Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. júní 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úttekt á geislavirkum úrgangi á hafsbotni

Skýrsla Ospar
Lífríki hafsins er fjölbreytt

Ársfundur OSPAR-samningsins um vernd NA-Atlantshafsins, sem lauk í dag í Bonn, samþykkti að gera úttekt á geislavirkum úrgangi sem liggur á hafsbotni, í því skyni að meta hvort hætta stafar af honum. Þá var samþykkt að stofna nýtt verndarsvæði utan lögsögu ríkja á sk. Charlie-Gibbs svæði. Ýmsar fleiri ákvarðanir voru teknar, sem lúta að því að draga úr mengun, verndun búsvæða og tegunda og vöktun umhverfisþátta á hafsvæðinu.

Bretland og fleiri Evrópuríki vörpuðu geislavirkum úrgangi í hafið áður en hlé var gert á slíku 1983 og alþjóðlegt bann var síðan sett árið 1993. Sérfræðingar telja að yfirleitt sé lítil ógn af þeim úrgangi sem hent var frá þessum tíma og að geislavirkni í grennd við vörpunarstaði sé lág. Vöktun á slíkum stöðum er þó lítil og spurningar hafa vaknað um hvort ógn geti stafað af leka þegar umbúðir um úrganginn gefa sig með tímanum. OSPAR hyggst gera úttekt á stöðum með geislavirkan úrgang á hafsbotni og reyna að meta að nýju hvort hætta stafi af þeim og þörf á aukinni vöktun. Almennt hefur náðst mikill árangur við að draga úr geislamengun undir merkjum OSPAR, einkum frá kjarnorkuendurvinnslu í Bretlandi og Frakklandi. Vöktun bendir til þess að geislavirkni í NA-Atlantshafi sé langt undir hættumörkum og fari minnkandi, en ákvörðun OSPAR nú miðar að því að skoða hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af einstökum stöðum.

Nýtt verndarsvæði á Charlie-Gibbs svæðinu

Samþykkt var að stofna nýtt verndarsvæði utan lögsögu ríkja, á sk. Charlie-Gibbs svæði langt fyrir sunnan Ísland. Svæðið nær til hafrýmisins, en ekki botnsins, en Ísland hefur gert kröfu um yfirráð yfir hafsbotninum á þessu svæði og tilkynnt hana til skrifstofu Hafréttarsamningsins. Stofnun svæðisins hefur engin áhrif á kröfu Íslands og er það skýrt tekið fram í ákvörðun OSPAR. Engin fyrirsjáanleg ógn er talin steðja að svæðinu nú og fiskveiðar eru þegar takmarkaðar þar skv. samþykktum Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðiráðsins (NEAFC). Formleg vernd svæðisins mun gefa ríkjum OSPAR og til þess bærum alþjóðastofnunum tækifæri til þess að grípa til fleiri aðgerða ef þarf, sem miða að vernd lífríkis á hafsvæðinu til framtíðar. Árið 2010 samþykkti OSPAR stofnun sex verndarsvæða utan lögsögu ríkja og voru þau hin fyrstu sinnar tegundar í heiminum.

OSPAR-samningurinn fagnar 20 ára afmæli sínu á þessu ári. Umfangsmikil vöktun á mengunarefnum og starfsemi í hafinu fer fram innan vébanda samningsins og á grundvelli þeirrar vöktunar er ástand hafsvæða metið og teknar ákvarðanir um aðgerðir ef þarf. Meðal aðgerða sem hafa verið teknar á grundvelli samþykkta OSPAR til þessa eru: Minnilosun geislavirkra efna í hafið; bann við brennslu og varpi úrgangs á hafi úti; samdráttur í losun ýmissa mengunarefna og næringarefna frá landi; reglusetning um umhverfisáhrif olíu- og gasvinnslu á hafi; og gerð ítarlegra úttekta á ástandi NA-Atlantshafsins.

Starf OSPAR tekur til flestra þeirra þátta sem hafa áhrif á umhverfisgæði og lífríki hafsins í NA-Atlantshafinu, utan fiskveiða. Í nýlegri úttekt OSPAR á ástandi hafsvæðisins kom m.a. fram að ýmis mengun fer minnkandi á svæðinu, s.s. af völdum þungmálma, þrávirkra lífrænna efna og geislavirkra efna. Sum vandamál fara þó vaxandi og má þar nefna mengun vegna plastagna í hafinu og súrnun vegna upptöku CO2 úr andrúmsloftinu, sem stafar af bruna jarðefnaeldsneytis. Súrnun getur haft mjög alvarleg áhrif á lífríki hafsins á komandi áratugum, s.s. á skeldýr, kóralla og kalkþörunga og OSPAR-samningurinn hyggst efla vöktun á þessari ógn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum