Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. febrúar 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Seljahjallagil, Bláhvammur og Þrengslaborgir friðlýstar

Seljahjallagil.
Seljahjallagil.

Svandís Svavarsdóttir umvherfisráðherra undirritaði í gær friðlýsingu Seljahjallagils, Bláhvamms, Þrengslaborga og nágrennis í Skútustaðahreppi sem náttúruvætti. Um er að ræða svæði í landi jarðarinnar Grænavatns sem er 1889,7 hektarar að stærð.

Svæðið er friðlýst að undirlagi heimamanna en Hjörleifur Sigurðarson, bóndi á Grænavatni, hefur lengi verið talsmaður friðlýsingarinnar og tók virkan þátt í undirbúningnum ásamt fulltrúum Umhverfisstofnunar.

Á svæðinu eru merkar minjar frá jarðeldunum sem skópu Mývatn og umgjörð þess og eru þar dæmi um ýmsa jarðfræðilega ferla landmyndunar og -mótunar af völdum eldgosa og rofmátta. Seljahjallagil, sem skerst inn í Blágjallsfjallgarð, er víða um 100-150 metra djúpt og um 500  metrar á breidd. Þykir gilið um margt merkilegt, ekki síst fyrir stórbrotnar stuðlabergsmyndanir sem þar eru að finna. Framan til breikkar gilið í hringlaga kvos en í henni miðri er stór eldborg sem hraun hefur runnið úr niður gilið. Er eldborgin í beinu framhaldi af Þrengslaborgum.

Bláhvammur er sérkennileg klettahvilft og er hvammurinn gróðurríkur, vaxinn birkiskógi eða -kjarri og blómgróðri. Talið er að jökulvatn hafi grafið hvilftina út í móbergið en þar er greinilegt gamalt fossstæði.

Undirritun friðlýsingar Seljahjallagils.Seljahjallagil og nágrenni er tiltölulega óspjallað svæði og er markmiðið með friðlýsingunni m.a. að vernda það í núverandi ástandi um leið og aðgengi ferðamanna að því verði bætt.

Sagði umhverfisráðherra við undirritunina það sérstakt ánægjuefni að áhugi á friðlýsingum virðist breiðast út en friðlýsingin í gær var sú þriðja í Skútustaðahreppi á innan við ári. Hinar fyrri voru Dimmuborgir og Hverfell sem friðlýst voru í júní í fyrra. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum