Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nýtt hjúkrunarheimili rís á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra og Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs undirrituðu í dag samning um byggingu hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum fyrir 40 heimilismenn. Húsnæðið verður tekið í notkun um mitt ár 2014. 

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði við undirritunina í dag að samningurinn um framkvæmdirnar væri öllum gleðiefni:  „Með þessu eru langþráðar úrbætur fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga í sveitarfélaginu í sjónmáli og hjúkrunarrýmum fjölgar sem er nauðsynlegt, einkum til lengri tíma litið. Samtímis er mikill ávinningur af þessu fyrir atvinnulífið hér í Fjarðabyggð með þeim umsvifum sem framkvæmdunum fylgja.“

Áætlaður heildarkostnaður við byggingu hjúkrunarheimilisins er tæpur 1,1 milljarður króna og ársverk verða um 90-100 á framkvæmdatímanum.

Samkvæmt samningnum annast sveitarfélagið hönnun og byggingu hjúkrunarheimilisins og leggur til byggingarlóðina. Fljótsdalshéraði býðst allt að 100% lán til 40 ára frá Íbúðalánasjóði til að fjármagna framkvæmdirnar. Á móti greiðir ríkið mánaðarlega húsaleigu á þessu tímabili sem nemur 85% stofnkostnaðar en heimilið verður eign Fljótsdalshéraðs.

Áætlanir sveitarfélagsins um framkvæmdirnar miðast við að byggingin verði reist í brekkunni vestan við heilsugæslustöðina og tengd við húsnæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Byggt verður í samræmi við viðmið velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila þar sem áhersla er lögð á heimilislegt yfirbragð í litlum hjúkrunareiningum með góðu einbýli fyrir hvern og einn auk sameiginlegs rýmis fyrir íbúa og starfsfólk með eldunaraðstöðu, borðstofu og dagstofu.

Þegar hjúkrunarheimilið verður tekið í notkun um mitt ár 2014 verða til að byrja með rekin þar 30 hjúkrunarrými sem leysa af hólmi þau 17 sem fyrir eru í húsnæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Fyrstu tíu árin mun heilbrigðisstofnunin leigja hluta nýja húsnæðisins, 750 fermetra, sem nýtt verður undir endurhæfingu og aðra starfsemi á vegum sjúkrasviðs stofnunarinnar. Að þeim tíma liðnum er ráðgert að hjúkrunarrými á heimilinu verði 40.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum