Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. apríl 2012 Forsætisráðuneytið

Styrkir til verkefna á sviði mannréttindamála

Samkvæmt fjárlögum ársins 2012 hefur innanríkisráðuneytið 6,2 milljónir króna til ráðstöfunar fyrir styrki til mannréttindamála. Styrkja á verkefni og starfsemi sem á einn eða annan hátt styðja við eða stuðla að vernd og virkni mannréttinda. Í ár verður sérstök áhersla lögð á að veita styrki  til verkefna sem tengjast þeim tilmælum sem fram komu til íslenskra stjórnvalda á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í reglubundnu eftirliti með mannréttindum á Íslandi, sem fram fór í Genf 10. október síðastliðinn.

Flest tilmæli þar sem Ísland var talið geta bætt sig lutu að málefnum útlendinga í víðum skilningi, áhyggjum af kynþáttafordómum í íslensku samfélagi, launamun kynjanna, ofbeldi gegn konum og kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, auk þess sem Ísland var hvatt til þess að undirgangast alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sem það hefur ekki gerst aðili að og setja á laggirnar mannréttindastofnun sem standist alþjóðleg viðmið. Einnig höfðu ríki heims áhyggjur af stöðu fangelsismála á Íslandi og vísbendingum um mansal hér á landi.

Styrkumsóknir verða metnar með hliðsjón af eftirfarandi:

  • Markmiði verkefnisins og hvort líklegt sé að því verði náð.
  • Væntanlegum árangri og ávinningi.
  • Hvort verk- og tímaáætlun sé raunhæf.
  • Hvort unnt sé að meta framvindu og árangur verkefnis.

Hvorki eru veittir styrkir vegna ferðakostnaðar né uppihalds.

Styrkþegar skuldbinda sig til að upplýsa ráðuneytið um framgang og árangur verkefnisins með skilagrein við lok þess (sjá sérstakt eyðublað þar að lútandi).

Umsóknum skal skilað rafrænt til innanríkisráðuneytisins í gegnum netskil á Ísland.is fyrir 8. maí 2012. Hafi umsækjendur ekki tök á að skila rafrænt má senda umsókn til innanríkisráðuneytisins, Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík, á eyðublaði sem þar má fá.

Öllum umsækjendum verður svarað þegar ákvörðun liggur fyrir.

Smellið hér til að nálgast eyðublöðin og skoða upplýsingar um netskil.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum