Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. maí 2012 Forsætisráðuneytið

Á annan milljarð króna til framkvæmda og nýsköpunar á Austurlandi

Fundur ríkisstjórnar Íslands á Egilsstöðum 8. maí 2012
Fundur ríkisstjórnar Íslands á Egilsstöðum 8. maí 2012

Ríkisstjórnin hélt reglulegan ríkisstjórnarfund sinn á Egilsstöðum í dag, en áður hefur hún haldið fundi utan höfuðborgarinnar í Reykjanesbæ, á Akureyri og Ísafirði. Fundurinn var haldinn í Gistiheimilinu á Egilsstöðum.

Að loknum ríkisstjórnarfundinum  var haldinn sérstakur fundur með sveitarstjórnarmönnum á Austurlandi og síðar undirritaðir tveir samningar og ein viljayfirlýsing í samræmi við samkomulag við sveitarstjórnir á Austurlandi:

1. Hjúkrunarheimili á Fljótdalshéraði

Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu hjúkrunarheimila á landinu frá haustinu 2009 er ráðgert að byggja 40 rýma hjúkrunarheimili á Fljótsdalshéraði. Samningar gera ráð fyrir að heimamenn annist hönnun og byggingu heimilisins. Sveitarfélaginu verður tryggð fjármögnun framkvæmdanna með láni frá Íbúðalánasjóði en Framkvæmdasjóður aldraðra greiðir sveitarfélaginu húsaleigu til 40 ára sem nemur 85% leigukostnaðar. Framkvæmdir hefjast í byrjun árs 2013 og er ráðgert að heimilið taki til starfa sumarið 2014. Kostnaður við byggingu hjúkrunarheimilisins er áætlaður um 1 milljarður króna.

2. Jarðfræðisetur á Breiðdalsvík

Í desember 2010 var sett á fót sjálfseignarstofnunin Breiðdalssetur. Stjórn setursins hefur unnið  óslitið að þeim verkefnum sem setrið stóð fyrir eða átti aðild að í upphafi. Lögð hefur verið áhersla á fjölbreytt verkefni og nýjar sýningar hafa verið haldnar á vegum setursins. Meðal verkefna setursins er að varðveita sögu og minjar um merka menn og atburði í sveitarfélaginu, en einnig er nú lögð áhersla á að efla rannsóknir á vegum þess.

Starfsemi Jarðfræðisetursins hefur mikla þýðingu fyrir byggðarlagið og styrkir samvinnu þess við önnur sveitarfélög. Nefna má að fjölgun ferðamanna hefur verið umtalsverð með tilkomu setursins.

Fjárveiting til Jarðfræðisetursins á Breiðdalsvík var samþykkt á síðastliðnu ári á fundi ráðherranefndar um ríkisfjármál undir formerkjum sóknaráætlunar landshluta. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði helming kostnaðar við rekstur setursins eða 5 milljónir króna árlega fram til ársins 2015, samtals 20 milljónir króna á fjórum árum.

3. Viljayfirlýsing um frekari útvinnslu úr áli og sjávarfangi á Austurlandi

Á fundi ríkisstjórnarinnar var jafnframt samþykkt viljayfirlýsing um rannsóknir, þróun, nýsköpun og markaðssetningu á afurðum úr áli og sjávarfangi á Austurlandi. Hér er um að ræða nýtt verkefni sem fellur undir markmið um Ísland 2020 og samþykktir Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) árið 2011 um sóknaráætlun landshlutans. Í samvinnu sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana á Austurlandi  verður unnið að framangreindum verkefnum áli. Markmiðið er að auka verðmætasköpun og fjölga atvinnutækifærum á Austurlandi. Sjónum verur sérstaklega beint að störfum sem nýtast fólki með fjölbreytta menntun. Austurbrú (sameinaðar stoðstofnanir á Austurlandi) mun hafa yfirumsjón með ráðstöfum fjársins sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að renni til verkefnisins. Við úrvinnslu þess getur Austurbrú fengið einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til liðs við sig. Verkefninu er ætlað að styrkja byggð á Austurlandi og skal sérstaklega litið til þeirra byggða sem hafa sýnt frumkvæði á þessu sviði atvinnusköpunar.

Með samþykktum ríkisstjórnarinnar verða veittar 10 milljónir króna til verkefnisins úr ríkissjóði á þessu ári og 10 milljónir króna á því næsta, samtals 20 milljónir króna.

Ríkisstjórn Íslands fundar með sveitarstjórnarfólki á Austurlandi
Ríkisstjórn Íslands fundar með sveitarstjórnarfólki á Austurlandi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum