Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. júlí 2012 Forsætisráðuneytið

Vistheimilanefnd endurskipuð – falið að rannsaka aðbúnað barna með fötlun

Forsætisráðherra hefur endurskipað vistheimilanefnd með það fyrir augum að taka til sérstakrar rannsóknar vistun og aðbúnað barna með fötlun á opinberum stofnunum. Formaður nefndarinnar verður Hrefna Friðriksdóttir, dósent við lagadeild HÍ, en aðrir nefndarmenn þau Guðrún V. Stefánsdóttir, dósent við menntavísindasvið HÍ, Rannveig Traustadóttir, prófessor við Félagsvísindastofnun HÍ, Stefán J. Hreiðarsson, læknir og forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins, og Þuríður B. Sigurjónsdóttir, lögfræðingur og skrifstofustjóri. Nefndinni hefur verið falið að skoða fyrst starfsemi Kópavogshælisins á árum áður.

Forsætisráðherra vill nota tækifærið og þakka fyrri vistheimilanefnd vel unnin störf en í henni voru Róbert R. Spanó prófessor, Jón Friðrik Sigurðsson, yfirsálfræðingur á Landspítalanum, Ragnhildur Bjarnadóttir dósent og Sigrún Júlíusdóttir prófessor en framkvæmdastjóri nefndarinnar var Þuríður B. Sigurjónsdóttir. Sú nefnd starfaði á árunum 2007 til 2011 og skilaði skýrslum m.a. um vistheimilið Breiðavík, skólaheimilið Bjarg, Heyrnleysingjaskólann og Unglingaheimili ríkisins.

Forsætisráðuneytið hefur verið með til meðferðar erindi frá Landssamtökunum Þroskahjálp þar sem farið er fram á sérstaka rannsókn á aðbúnaði fatlaðra barna á stofnunum á vegum opinberra aðila á árum áður. Með skipun nefndarinnar nú og afmörkun á verkefni hennar er brugðist við þessu erindi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum