Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. júlí 2012 Forsætisráðuneytið

A-441/2012. Úrskurður frá 5. júlí 2012

ÚRSKURÐUR

Hinn 5. júlí 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-441/2012.

Kæruefni og málsatvik

Þann 29. maí 2012 kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni hans um samning við Hjallastefnuna ehf. um rekstur leikskólans Sóla í Vestmannaeyjum. Fram kemur í kæru að beiðni [A] hafi ekki verið svarað.

Málsmeðferð

Kæran var send Vestmannaeyjabæ með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. maí 2012, þar sem vakin var athygli á því að skv. 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 beri stjórnvaldi að taka svo fljótt sem verða megi ákvörðun um hvort orðið verði við beiðni um aðgang að gögnum. Ennfremur skuli skýra þeim, sem fer fram á aðgang að gögnum, frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta, hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar. Þá beri að tilkynna skriflega synjun beiðni, sbr. 13. gr. sömu laga
Í bréfinu var því beint til Vestmannaeyjabæjar að taka ákvörðun um afgreiðslu á beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið, hefði það ekki þegar verið gert, eða ekki síðar en 8. júní. Innan sama tímafrests skyldi birta ákvörðunina kæranda og nefndinni. Kom fram að kjósi Vestmannaeyjabær að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum, skyldi nefndinni látin í té afrit þeirra innan sama frests. Þá kom einnig fram að kæmi til synjunar væri sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni innan sömu tímamarka, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Með bréfi, dags. 7. júní, barst úrskurðarnefndinni bréf Vestmannaeyjabæjar þar sem frá því er greint að erindi kæranda hefði verið svarað með bréfum 15. febrúar og 29. febrúar 2012. Með bréfinu fylgdu afrit bréfanna til kæranda. Í bréfi Vestmannaeyjabæjar til kæranda, dags. 15. febrúar, segir að enginn samningur sé til við Hjallastefnuna ehf. um rekstur Sóla. Í bréfi Vestmannaeyjabæjar til kæranda, dags. 29. febrúar 2012, segir að samningur við Hjallastefnuna ehf. um rekstur Sóla liggi ekki fyrir en í gangi séu samningaviðræður og samningsgerð. Þá segir að þegar umræddur samningur liggi fyrir undirritaður verði kæranda sent eintak.

Með bréfi, dags. 12. júní, var kæranda sent afrit bréfs Vestmannaeyjabæjar til úrskurðarnefndar, ásamt afritum bréfa bæjarins til kæranda. Í bréfi úrskurðarnefndarinnar sagði að vildi kærandi koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar eða umsagnarinnar væri þess vinsamlegast óskað að þær bærust nefndinni eigi síðar en 19. júní.

Þann 12. júní barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál bréf frá kæranda þar sem fram kom að Vestmannaeyjabær hefði ekki svarað erindi kæranda eftir að bréf úrskurðarnefndarinnar hafi verið sent bænum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda vegna málsins.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.


Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um afhendingu samnings við Hjallastefnuna ehf. um rekstur leikskólans Sóla í Vestmannaeyjum. Í bréfi Vestmannaeyjabæjar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 7. júní, kom fram að erindi kæranda hefði verið svarað með bréfum Vestmannaeyjabæjar, dags. 15. og 29. febrúar. Þar hefði komið fram að umræddur samningur lægi ekki fyrir hjá bænum en unnið væri að gerð hans.

Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að kæra synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum, þ.e. fyrirliggjandi gögnum, undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Sama gildir um synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Sá samningur  sem kærandi hefur óskað eftir liggur ekki fyrir hjá Vestmannaeyjabæ. Hins vegar er komið fram að kæranda verði sent afrit hans þegar hann liggur fyrir. Með vísan til þess ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Tekið er fram að í þessu felst ekki afstaða úrskurðarnefndarinnar til þess hvort Vestmannaeyjabær ætti nú þegar að hafa undirritað samning við Hjallastefnuna ehf. um rekstur leikskólans, enda er það ekki á valdsviði nefndarinnar að fjalla um það álitaefni.

Úrskurðarorð

Kæru [A], dags. 29. maí 2012, á hendur Vestmannaeyjabæ er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                             Friðgeir Björnsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum