Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. apríl 2012 Innviðaráðuneytið

Fagnað 25 ára afmæli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar

Liðin eru 25 ár í dag frá því Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli var vígð og var afmælinu fagnað í gær. Meðal gesta voru ýmsir fyrrverandi og núverandi forráðamenn stöðvarinnar og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sem flutti ávarp í hófinu.

Fagnað var 25 ára afmæli Flugstövar Leifs Eiríkssonar í gær.
Fagnað var 25 ára afmæli Flugstövar Leifs Eiríkssonar í gær.

Þórólfur Árnason, stjórnarformaður Isavia, sem annast rekstur Leifsstöðvar og flugvallarins, bauð gesti velkomna og rifjaði upp að stöðin hefði verið stækkuð tvívegis eftir að hún var tekin í notkun árið 1987 auk ýmissa umbóta sem unnið hefði verið að á þessum tíma. Hann sagði farþegafjöldann sem færi um stöðina núna stefna í það sem hann var metárið 2007 þegar hann var um 2,2 milljónir farþega. Sagði hann ennfremur að starfsmenn í Leifsstöð sinntu ekki aðeins því sem tengdist beint flugfarþegum og umsjón þeirra heldur og margs konar annarri þjónustu við farþega við brottför og komu til landsins.

Fagnað var 25 ára afmæli Flugstövar Leifs Eiríkssonar í gær.

Ögmundur Jónasson rifjaði upp að við vígslu stöðvarinnar hefi þáverandi forseti, Vigdís Finnbogadóttir, minnt á ljóð Snorra Hjartarsonar að hver vegur að heiman væri vegur heim. Einnig að Matthías Bjarnason, þáverandi samgönguráðherra, hefði lokið vígsluræðu sinni með kveðjunni ,,velkomin heim” sem gjarnan hljómaði fyrir flugfarþega sem lenda í Keflavík. Óskaði ráðherra forráðamönnum og starfsmönnum öllum til hamingju með daginn.

Í framhaldi af afmælishaldinu var því einnig fagnað að Keflavíkurflugvöllur hefði nýverið fengið viðurkenningu fyrir að veita besta þjónustu evrópskra flugvalla með farþegafjölda undir tveimur milljónum á ári. Var þetta niðurstaða könnunar alþjóðasamtaka flugvalla, Airports Council International. Öllum starfsmönnum í flugstöðinni var boðið til veislu um kvöldið og sóttu hana alls kringum 800 manns.

Fagnað var 25 ára afmæli Flugstövar Leifs Eiríkssonar í gær.

Meðal gesta í 25 ára afmælishófi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar voru, frá vinstri: Formenn bygginganefndar í aðdraganda og á byggingartímanum, sendiherrarnir Helgi Ágústsson og Sverrir Haukur Gunnlaugsson, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Þórólfur Árnason, stjórnarformaður Isavia.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum