Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. júlí 2012 Forsætisráðuneytið

A-437/2012. Úrskurður frá 5. júlí 2012

ÚRSKURÐUR

Hinn 5. júlí 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-437/2012.

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 19. september 2011, kærði [A], drátt á svörum frá landlækni vegna erindis hans til embættisins, dags. 22. júní 2011, þar sem óskað var eftir afriti af „kaupsamningum og öllum tengdum gögnum við níu innflutningsaðila varðandi kaup á 630.000 hlífðarsloppum, öndunargrímum, augnhlífum og hlífðarsvuntum.“

Málsmeðferð

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 2. nóvember 2011, var landlækni sent yfirlit yfir allmargar kærur sem borist höfðu frá kæranda, og tengdust m.a. beiðnum um aðgang að kaupsamningum og tengdum gögnum um bóluefni. Þar á meðal var tilgreind ofangreind kæra frá 19. september 2011.

Þann 7. desember 2011 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál svar landlæknis við ofangreindu bréfi. Þar kemur fram að í svarbréfi sóttvarnarlæknis til kæranda, dags. 2. nóvember 2011, hafi erindi hans verið hafnað á þeim grunni að ofangreind kaup snerti öryggisbirgðahald íslenska ríkisins.

Bréfi landlæknis fylgdi jafnframt afrit af ákvörðun landlæknis í tilefni af umræddri beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Í ákvörðun landlæknis segir m.a. svo:

„Umræddur búnaður er hluti af öryggisbirgðahaldi sem tengist sóttvörnum. Búnaðurinn er ætlaður til varnar atburðum sem ógna lýðheilsunni hvort sem þeir stafa af náttúrulegum orsökum, slysni eða ásetningi. Með vísan til þessa er beiðni yðar hafnað.“

Bréfi landlæknis fylgdi afrit af eftirtöldum gögnum:

1. Útboðslýsing í útboði Ríkiskaupa nr. 14045, hlífðarfatnaður og tengdar vörur vegna viðbragða við farsótt, apríl 2006.
2. Útboðslýsing í rammasamningsútboði Ríkiskaupa nr. 14260, sæfðir og ósæfðir hlífðarhanskar fyrir heilbrigðisstofnanir, apríl 2007.
3. Afrit af vinnuskjölum starfsmanna á Landspítala um mat á tilboðum vegna rammasamningsútboðs nr. 14260, sem send hafa verið sóttvarnarlækni með tölvupóstum.
4. Fundargerð frá fundi faghóps um mat á tilboðum í rammasamningsútboði 14260 sem fram fór 8. mars 2008
5. Skýrsla um tegund, magn og geymslustaði hlífðarfatnaðar, sem keyptur hefur verið sem vábirgðir þjóðarinnar (t.d. vegna heimsafaldurs inflúensu), unnin í apríl 2007.
6. Tillögur, dags. 29. ágúst 2006, frá faghópi um mat á tilboðum í útboði Ríkiskaupa nr. 14045. 

Með bréfi, dags. 12. desember, voru kæranda kynntar skýringar landlæknis. Athugasemdir hans af því tilefni bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 19. sama mánaðar.

Athugasemdir vegna ofangreindrar afgreiðslu landlæknis á beiðni kæranda höfðu einnig borist nefndinni með bréfi hans, dags. 11. nóvember 2011. Í þeim athugasemdum segir m.a. svo:

„Undirritaður mótmælir höfnun sóttvarnarlæknis að kaupsamningum og öllum tengdum gögnum við níu innflutningsaðila varðandi kaup á 630.000 hlífðarsloppum, öndunargrímum, augnhlífum og hlífðarsvuntum, sem hugsaðir voru til notkunar fyrir Íslendinga. Fyrir utan það að samningurinn var undirritaður fyrir þetta mörgum árum, eða október 2006, þá finnst manni að það sé ekki hægt að hafna aðgangi að þessum samningum, sérstaklega þar sem hinir almennu skattgreiðendur þessa lands hafi greitt fyrir þennan búnað og búnaðurinn hugsaður handa Íslendingum gegn heimsfaraldri.“ Kærandi vísar í þessu sambandi til umfjöllunar í 10. tölublaði Farsóttafrétta, árg. 2006, en afrit þess fylgdi jafnframt bréfinu.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór þess á leit við embætti landlæknis þann 27. júní 2012 að kannað yrði í skjalasafni embættisins hvort þar lægju fyrir fleiri gögn sem féllu undir framangreinda beiðni kæranda en nefndinni höfðu þá verið afhent. Þann 28. júní 2012 bárust úrskurðarnefndinni af þessu tilefni afrit eftirtalinna gagna frá embættinu:

1. Samningur nr. 14045/1, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [B] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
2. Samningur nr. 14045/2, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [C] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
3. Samningur nr. 14045/3, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [D] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
4. Samningur nr. 14045/4, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [E] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
5. Samningur nr. 14045/5, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [F] hf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
6. Samningur nr. 14045/6, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [G] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
7. Samningur nr. 14045/7, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [H] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
8. Samningur nr. 14045/8, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [I] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
9. Samningur nr. 14045/9, dags. 11. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [J] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.

Tekið skal fram að sóttvarnarlæknir starfar á vegum landlæknisembættisins, sbr. 4. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997. Í úrskurði þessum er því vísað til landlæknis eða landlæknisembættisins þrátt fyrir að þau erindi og bréf sem lýst er kunni að vera undirrituð af sóttvarnarlækni.


 
Niðurstaða

1.
Kærandi hefur óskað eftir því við landlækni að fá afhent afrit af „kaupsamningum og öllum tengdum gögnum við níu innflutningsaðila varðandi kaup á 630.000 hlífðarsloppum, öndunargrímum, augnhlífum og hlífðarsvuntum.“ Af skýringum kæranda í málinu er ljóst að í beiðni hans felst ósk um aðgang að umræddum kaupsamningum og tengdum gögnum sem tengjast útboði Ríkiskaupa nr. 14045 um hlífðarfatnað og tengdar vörur vegna viðbragða við farsótt frá apríl 2006.

Með vísan til þessa er ljóst að eftirtalin gögn sem úrskurðarnefndinni voru afhent af hálfu landlæknis undir meðferð málsins falla utan kæruefnis þess er hér er til úrlausnar: 

1. Útboðslýsing í rammasamningsútboði Ríkiskaupa nr. 14260, sæfðir og ósæfðir hlífðarhanskar fyrir heilbrigðisstofnanir, apríl 2007.
2. Afrit af vinnuskjölum starfsmanna á Landspítala um mat á tilboðum vegna rammasamningsútboðs nr. 14260, sem send hafa verið sóttvarnarlækni með tölvupóstum.
3. Fundargerð frá fundi faghóps um mat á tilboðum í rammasamningsútboði 14260 sem fram fór 8. mars 2008

Verður í úrskurði þessum ekki tekin afstaða til réttar kæranda til aðgangs að ofangreindum gögnum.

2.
Með vísan til framangreinds ber í úrskurði þessum að taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að eftirtöldum gögnum:

1. Útboðslýsing í útboði Ríkiskaupa nr. 14045, hlífðarfatnaður og tengdar vörur vegna viðbragða við farsótt, apríl 2006.
2. Skýrsla um tegund, magn og geymslustaði hlífðarfatnaðar, sem keyptur hefur verið sem vábirgðir þjóðarinnar (t.d. vegna heimsafaldurs inflúensu), unnin í apríl 2007.
3. Tillögur, dags. 29. ágúst 2006, frá faghópi um mat á tilboðum í útboði Ríkiskaupa nr. 14045. 

Einnig ber í úrskurðinum að taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að þeim níu kaupsamningum, dags. 6. og 11. október 2006, sem landlæknir lét úrskurðarnefndinni í té þann 28. júní 2012, sbr. það sem áður er rakið.

Landlæknir hefur ekki afhent úrskurðarnefndinni afrit af tilboðum sem liggja til grundvallar umræddum níu samningum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. gr. 10. gr. sömu laga, eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 161/2006, er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum tiltekinna mála. Með vísan til þess að úrskurðarnefndin áréttaði við embættið að afhenda nefndinni öll gögn sem undir beiðni kæranda féllu og fyrirliggjandi væru hjá því verður að líta svo á að þessi gögn, tilboðin, séu ekki fyrirliggjandi hjá landlækni. Kærandi getur því ekki krafist aðgangs að þeim hjá landlækni á grundvelli upplýsingalaga og kemur réttur kæranda til aðgangs að þeim því ekki til umfjöllunar í úrskurði þessum.

 

3.
Landlæknir hefur byggt synjun á aðgangi að þeim gögnum sem kæra málsins beinist að á þeim grundvelli að þau geymi upplýsingar um öryggisbirgðahald sem tengist sóttvörnum.

Í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er mælt fyrir um það að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Af gagnályktun frá þessu ákvæði leiðir hins vegar að sérstök þagnarskylduákvæði í lögum geta, ein og sér, komið í veg fyrir að veittur verði aðgangur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Um sóttvarnir gilda lög nr. 19/1997, auk annarra almennra laga um heilbrigðisþjónustu hér á landi. Í sóttvarnarlögum er ekki að finna sérstök ákvæði um trúnað um þær opinberu ráðstafanir sem sóttvarnarlæknir eða önnur stjórnvöld ráðast í til að bregðast við mögulegum eða yfirstandandi smitsjúkdómum. Af hálfu landlæknis hefur ekki verið vísað til slíkra lagaákvæða undir meðferð málsins eða í svörum embættisins til kæranda. Með vísan til þessa fer um aðgang að umræddum upplýsingum eftir ákvæðum upplýsingalaga.

Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr.

Samkvæmt ákvæði 6. gr. upplýsingalaga er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um:

„1. öryggi ríkisins eða varnarmál;
2. samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir;
3. viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra;
4. fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum ríkis eða sveitarfélaga ef þau yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði,
5. umhverfismál, enda geti birting þeirra haft alvarleg áhrif á vernd þess hluta umhverfisins sem slíkar upplýsingar varða, t.d. heimkynni fágætra tegunda lífvera, steinda, steingervinga og bergmyndana.“

Samkvæmt beinu orðalagi sínu verður ákvæðum 2., 3. eða 5. töluliðar ekki beitt til takmörkunar á aðgangi að þeim gögnum sem mál þetta lýtur að. Þá liggja ekki fyrir í gögnum málsins eða skýringum landlæknis vísbendingar um þá afstöðu stjórnvalda að yrðu upplýsingar um umrædd kaup eða upplýsingar um birgðahald í tengslum við þau gerðar opinberar myndi það leiða til þess að þær ráðstafanir sem kaupin eru byggð á yrðu þar af leiðandi þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri í skilningi 4. tölul. 6. gr. Úrskurðarnefndin telur að skilja verði afstöðu landlæknis svo að hann telji að það varði almannahagsmuni að upplýsingar um birgðastöðu umræddra vara hér á landi séu ekki á almannavitorði, m.a. vegna öryggis þeirra birgða sem um ræðir. Af þessu leiðir að við mat á réttmæti synjunar landlæknis á afhendingu umbeðinna gagna ber að líta til ákvæðis 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaganna.

Í skýringum við ákvæði 1. tölul. 6. gr. í frumvarpi því sem síðan varð að upplýsingalögum segir m.a. svo: „Með upplýsingum um öryggi ríkisins er eingöngu vísað til hinna veigamestu hagsmuna sem tengjast því hlutverki ríkisvaldsins að tryggja öryggi ríkisins inn á við og út á við. Upplýsingar um skipulag löggæslu, landhelgisgæslu, almannavarna og útlendingaeftirlits geta fallið hér undir. Í þessu sambandi skal og áréttað að samkvæmt niðurlagi 1. mgr. 2. gr. er gert ráð fyrir því að lögin gildi ekki um rannsókn eða saksókn í opinberu máli. Við túlkun á ákvæðinu verður að hafa í huga að því er ætlað að vernda mjög þýðingarmikla hagsmuni. Ef upplýsingar, þeim tengdar, berast út getur það haft afdrifaríkar afleiðingar. Þess vegna verður að skýra ákvæðið tiltölulega rúmt.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ljóst að það varði öryggi ríkisins inn á við miklu að hér séu til staðar úrræði til að bregðast við alvarlegum smitsjúkdómum eða vegna annarrar sambærilegrar heilbrigðisvár. Það varðar öryggi ríkisins í þessum skilningi einnig miklu að stjórnvöld geti tryggt öryggi þeirra birgða sem aflað er í þessu skyni.

4.
Í útboðslýsingu í útboði Ríkiskaupa nr. 14045, hlífðarfatnaður og tengdar vörur vegna viðbragða við farsótt, apríl 2006, kemur fram að um opið útboð sé að ræða. Í því felst að allir þeir sem áhuga höfðu á að bjóða fram þær vörur sem boðnar voru út gátu nálgast umrædda útboðslýsingu og gert, á grundvelli hennar, tilboð samkvæmt útboðinu. Í þessu ljósi verður ekki séð að ástæða sé til, með vísan til öryggishagsmuna ríkisins, að takmarka rétt kæranda til aðgangs að útboðslýsingunni. Landlækni ber því að afhenda kæranda hana.

Í skýrslu um tegund, magn og geymslustaði hlífðarfatnaðar, sem keyptur hefur verið sem vábirgðir þjóðarinnar (t.d. vegna heimsafaldurs inflúensu), unnin í apríl 2007, er að finna ítarlega umfjöllun um birgðastöðu á þeim vörum sem fest voru kaup á í kjölfar útboðs nr. 14045. Þar er jafnframt að finna ítarlega umfjöllun um það hvar þessar birgðir eru geymdar, auk mynda af umræddum birgðum og geymslustöðum. Með vísan til 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að staðfesta beri synjun landlæknis á að afhenda umrædda skýrslu.

Í tillögum, dags. 29. ágúst 2006, frá faghópi um mat á tilboðum í útboði Ríkiskaupa nr. 14045, er að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál ekki að finna þess háttar upplýsingar um vörurnar sem lagt var til að keyptar yrðu á grundvelli tilboða, eða birgðastöðu þeirra, að þær geti talist varða almannahagsmuni í skilningi 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga þótt þessar upplýsingar yrðu opinberar. Á hinn bóginn er í umræddum tillögum að finna ítarlega umfjöllun um tilboð sem gerð voru í umræddu útboði og um mat á gæðum þeirra vara sem boðnar voru. Þessi umfjöllun, sérstaklega neikvæð umfjöllun um gæði á vörum einstakra bjóðenda, kann að varða mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra í skilningi síðari málsliðar 5. gr. upplýsingalaga sem eðlilegt er að leynt fari. Slíka umfjöllun er að finna mjög víða í umræddum tillögum. Landlæknir hefur til rökstuðnings á synjun á aðgangi að umbeðnu gagni ekki vísað til ákvæðis 5. gr. upplýsingalaga. Í því ákvæði felst hins vegar að óheimilt er að veita aðgang að upplýsingum sem undir það falla. Með vísan til þess staðfestir úrskurðarnefnd um upplýsingamál þá ákvörðun landlæknis að synja um aðgang að umræddu gagni, og byggir þá afstöðu á tilvitnuðu ákvæði 5. gr. upplýsingalaga.

5.
Eins og rakið hefur verið lét kærði, landlæknir, úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af níu kaupsamningum, dags. 6. og 11. október 2011. Allir samningarnir eru gerðir á grundvelli útboðs nr. 14045 og áður hefur verið fjallað um.

Eins og að framan segir hefur landlæknir byggt synjun á aðgangi að þeim gögnum sem kæra málsins beinist að á þeim grundvelli að þau geymi upplýsingar um öryggisbirgðahald sem tengist sóttvörnum. Líkt og afmarkað hefur verið hér að framan felur þessi grundvöllur fyrir synjun landlæknis á aðgangi að umbeðnum gögnum í sér tilvísun til 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið ítarlega alla umrædda kaupsamninga. Í þeim koma fram upplýsingar um lögaðila sem með samningunum taka að sér að selja landlæknir tiltekinn hlífðarfatnað, tilgreining þeirra vara sem um ræðir, ákveðnar upplýsingar um þær vörur s.s. fyrningartíma þeirra og verð. Upplýsingar um þær vörur sem fjallað er um í samningunum leiða í grundvallaratriðum með rökrænum hætti af útboðslýsingu í útboði Ríkiskaupa nr. 14045, en hún verður ekki talin til viðkvæmra eða leynilegra upplýsinga. Þá koma í þessum kaupsamningum ekki fram upplýsingar um það hvar umræddar vörur eru geymdar eða aðrar sambærilegar upplýsingar. Með vísan til þessa verður ekki talið að um sé að ræða upplýsingar sem séu þess eðlis að þær þurfi að fara leynt með vísan til almannahagsmuna samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga..

6.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur einnig yfirfarið umrædda níu samninga með hliðsjón af því hvort í þeim komi fram upplýsingar um einkamálefni þeirra einkaréttarlegu lögaðila sem samningar landlæknis eru við. Nánar tiltekið hefur nefndin tekið til skoðunar hvort í samningunum komi fram upplýsingar sem varði mikilvæg fjárhags- eða viðskiptamálefni þeirra fyrirtækja sem með samningunum hafa tekið að sér að selja landlækni tilteknar vörur og leynt eigi að fara samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“
Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að jafnvel þótt upplýsingar sem fram koma í gögnum málsins geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera lögin ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Ber ennfremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra: hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344).
Í hinum umræddu kaupsamningum koma, eins og fyrr sagði, fram tilteknar upplýsingar um hinar keyptu vörur, þar á meðal verð þeirra.

Fyrir liggur að þessar upplýsingar varða með beinum hætti ráðstöfun opinberra hagsmuna. Í ljósi meginreglu upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 3. gr., geta hagsmunir almennings af því að fá aðgang að slíkum upplýsingum rutt til hliðar viðskiptalegum hagsmunum viðsemjenda ríkisins, enda hafi ekki verið sýnt fram á að það valdi viðkomandi beinu tjóni verði upplýsingarnar gerðar opinberar. Hefur úrskurðarnefndin m.a. byggt á því í úrskurðum sínum að það sjónarmið að upplýsingar um umsamið endurgjald hins opinbera til einkaaðila fyrir veitta þjónustu eða vörur skuli fara leynt verði að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Hefur í því sambandi einnig verið litið til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum, sbr. m.a. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum A-74/1999, A-133/2001 og A-229/2006, svo dæmi séu tekin.

Í þessu ljósi telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að tilvitnaðir níu samningar sem landlæknir gerði á grundvelli útboðs Ríkiskaupa nr. 14045 og dagsettir eru 6. og 11. október 2006 hafi ekki að geyma upplýsingar af því tagi að þær falli undir undantekningarákvæði 5. gr. upplýsingalaga. Kærandi á því rétt á aðgangi að umræddum samningum í heild sinni, án útstrikana.

7.
Eins og rakið hefur verið hefur kærði, landlæknir, ekki látið úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té frekari gögn um viðskipti, sem gerð voru í kjölfar útboðs Ríkiskaupa nr. 14045 frá apríl 2006. Þar á meðal hefur landlæknir ekki látið úrskurðarnefndinni í té afrit af tilboðum þeirra lögaðila sem gerðu samninga um sölu á vörum samkvæmt útboðinu við embættið. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fór þess á leit við embættið að henni yrðu látin í té öll gögn sem féllu undir beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál upplýst að frekari gögn sem lúta að umræddum viðskiptum séu ekki fyrirliggjandi hjá landlækni.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé eftir því óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 4. – 6. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu ber að líta svo á að hjá landlækni séu ekki fyrirliggjandi frekari gögn en hér hefur verið um fjallað og fallið geta undir þá beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem hér er til umfjöllunar.

Úrskurðarorð

Landlækni ber að afhenda kæranda, [A], afrit af útboðslýsingu í útboði Ríkiskaupa nr. 14045, hlífðarfatnaður og tengdar vörur vegna viðbragða við farsótt, apríl 2006.

Landlækni ber jafnframt að afhenda kæranda afrit af  eftirtöldum kaupsamningum:

1. Samningur nr. 14045/1, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [B] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
2. Samningur nr. 14045/2, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [C] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
3. Samningur nr. 14045/3, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [D] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
4. Samningur nr. 14045/4, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [E] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
5. Samningur nr. 14045/5, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [F] hf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
6. Samningur nr. 14045/6, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [G] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
7. Samningur nr. 14045/7, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [H] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
8. Samningur nr. 14045/8, dags. 6. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [I] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.
9. Samningur nr. 14045/9, dags. 11. október 2006, milli landlæknis og fyrirtækisins [J] ehf. um kaup á hlífðarfatnaði og tengdum vörum vegna viðbragða við farsótt.

Að öðru leyti er staðfest synjun landlæknis, dags. 2. nóvember 2011, á beiðni kæranda frá 22. júní 2011, um aðgang að gögnum.

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                    Friðgeir Björnsson
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum