Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. febrúar 2012 Dómsmálaráðuneytið

Allsherjarnefnd fundar um skipulagða glæpastarfsemi með ráðherra og lögreglu

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og fulltrúar lögreglunnar funda með allsherjarnefnd Alþingis um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi í fyrramálið.

Vísbendingar eru um að alvarleg skipulögð glæpastarfsemi sé að færast í vöxt hérlendis og að alþjóðlegir glæpahringir séu að skjóta hér rótum. Í mars á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin sérstaka fjárveitingu vegna tólf mánaða átaksverkefnis lögreglu til þess að vinna með markvissum hætti gegn skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi. Sérstöku rannsóknarteymi ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum um starfsemi mótorhjólagengja hér á landi var þegar í stað komið á laggirnar en auk þessara embætta hefur embætti tollstjóra komið að verkefninu. Fyrir hendi er öflugt samstarf og samvinna lögreglu og annarra stofnana, innanlands sem erlendis, í þessum efnum, einkum við löggæsluyfirvöld á Norðurlöndum og hjá Europol.

Á fundinum verður farið yfir mat rannsóknarteymisins á stöðu skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi og árangur af starfi rannsóknarteymisins. Þá verður rætt um aðgerðir á breiðum grundvelli á næstu misserum til þess að stemma stigu við skipulagðri brotastarfsemi og fyrirsjáanlega þróun í þessum málum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira