ekki reikningum sín á milli. Því mætti líkja við að það væru margir póstkassar á hverju húsi! Hrannar vildi setja aukinn kraft í gerð íslenskra tækniforskrifta og minnti á að enn vantar tækniforskrift fyrir rafrænar pantanir, kreditnótur og fleiri rafræn skeyti. Glærur Hrannars.

Að ræðum loknum var varpað fram fjölmörgum spurningum um dagsetningar, staðla, UNSPSC, vöruflokkunarkerfi og rafræn innkaup. Hjörtur formaður þakkaði fyrir líflegar umræður sem sýndu vaxandi áhuga manna á rafrænum reikningum.

Síðan tóku við hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt dagskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum