Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. mars 2012 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Starfshópur um neytendamál ræðir við ýmsa hagsmunaaðila

Starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins um neytendamál tók til starfa fyrir nokkru og hélt hann í dag sjötta fund sinn. Hlutverk hópsins er að fara yfir skipan neytendamála, hlutverk ráðuneyta, stofnana og samtaka almennings, opinbert eftirlit og verkaskiptingu þess.

Markmið vinnunnar er að stuðla að hagkvæmu, skilvirku og öflugu neytendastarfi þar sem verkaskipting stofnana og samtaka sem starfa að neytendavernd er skýr.

Í starfshópnum sitja Steinunn Valdís Óskarsdóttir, frá innanríkisráðuneytinu sem jafnframt er formaður, Björn Freyr Björnsson, lögfræðingur í innanríkisráðuneyti, Bergþóra H. Skúladóttir frá umhverfisráðuneytinu og Valgerður Rún Benediktsdóttir frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

Starfshópurinn hefur á síðustu sex fundum sínum hitt ýmsa hagsmunaaðila, svo sem forstjóra Neytendastofu, talsmann neytenda, fulltrúa Neytendasamtakanna, Ásu Ólafsdóttir lektor við H.Í. sem vann skýrslu um neytendavernd á Íslandi, forstjóra Samkeppniseftirlitsins og nú í dag Rúnar Guðmundsson, framkvæmdastjóra hjá Fjármálaeftirlitinu. Starfshópurinn mun á næstunni hitta fleiri hagsmunaaðila en stefnt er að því að kortlagning og tillögur hópsins liggi fyrir í sumar eða haust.

Starfshópurinn var skipaður í lok síðasta árs þegar innanríkisráðuneytið óskaði eftir tilnefningum frá umhverfisráðuneytinu og efnahags og viðskiptaráðuneytinu í starfshóp til að fara yfir og gera tillögur um skipulag neytendamála. Neytendamál voru flutt frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu seinni hluta árs 2009 að meðtaldri stjórnsýslustofnun málaflokksins, Neytendastofu. Málaflokkurinn snertir málefnasvið annarra ráðuneyta einkum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins auk þess sem ýmsar úrskurðarnefndir í stjórnsýslunni eru vistaðar hér og þar í stjórnsýslunni.

Starfshópur innanríkisráðuneytisins um neytendamál fundaði í dag.

Á myndinni eru frá hægri Valgerður Rún Benediktsdóttir, Bergþóra H. Skúladóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Björn Freyr Björnsson og Rúnar Guðmundsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum