Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. maí 2012 Utanríkisráðuneytið

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sat 37. fund EES-ráðsins sem fram fór í Brussel í dag

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson

Á fundinum gagnrýndi utanríkisráðherra harðlega þær tillögur sem nú eru til umræðu innan ESB um beitingu viðskiptaþvingana gagnvart Íslandi vegna makríldeilunnar og taldi þær brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum ESB, m.a. á vettvangi EES og WTO. Hann gerði jafnframt grein fyrir sjónarmiðum Íslands í málinu og ítrekaði  að Ísland hefði fullan vilja til að vinna áfram að lausn deilunnar með öðrum aðilum hennar.

Utanríkisráðherra fjallaði einnig um skýrslu norskra yfirvalda um EES-samninginn, sem kynnt var fyrr á þessu ári. Hann rifjaði upp að meginniðurstöður skýrslunnar væru að þátttaka Norðmanna í EES hefði haft jákvæð áhrif á efnahagslíf Noregs sem og löggjöf ríkisins á sviði efnahagsmála og efnahagsstefnu almennt. Á móti kæmi að verulegur lýðræðishalli væri hvað varðar aðkomu EES EFTA-ríkjanna að samningnum. Ráðherra taldi niðurstöður Noregs að þessu leyti samsvara vel reynslu Íslands af samningnum.

Þá upplýsti utanríkisráðherra EES-ráðið um nýlegt lögfræðiálit lagaprófessoranna Bjargar Thorarensen og Stefáns Más Stefánssonar um stjórnskipulega annmarka á upptöku í EES-samninginn á nýjum reglum ESB um fjármálaeftirlit. Hann lagði áherslu á að með álitinu væri staðfest að upptaka reglnanna í EES-samninginn fæli að óbreyttu í sér meira framsal opinbers valds en heimilað sé í íslensku stjórnarskránni. Af þeim sökum væri upptaka reglnanna í samninginn ekki möguleg nema lausn fyndist varðandi aðlögunartexta þar sem tekið væri tillit til stjórnskipulegra vandkvæða Íslands og þar sem tveggja stoða kerfi EES-samningsins væri virt.

Þess var minnst á fundinum að í ár eru liðin 20 ár frá undirritun EES-samningsins, en hann var undirritaður í Oporto í Portúgal 2. maí 1992. Ráðherrarnir lýstu yfir ánægju sinni með það hve vel hefði tekist til með framkvæmd samningsins á þessu tímabili og hversu vel hann hefði þjónað hagsmunum þeirra ríkja sem aðild eiga að honum.

Í EES-ráðinu sitja utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein, ásamt fulltrúum ESB, þ.e. fulltrúum þess aðildarríkis ESB sem fer með formennsku í ESB (Danmörk), utanríkisþjónustu ESB og framkvæmdastjórn ESB. Villy Søvndal, utanríkisráðherra Danmerkur, stýrði fundinum, en utanríkisráðherra Íslands var talsmaður EFTA-ríkjanna þar sem Ísland fer nú með formennsku í EES EFTA-samstarfinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum