Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. júlí 2012 Forsætisráðuneytið

A-428/2012. Úrskurður frá 18. júní 2012

 

ÚRSKURÐUR

Hinn 18. júní 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-428/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Þann 2. maí 2012 kærði [A], f.h. [B],  ehf., til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun ríkislögreglustjóra, dags. 11. apríl, á beiðni hans, dags. 10. febrúar, um gögn um kaup embættisins á búningum af [C] ehf. á árinu 2009 fyrir aðgerðarhóp lögreglunnar.

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi upphaflega óskað eftir því með bréfi, dags. 10. febrúar, að ríkislögreglustjóri upplýsti og afhenti gögn um kaup embættisins á búningum fyrir aðgerðarhóp lögreglunnar af [C] ehf. Þess hafi verið óskað að kæranda yrðu send tilboð [C] ehf., samningur ríkislögreglustjóra við [C] ehf. og afrit reikninga vegna sölu á fyrrgreindum búningum til embættisins. 

Með bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 20. febrúar, hafi kæranda verið afhent afrit tilboðs [C] ehf., ásamt pöntun, dags. 30. október 2009, en afrit reikninga vegna kaupanna hafi ekki fylgt með bréfinu.

Með bréfi kæranda, dags. 28. febrúar og 19. mars, hafi kærandi ítrekað kröfu um afhendingu reikninga [C] ehf.

Með bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 11. apríl 2012, hafi embættið hafnað afhendingu reikninganna á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru kemur fram að kærandi geti ekki fallist á þá afstöðu ríkislögreglustjóra að reikningar [C] ehf. vegna kaupa embættisins á búningum af félaginu fyrir aðgerðarhóp lögreglunnar geti talist varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni í skilningi síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga. Vekur kærandi athygli á orðalagi ríkislögreglustjóra í bréfi embættisins, dags. 11. apríl, þar sem segir að reikningar „geti haft að geyma upplýsingar er varða mikilvæga rekstrar- og samkeppnishagsmuni“ [C] ehf. Í bréfi ríkislögreglustjóra sé með öðrum orðum hvergi fullyrt að embættið telji að reikningarnir hafi í raun að geyma það viðkvæmar upplýsingar að það réttlæti beitingu undanþágu 2. málsl. 5. gr.

Málsmeðferð

Kæran var send ríkislögreglustjóra með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. maí 2012, og var veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og til þess að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni til 18. maí. Að ósk ríkislögreglustjóra var fresturinn síðar framlengdur til 25. maí. Var þess jafnframt óskað í bréfinu að úrskurðarnefndinni yrðu innan sama frests látin í té í trúnaði afrit af þeim gögnum, sem kæran lyti að.

Ríkislögreglustjóri svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. maí. Í bréfinu kemur fram að árið 2009 hafi ríkislögreglustjóri óskað eftir tilboðum frá [B] ehf. (kæranda) og [C] ehf. vegna fyrirhugaðra kaupa embættisins á búningum fyrir aðgerðarhóp lögreglunnar. Kærandi og [C] ehf. hafi skilað inn tilboðum og niðurstaðan hafi verið sú að hafna tilboði kæranda og semja við [C] ehf. þar sem tilboð [C] ehf. hafi verið lægra, auk þess sem uppgefinn afhendingartími hafi verið skemmri.

Þann 10. febrúar 2012 hafi kærandi óskað eftir afhendingu gagna og upplýsinga frá ríkislögreglustjóra vegna kaupa embættisins á búnaði fyrir aðgerðarhópinn af [C] ehf. Hafi þess verið óskað að kæranda yrði sent tilboð [C] ehf., samningur ríkislögreglustjóra við [C] ehf. og afrit reikninga vegna sölu á fyrrgreindum búningum til embættisins. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2012, hafi kæranda verið afhent tilboð [C] ehf. ásamt pöntun, dags. 30. október 2009. Með bréfum, dags. 28. febrúar og 19. mars, hafi kærandi ítrekað beiðni um afhendingu reikninga.

Með bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 6. mars 2012, hafi embættið óskað eftir afstöðu [D], framkvæmdastjóra [C] ehf. til beiðni kæranda um afrit reikninganna. Svar hafi ekki borist frá [C] ehf.

Þann 11. apríl hafi embættið hafnað beiðni kæranda um afhendingu reikninganna á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Kemur fram í umsögn ríkislögreglustjóra að embættið telji að umbeðnir reikningar geti haft að geyma upplýsingar er varði mikilvæga rekstrar- og samkeppnishagsmuni [C] ehf. og að óheimilt sé að veita slíkar upplýsingar án þess að nokkuð skýrt og ótvírætt samþykki hlutaðeigandi liggi fyrir.

Segir svo í umsögn ríkislögreglustjóra að embættið hafi falið Ríkiskaupum að bjóða út búnað fyrir lögreglumenn, þ.m.t. búnað sambærilegum þeim búnaði sem keyptur var á árinu 2009. Í lögum um opinber innkaup sé gert ráð fyrir að innkaup stofnana ríkisins fari fram í kjölfar verðfyrirspurna, rammasamninga og opinberra útboða. Innkaup stofnana ríkisins séu umtalsverð í íslensku efnahagslífi og ef veita ætti aðilum á samkeppnismarkaði heimildir til þess að óska eftir reikningum samkeppnisaðila hjá stofnunum ríkisins geti það haft umtalsverð áhrif á samkeppni og stöðu ríkisins sem kaupanda á markaði, einkum og sér í lagi þar sem um sé að ræða starfsemi sem fram fari á tiltölulega þröngum og einhæfum markaði þar sem samkeppni og þá rekstur megi að sama skapi telja viðkvæm.

Í ljósi framangreinds svo og þess að embætti ríkislögreglustjóra sé ekki kunnugt um að við fordæmi sé að styðjast hvað varði einstaka reikninga í þessu sambandi, hafi ríkislögreglustjóri talið að ekki væri unnt að líta svo á að eðlilegt og sanngjarnt væri að veita aðgang að umræddum reikningum. Með tilliti til þess sem að framan er rakið varðandi smæð og sérstöðu þessa markaðar hafi mátt ætla að yrðu reikningarnir gerðir aðgengilegir væri það til þess fallið að valda rekstrar- og eða samkeppnislegu tjóni.

Með bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 29. maí, fylgdu eftirfarandi gögn, en tilgreint var sérstaklega að gögn 3-5 væru afhent í trúnaði til úrskurðarnefndar:

1.      Tilboð [C] ehf. og [B] ehf. vegna kaupa á búningum fyrir aðgerðarhóp.

2.      Pöntun rikislögreglustjóra á búningum frá [C] ehf., dags 30.10.2009.

3.      Afrit reiknings [C] ehf., dags. 8. desember 2009.

4.      Afrit reiknings [C] ehf., dags. 16. desember 2009.

5.      Afrit reiknings [C] ehf., dags. 28. desember 2009.

Með bréfi, dags. 6. júní, var kæranda sent afrit umsagnar ríkislögreglustjóra og gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina frekari athugasemdum vegna kærunnar, í ljósi umsagnarinnar, til 15. júní. Með tölvupósti dags. 13. júní var nefndinni tilkynnt að kærandi teldi ekki þörf á að gera frekari athugasemdir vegna umsagnarinnar. 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins og skýringum málsaðila við úrlausn þess. 

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar synjun ríkislögreglustjóra á beiðni kæranda um aðgang að gögnum vegna kaupa embættisins á óeirðabúnaði af [C] ehf. á árinu 2009. Synjun ríkislögreglustjóra byggist á 2. málsl. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru málsins kemur fram að kæranda hafi verið afhent afrit tilboðs [C] ehf., ásamt pöntun, dags. 30. október 2009, en afrit reikninga vegna kaupanna hafi ekki fylgt með bréfinu. Kæra málsins lýtur því einvörðungu að aðgangi að umræddum reikningum.

 2.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir m.a.: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.“ Í reglunni birtist meginregla laganna um upplýsingarétt almennings. Sætir hún undantekningum samkvæmt 4.-6. gr. sömu laga. Samkvæmt hefðbundnum viðhorfum um túlkun laga verða þær undantekningar ekki skýrðar rúmt.

Í 2. málsl. 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“ Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að jafnvel þótt upplýsingar sem fram koma í gögnum máls geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera lögin ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður ennfremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra: hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344). Þá hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál litið svo á að upplýsingaréttur almennings og fjölmiðla, skv. 3. gr. upplýsingalaga, sé ríkur þegar hann varðar það endurgjald, ásamt afsláttum, sem stjórnvöld greiða með ráðstöfun opinberra fjármuna. Um þetta má m.a. vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-344/2010, A-378/2011 og A-379/2011.

Í málinu liggur fyrir að kæranda hefur verið afhent afrit tilboðs [C] ehf. á grundvelli beiðni ríkislögreglustjóra sem beint var til kæranda og [C] ehf. vegna kaupa á búningum fyrir aðgerðarhóp lögreglunnar. Í tilboðinu kemur fram verð á einstökum vöruliðum hjá [C] ehf., en í tilboðinu kemur fram að verðið sé háð gengisbreytingum. Á grundvelli þessa hefur ríkislögreglustjóri gert pöntun um vörur hjá [C] ehf. sem kæranda hefur verið afhent og í kjölfarið hafa umræddir reikningar verið gefnir út. Af þeim er ljóst að verð á einstökum vöruliðum hefur hækkað, í samræmi við fyrirvara í tilboði vegna gengisþróunar.

Eins og áður er rakið skal við mat á því hvort 2. málsl. 5. gr. upplýsingalaga geti komið í veg fyrir aðgang almennings taka til skoðunar hvort vegi þyngra: hagsmunir fyrirtækisins sem upplýsingarnar varða eða almennings. Í ljósi þess að kæranda hafa þegar verið veittar upplýsingar um verð einstakra vöruliða [C] ehf. í tilboði fyrirtækisins og pöntun ríkislögreglustjóra, getur nefndin ekki fallist á að aðgangur kæranda að reikningum [C] ehf. vegna pöntunarinnar sé líklegur til að geta valdið [C] ehf. tjóni. Þá er litið til þess að gögnin varða kaup ríkislögreglustjóra á búningum fyrir um tveimur og hálfu ári. Verður því ekki fallist á að afhending gagnanna sé líkleg til að geta valdið [C] ehf. tjóni eða að upplýsingar þær sem fram komi á reikningunum séu að öðru leyti þess eðlis að þær varði viðkvæma fjárhags- eða viðskiptalega hagsmuni fyrirtækisins í skilningi upplýsingalaga. Ríkislögreglustjóri hefur ekki haldið öðrum röksemdum á lofti fyrir synjun á umbeðnum aðgangi gagna en umræddri 5. gr. upplýsingalaga. Með vísan til framangreinds ber Ríkislögreglustjóra að afhenda kæranda framangreinda reikninga sem taldir eru upp undir töluliðum 3-5 í kafla um málsmeðferð, eins og nánar tilgreinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð

Ríkislögreglustjóra ber að afhenda kæranda, [B] ehf., reikninga [C] ehf., dags.  8., 16. og 28. desember 2009.

 

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                       Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum