Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. maí 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Manninen hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Olli Manninen
Olli Manninen

Umhverfissinninn Olli Manninen frá Finnlandi hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í ár. Þetta var tilkynnt í gær, á alþjóðlegum degi líffræðilegrar fjölbreytni.  Verðlaunin, 350.000 danskar krónur (tæpar 7,7 milljónir íslenskra króna) verða afhent á árlegu Norðurlandaráðsþingi, sem í ár verður haldið í Helsinki.

Manninen hlýtur verðlaunin fyrir framlag sitt til varðveislu skóga á Norðurlöndum og uppbyggingu tengslanets á sama svæði til að virkja grasrótarsamtök á umhverfissviðinu, en ákveðið var að í ár skyldu verðlaunin veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur unnið að því að efla líffræðilegan fjölbreytileika í nærumhverfi sínu eða á alþjóðavettvangi.

Manninen starfar í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð en hann hefur unnið fyrir nær öll umhverfissamtök á Norðurlöndum. Hann hefur meðal annars sett á stofn vefsetrið nordicforests.org.

Haft var eftir honum í gær eftir að tilkynnt var um verðlaunin að þau hefðu ekki eingöngu verið veitt honum, heldur öllum þeim sem vinna að verndun norrænna skóga. „Sjálfboðastarf er afar mikilvægt, ekki síst þegar kemur að því að hafa áhrif á stjórnmálamenn til að gera meira fyrir náttúru okkar. Verðlaunin stuðla að því að tryggja starf okkar til framtíðar,“ sagði hann.

Ellefu voru tilnefndir til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í ár, þar á meðal tveir Íslendingar.

Frétt Norðurlandaráðs um verðlaunin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum