Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. mars 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Kallað eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar

Stjörnuskoðun í Þjórsárskóla
Stjörnuskoðun í Þjórsárskóla

Enn er hægt að skila inn verkefnum í samkeppnina Varðliða umhverfisins sem umhverfisráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykjavíkur standa fyrir meðal grunnskólabarna í 5. til 10. bekk. Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.

Þetta er í sjötta sinn sem efnt er til keppninnar. Verkefnin mega vera af fjölbreyttum toga, t.d. ritgerðir, ljósmyndir, ljóð, veggspjöld, bæklingar, myndbönd og hljóðverk. Í stuttu máli er frjálst að skila inn verkefnum í hvaða formi sem er svo lengi sem þau eru sannarlega unnin af nemendunum sjálfum og umfjöllunarefni þeirra eru umhverfismál í víðum skilningi þess orðs.

Þátttakendur geta í verkefnum sínum fjallað um umhverfismál í sínu nánasta umhverfi, á landsvísu eða heimsvísu. Umfjöllunarefnið getur t.d. verið loftslagsbreytingar, röskun eða verndun búsvæða, jarðvegseyðing, endurheimt vistkerfa, verndun náttúruauðlinda, endurvinnsla og endurnýting úrgangs.

Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, útnefnir Varðliða umhverfisins við hátíðlega athöfn á degi umhverfisins, 25. apríl næstkomandi en auk þess fá varðliðarnir glaðning í formi upplifunar af einhverju tagi í samráði við skóla þeirra.   

Í fyrra voru nemendur í umhverfisnefnd Þjórsárskóla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi útnefndir Varðliðar umhverfisins fyrir útgáfu ruslabæklings fyrir börn á öllum aldri. Auk verðlaunaskjals fengu nemendur við skólann heimsókn stjörnufræðings sem kynnti fyrir þeim undur himingeimsins.

Skilafrestur verkefna er til 29. mars 2012 og þau skal senda umhverfisráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík, merkt ,,Varðliðar umhverfisins”. Dómnefnd skipuð fulltrúum umhverfisráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur velur úr innsendum verkefnum og tilnefnir Varðliða umhverfisins. Allir þátttakendur í verkefninu fá viðurkenningarskjal.

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum