Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. apríl 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Víðtækt samráð um þróun starfsmenntunar

Í vetur hefur verið haft víðtækt samráð við hagsmunaðila og haldnir hafa verið 18 fundir með u.þ.b. eitt þúsund þátttakendum undir heitinu Starfsmenntun - hvert skal stefna?

  • Haldnir hafa verið 18 fundir með um eitt þúsund þátttakendum um allt land undir heitinu "Starfsmenntun - hvert skal stefna"?
  • Ráðstefna um verkefnið verður haldin á Hotel Natura í Reykjavík mánudaginn 23. apríl nk.

Í vetur hefur verið haft víðtækt samráð við hagsmunaðila og haldnir hafa verið 18 fundir með u.þ.b. eitt þúsund þátttakendum undir heitinu Starfsmenntun - hvert skal stefna? Til fundanna var boðið fulltrúum framhaldsskóla og framhaldsfræðslu, starfsgreinaráðum, fulltrúum nemenda og fyrirtækja auk fulltrúa náms- og starfsráðgjafa. Fundaröðin er liður í ævinámsáætlun Evrópusambandsins og naut stuðnings þess.

Markmið fundanna var að ræða framtíðarsýn starfsnáms með tilliti til uppbyggingar þess,  hvernig gera megi starfsnám sýnilegra og eftirsóknarverðara fyrir nemendur óháð aldri og kyni. Þá var rætt hvernig megi efla samskipti og samráð hagsmunaaðila í ljósi breytinga á lögum.

Mánudaginn 23. apríl verður haldin ráðstefna á Hótel Natura í Reykjavík, sem markar lok verkefnisins. Á fyrri hluta hennar verður gerð grein fyrir þeim áherslum sem fram hafa komið á framangreindum fundum auk þess sem gerð verður grein fyrir öðrum verkefnum sem unnin hafa verið í vetur á þessu sviði.  Einnig verða stuttar kynningar á ýmsu sem vel er gert í skólum og atvinnulífinu og snertir starfsmenntun. Seinni hluti ráðstefnunnar verður helgaður hópastarfi þar sem hver hópur mun rýna í nokkrar af þeim áherslum sem ræddar hafa verið í vetur.

Á fundunum sl. vetur komu nokkur atriði ítrekað fram:  

  • Mikið var rætt um stuttar námsbrautir og að skipta náminu upp í þrep þannig að hverju þrepi ljúki formlega en alltaf sé kostur á að halda áfram. Í þessari umræðu kom fram að styttri námsbrautir hafa verið í boði í nokkrum fögum en að ekki hafi verið mikil aðsókn að þeim. Helsta ástæðan var talin vera sú að atvinnulífið metur að jafnaði ekki þetta stutta nám til launa. Kanna þarf hvort svona fyrirkomulag sé það sem nemendur kalla í raun og veru eftir.
  • Nokkur umræða var um sameiginlegt grunnnám, t.d. að fyrsta eða tvær fyrstu annirnar væru sameiginlegar fyrir allar tæknigreinar, list- og hönnunargreinar, heilbrigðis- félags og uppeldisgreinar o.s.frv. Þetta myndi t.d. auðvelda litlum skólum á landsbyggðinni að koma til móts við þarfir fleiri nemenda. Þetta er mjög umdeilt atriði en kom samt ítrekað fram í umræðu á fundunum.
  • Rætt var um mikilvægi þess að auka áherslu á verklega þáttinn í náminu og keyra hann samhliða því bóklega allan tímann og einnig að tengja bóklegar greinar betur viðkomandi faggrein. Nemendur vilja greinilega sjá beina tengingu bóknámsins við fagið, þeir vilja hafa þetta hagnýtt og sjá tilgang með bóklega náminu.
  • Skipulag vinnustaðanáms var einnig töluvert rætt, svo sem að huga þyrfti að menntunargildi þess og tilfærslu náms úr skóla á vinnustaði skv. skilgreinum gæðakröfum. Rætt var um aukið eftirlit, „utanumhald“, skýrari verkaskiptingu, menntun tilsjónaraðila og mikilvægi ferilbóka. Fram kom að flestir vilja að skóla- og vinnustaðanámið verði ein samfella og að ferilbókin nái yfir allt námið og að skýrt verði hvaða vægi hún hefur og hver á að fara yfir hana er kemur að námslokum.
  • Töluvert var rætt um aukinn sveigjanleika í námi, bæði að nemendur geti valið að sérhæfa sig seint á námsferlinum og geti valið áfanga af öðrum brautum.
  • Á öllum fundum var mikið rætt um kynningu á starfsnámi og mikilvægi þess að efla hana. Fundarmenn töldu nauðsynlegt að kynna nemendum fjölbreytt störf og að sú fræðsla þyrfti að hefjast mun fyrr en nú er og voru nær allir sammála um að það væri ekki nægilegt  að náms- og starfsfræðslan væri nær eingöngu í 10.bekk.  Margir voru þeirrar skoðunar að atvinnulífið og skólarnir ættu að deila ábyrgð í þessu efni og að ekki væri einvörðungu opinberu fé varið til fræðslustarfsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum