Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. maí 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfisráðherra í Morgunblaðinu - Hvað segja bændur?

 

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra birtist í Morgunblaðinu 25. maí 2012.

Hvað segja bændur?

Undanfarin misseri hafa bændur í auknum mæli kvartað undan ágangi villtra fugla á ræktað land. Umfang þessa er ekki þekkt, en líkur hafi verið leiddar að því að orsakanna sé að leita í tveimur þáttum. Annars vegar hafi stofnar tiltekinna fugla stækkað, hins vegar hafi búsetuhættir breyst, t.a.m. með aukinni áherslu á kornrækt, sem laði fuglana að ökrum.

Þessi staða var rædd í aðsendri grein formanns Bændasamtaka Íslands í Morgunblaðinu í gær. Þar ræddi hann kynningarfund sem Bændasamtökin héldu fyrr í vikunni, þar sem farið var yfir norskt verkefni sem ætlað er að taka á sambærilegu vandamáli. Jafnframt kvartaði hann undan því að umhverfisyfirvöld hefðu í áraraðir dregið lappirnar í málinu.

Á þessum sama fundi voru staddir fulltrúar frá umhverfisráðuneytinu, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun en þessar stofnanir umhverfisyfirvalda koma að þessum málum hér á landi. Þar upplýsti fulltrúi umhverfisráðuneytisins að Umhverfisstofnun hefur átt í viðræðum við Bændasamtökin um málið ásamt Náttúrufræðistofnun Íslands. Gerði hann grein fyrir því að í kjölfar fundarins myndi ráðuneytið kalla þessar stofnanir til fundar til þess að fara yfir málið, framhald þess og næstu skref. Lögð verður áhersla á að fá betri mynd af stöðunni, helstu álagsstöðum, mögulegum varnaraðgerðum og hvernig best væri hægt að vinna málið áfram.

Vera má að formaður Bændasamtakanna hafi vikið fullsnemma af kynningarfundi samtakanna og því misst af þessu innleggi umhverfisráðuneytisins á fundinum. Hann er því hér með upplýstur um, að stjórnvöld umhverfismála hafa undanfarið átt samtal við fulltrúa Bændasamtakanna og til stendur að halda því samtali áfram og styrkja samvinnuna. Áhyggjur bænda af ágangi á ræktarlönd þarf að skoða af fullri alvöru, en gæta þess að aðgerðir sem gripið er til byggi á réttum upplýsingum og virðingu fyrir náttúrunni. Umhverfisráðuneytið væntir góðs samstarfs og uppbyggilegra samskipta við Bændasamtök Íslands í þessu efni sem öðrum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum