Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. apríl 2012 Forsætisráðuneytið

A-413/2012. Úrskurður frá 29. mars 2012

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 29. mars 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-413/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Með tölvupósti, dags. 7. janúar 2012, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun Bankasýslu ríkisins, dags. 5. desember 2011, á beiðni hans frá 3. sama mánaðar, um lista yfir nöfn, heimilisföng og starfsheiti allra umsækjenda um stöðu forstjóra Bankasýslunnar sem auglýst var 11. nóvember 2011, þar sem einnig komi fram upplýsingar um þá sem drógu umsókn sína til baka eftir að umsóknarfresti lauk. Kærandi óskar einnig eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurði um hvort Bankasýslu ríkisins hafi borið að birta lista yfir umsækjendur strax að umsóknarfresti loknum og hvort henni hafi verið heimilt að neita Ríkisútvarpinu um aðgang að listanum þegar um hann var beðið.

 

Atvik málsins eru í stuttu máli þau að starf forstjóra Bankasýslu ríkisins var auglýst til umsóknar 11. nóvember 2011. Umsækjendur um starfið munu hafa verið 17, en fjórir þeirra dregið umsóknir sínar til baka, áður en nafnalisti umsækjenda var birtur hinn 5. desember 2011. Kærandi óskaði eftir því í tölvupósti dags. 3. desember 2011 að fá afhentan lista yfir umsækjendur. Honum var látinn í té umbeðinn listi þann 5. desember, sama dag og hann var birtur opinberlega, en á honum voru ekki nöfn þeirra fjögurra sem dregið höfðu umsóknir sínar til baka.

 

Málsmeðferð

Bankasýslu ríkisins var kynnt framkomin kæra með bréfi, dags. 13. janúar 2012. Athugasemdir bankasýslunnar bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 1. febrúar. Ekki fylgdu listar yfir umsækjendur um starf forstjóra eða afrit gagna um afturkallanir umsókna um framangreint starf eða dagsetningar þeirra afturkallana.

 

Í bréfi Bankasýslunnar kemur fram að synjun á því að afhenda einnig upplýsingar um nöfn þeirra umsækjenda sem drógu umsóknir sínar til baka sé byggð á 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Segir svo orðrétt í bréfinu: „Á því er byggt í málinu, að til að geta talist „umsækjandi“ í skilningi tilvitnaðs ákvæðis sé ófrávíkjanlegt skilyrði að starfsumsókn viðkomandi hljóti efnislega umfjöllun og afgreiðslu af hálfu þess stjórnvalds eða stofnunar sem um ræðir. Að öðrum kosti kemur umsóknin aldrei til skoðunar við mat á hæfi umsækjenda til að gegna ákveðnu starfi. Í ákvörðun um að draga starfsumsókn til baka felst yfirlýsing umsækjanda um að hann sækist ekki eftir að fá starfið. Að sama skapi er það skýlaus réttur umsækjanda sem dregið hefur umsókn sína til baka, að vera eins settur og hann hefði aldrei sótt um viðkomandi starf. Telur kærði hafið yfir allan vafa að umsækjandi sem dregur umsókn sína um starf til baka eigi ekki að þurfa að þola að nafn hans sé á nokkurn hátt tengt við ráðningu í starfið ellegar nefnt í því sambandi, allra síst á opinberum vettvangi.“

 

Síðar í sama bréfi segir svo: „Samkvæmt 3. gr. laga nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins, ræðu stjórn stofnunarinnar forstjóra. Skal hann uppfylla hæfisskilyrði sem fram koma í 6. gr. laganna. Um ráðningu eða ráðningarferlið er ekki fjallað í lögunum. Af því leiðir að kærði ákveður sjálfur skipan mála í því sambandi. Eftir að auglýstur umsóknarfrestur er liðinn ákvað kærði að veita öllum umsækjendum með engri undantekningu stuttan viðbótarfrest til þess að draga umsóknir sínar til baka. Í ákvörðun kærða fólst, að umsækjendum var veittur stuttur frestur til að taka afstöðu til umsókna sinna, þá þannig að öll lögbundin skilyrði, þ.m.t. um nafnleynd, væru uppfyllt. Vert er að hafa í huga í því sambandi, að í auglýsingu um starfið var þess ekki sérstaklega getið, að Bankasýslunni bæri lögum samkvæmt að upplýsa um nöfn og stöður umsækjenda að umsóknarfresti liðnum. Þeir fjórir einstaklingar sem um ræðir drógu allir umsóknir sínar til baka innan þess viðbótarfrests sem veittur var til að gera slíkt. Þegar fresti lauk voru þar af leiðandi þrettán umsóknir um starfið sem sérstök hæfnisnefnd fjallaði um. Þar sem umsóknir þeirra fjögurra einstaklinga sem drógu umsóknir sínar til baka voru ekki hluti af ráðningarferlinu falla þeir ekki undir hugtakið „umsækjandi“ í skilningi upplýsingalaga.“

 

Varðandi síðari kærulið kæranda krefst kærði frávísunar frá úrskurðarnefndinni. Er það rökstutt með þeim hætti að samkvæmt II. og III. kafla upplýsingalaga sé stjórnvöldum skylt að veita almenningi og aðila sjálfum aðgang að gögnum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi Ríkisútvarpið óskað eftir upplýsingum um nöfn þeirra umsækjenda sem sóttu um starf forstjóra Bankasýslu ríkisins. Hafi kærði orðið við þeirri beiðni og afhent lista yfir þá umsækjendur sem sóttu um starfið. Afhending upplýsinganna hafi átt sér stað á grundvelli upplýsingalaga og Ríkisútvarpið ekki gert athugasemd við þá ráðstöfun. Í því máli sem hér um ræði hafi verið fallist á beiðni Ríkisútvarpsins um aðgang að upplýsingum og samkvæmt gagnályktun frá 14. gr. upplýsingalaga sæti sú ákvörðun ekki kæru til nefndarinnar. Beri því að vísa kæruliðnum frá.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 2. febrúar, var kæranda gefinn frestur til 10. febrúar koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar, í ljósi umsagnarinnar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Niðurstaða

1.

Kæra málsins beinist að synjun Bankasýslu ríkisins um að afhenda kæranda lista yfir öll nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda um stöðu forstjóra Bankasýslu ríkisins sem auglýst var laus til umsóknar þann 11. nóvember 2011, einnig lista yfir þá sem drógu umsóknir sínar til baka áður en listi yfir umsækjendur var birtur þann 5. desember 2011. Kærandi hefur þegar fengið afhentan þann lista sem þá var birtur.

 

Í 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. laganna. Í 4. tölul. 4. gr. segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki hvorki til umsókna um störf hjá ríki eða sveitarfélögum né þeirra gagna sem þær varða. Þó er skylt, eins og segir í ákvæðinu, að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.

 

Af þessu leiðir að stjórnvöldum er skylt að veita almenningi aðgang að upplýsingum um umsækjendur um opinber störf þegar þeirra er óskað, enda sé umsóknarfrestur liðinn. Stjórnvaldi ber að verða við slíkri ósk eins fljótt og unnt er, sbr. 11. gr. upplýsingalaganna. Í því máli sem hér er til afgreiðslu var beiðni um aðgang að upplýsingum lögð fram 3. desember. Hún var afgreidd þann 5. sama mánaðar. Verður ekki annað séð en að málshraðareglu 11. gr. upplýsingalaga hafi verið fullnægt. Þá stendur eftir sú spurning hvort kærða, Bankasýslu ríkisins, hafi borið að útbúa umbeðinn lista yfir umsækjendur þannig að tilgreindir væru allir sem lögðu fram umsókn og ekki drógu hana til baka fyrir lok umsóknarfrests eða aðeins þeir sem ekki höfðu dregið umsóknir sínar til baka á þeim tíma er listi yfir umsækjendur var gerður og birtur þann 5. desember.

 

Þegar einstaklingur sem sótt hefur um opinbert starf dregur umsókn sína til baka verður almennt að líta svo á að hann sé ekki lengur umsækjandi um starfið. Ekkert bendir til þess að annan skilning beri að leggja í orðið umsækjandi í síðari málslið 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Eins og fyrr segir verður skyldan til að afhenda upplýsingar samkvæmt því ákvæði aðeins virk þegar eftir þeim er leitað.

 

Með vísan til atvika þessa máls verður ekki talið að kærandi hafi samkvæmt 4. tölul. 4. gr. átt rétt á að fá lista yfir aðra en þá sem voru umsækjendur um starf forstjóra Bankasýslunnar á þeim tíma er listinn var gerður, 5. desember 2011.

 

2.

Kærandi óskar einnig eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurði um hvort Bankasýslu ríkisins hafi borið að birta lista yfir umsækjendur strax að umsóknarfresti loknum og hvort henni hafi verið heimilt að neita Ríkisútvarpinu um aðgang að listanum þegar um hann var beðið.

 

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum, eða afhenda af þeim ljósrit eða afrit, undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Vegna fyrri liðarins í þessu kæruefni málsins tekur úrskurðarnefndin fram að stjórnvaldi ber að afhenda gögn sem falla undir upplýsingalögin þegar þeirra er óskað, sbr. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Það atriði sem hér um ræðir er almenn spurning um túlkun upplýsingalaga og verður ekki beint sérstaklega til úrskurðarnefndarinnar. Kæru málsins ber að þessu leyti að vísa frá úrskurðarnefndinni. Vegna síðari liðarins í þessu kæruefni ber að taka fram að það er sá sem óskað hefur viðkomandi gagna og synjað hefur verið um þau sem rétt á að bera mál undir nefndina til úrskurðar. Kærandi máls þessa getur því ekki borið undir úrskurðarnefndina afgreiðslu Bankasýslu ríkisins á beiðni Ríkisútvarpsins um gögn. Ber að vísa kæru málsins frá að því leyti.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er synjun Bankasýslu ríkisins á að afhenda kæranda, [A], lista yfir nöfn, heimilisföng og starfsheiti allra sem sóttu um stöðu forstjóra Bankasýslunnar þar sem einnig komi fram upplýsingar um þá sem drógu umsókn sína til baka eftir að umsóknarfresti lauk. Kæru málsins er að öðru leyti vísað frá.

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum