Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. maí 2012 Forsætisráðuneytið

Einfaldari og skilvirkari samskipti landshluta og ríkisins

Ríkisstjórnin við undirritun viljayfirlýsingar um Austurbrú
Ríkisstjórnin við undirritun viljayfirlýsingar um Austurbrú

Stofnfundur Austurbrúar, sameinaðra stoðstofnana á Austurlandi, var haldinn á Reyðarfirði í dag. Austurbrú er sjálfseignarstofnun sem verður til við sameiningu Þekkingarnets Austurlands, Þróunarfélags Austurlands, Menningaráðs Austurlands og Markaðsstofu Austurlands. Austurbrú mun einnig annast daglega starfsemi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Um er að ræða fyrstu stofnun sinnar tegundar á Íslandi og hefur ríkisstjórnin hvatt til að hliðstæðrar sameiningar stoðstofnana í öðrum landshlutum í þeim tilgangi að auka skilvirkni og einfalda samskipti landshlutanna og ríkisvaldsins. Breytingarnar eru í raun hluti af sóknaráætlunum landshlutanna til ársins 2020.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ávarpaði stofnfundinn á Reyðarfirði í dag og sagði meðal annars: „Stjórnarráðið hefur nú í tæp tvö árið unnið eftir þeirri hugmynda- og aðferðafræði sem birtist í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um Ísland 2020. Stefna stjórnvalda varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeirri stefnumörkun endurspeglast í sóknaráætlunum landshluta. [...] Austurbrú verður mikilvægur hlekkur í einfaldaðri og skilvirkari samskiptum ríkis og sveitarfélaga.“

Í stuttu máli á stofnun Austurbrúar sér samsvörun í aukinni samræmingu allra ráðuneyta á styrkjafyrirkomulagi ríkisins við sveitarfélög svo sem um menningarsamninga, atvinnuþróunarfélög og fleira. Þar er meðal annars tekið aukið tillit til forgangsröðunar sérhvers landshluta.

„Með þessu fyrirkomulagi samskipta sé ég fyrir mér mikla hagræðingu og aukna skilvirkni og jafnvel í framtíðinni einn samning milli ríkis og sveitarfélaga þar sem landshlutinn hefur meira vægi og vald er kemur að úthlutun þeirra fjármuna og ákvörðunar um stefnumál er snerta landshlutann,“ sagði forsætisráðherra ennfremur á stofnfundinum í dag.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum á Egilstöðum í morgun að verja samtals 20 milljónum króna til rannsókna, nýsköpunar, þróunar og markaðssetningar á afurðum úr áli og sjávarfangi á Austurlandi og mun Austurbrú hafa yfirumsjón með verkefninu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum