Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. júní 2012 Forsætisráðuneytið

Dómur í máli Önnu Kristínar Ólafsdóttur gegn ríkinu – yfirlýsing forsætisráðuneytisins

Í tilefni af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag í máli Önnu Kristínar Ólafsdóttur gegn íslenska ríkinu sendir forsætisráðuneytið frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Forsætisráðuneytið fagnar því að niðurstaða héraðsdóms liggi nú fyrir. Í dóminum er kröfu stefnanda um skaðabætur hafnað en fallist á sömu fjárhæð miskabóta og forsætisráðuneytið hafði þegar boðið stefnanda í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála.

Forsætisráðuneytið vekur athygli á því að í dóminum er hvorki lagt sjálfstætt né efnislegt mat á það hvort jafnréttislög hafi verið brotin við skipun í embættið. Niðurstaðan byggir alfarið á því að úrskurður kærunefndar jafnréttismála sé bindandi um þann þátt málsins, þar sem forsætisráðuneytið lét ekki á það reyna í sérstöku ógildingarmáli, þar sem áhersla var lögð á að ná sáttum í málinu.

Þá er það jafnframt niðurstaða dómsins að ekki verði fullyrt að stefnandi hafi átt að fá embættið og er skaðabótakröfu stefnanda því alfarið hafnað.

Í dómi Héraðsdóms segir orðrétt varðandi þetta atriði: „Þykir ekki verða fullyrt að stefnanda hafi borið starfið umfram þá þrjá umsækjendur sem raðað var framar henni í hæfnismatinu og verður stefndi því sýknaður af skaðabótakröfu stefnanda.“

„Í samræmi við fyrri yfirlýsingar mínar og sáttavilja í þessu máli ítreka ég þá von, að með þessari niðurstöðu megi ljúka málinu, með sama hætti og ég lagði sjálf til þegar í upphafi,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í tilefni dómsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum